26. apr, 2009

Skuldir útvegsins 1986-2008

Mynd 2. Myndin sýnir skuldir útvegsfyrirtækja í milljörðum króna (á verðlagi hvers árs). Skuldirnar námu um 500 milljörðum króna í árslok 2008 skv. framreiknuðum tölum frá Seðlabanka Íslands. Skuldirnar hafa nálega fjórfaldazt frá 1995 sem hlutfall af útflutningsverðmæti sjávarafurða: þær námu 110% af útflutningsverðmætinu 1995 og um 400% 2008. Kvótakerfinu var ætlað að stuðla að hagræðingu og þá væntanlega einnig að endurgreiðslu skulda, en það hefur leitt til þveröfugrar niðurstöðu, skuldasöfnunar — og að vísu einnig til eignamyndunar á móti, en fiskveiðistjórnarkerfinu var ekki ætlað að greiða fyrir áframhaldandi fjárfestingu í útvegi. Útvegsfyrirtækin lögðu kvóta að veði einnig fyrir vafasamri skuldasöfnun utan útvegsins, stundum til að braska með gjaldeyri, og hafa því mörg misst kvótann í hendur lánardrottna. Mörg útvegsfyrirtæki virðast í ljósi þessara talna munu þurfa að skipta um eigendur innan tíðar. Álagning veiðigjalds í tæka tíð — með því að fara gjaldheimtuleiðina, uppboðsleiðina eða afhendingarleiðina eða einhverja blöndu af öllum þrem — hefði leitt til miklu meiri og skjótari hagræðingar en átt hefur sér stað og hefði dregið úr skuldum útvegsins í stað þess að auka þær. Sjá meira um málið í greininni Framleiðni og lánsfé.