Skrudda
2. nóv, 2020

Skáldaskil

Skáldaskil er sögulegur þríleikur í sex þáttum um samskipti skáldvinanna Einars Benediktssonar og Þorsteins Gíslasonar.

Fyrsti hlutinn, Þegar landið vaknar, hefst í Kaupmannahöfn 1896. Þar er Þorsteinn stúdent og lendir í útistöðum við háskólayfirvöld. Dr. Valtýr Guðmundsson dósent og Þorvaldur Pálsson, mágur Þorsteins, koma við sögu. Frá Kaupmannahöfn berst leikurinn til Reykjavíkur þar sem fundum Einars, Þorsteins og Þórunnar Pálsdóttur, unnustu Þorsteins, ber fyrst saman og þeir Einar og Þorsteinn hefja samstarf sem ritstjórar Dagskrár, fyrsta dagblaðs á Íslandi. Leiknum lýkur svo að þeim lýstur saman á opinberum fundi um skáldskap. Þorsteinn segir: Þetta kostar stríð.

Annar hlutinn, Þegar skipið kveður, er millispil og hefst um borð á skipi Austur-Asíufélagsins sem það leggst að bryggju í Jómfrúreyjum 1914. Scott landritari kemur um borð til að lýsa fyrir H. N. Andersen skipstjóra og skipslækninum, Þorvaldi Pálssyni, áhyggjum eyjarskeggja af yfirvofandi sölu eyjanna úr hendi Danakonungs til Bandaríkjastjórnar. Leikurinn berst upp á land. Hamilton Jackson kennari er í hópi landsölumanna. Stella dóttir landritara vill ólm komast burt með skipinu. Leiknum lýkur símskeyti sem berst um byssuskotið í Sarajevó og teflir brottför skipsins í uppnám.

Þriðji hlutinn, Þegar blóðið syngur, gerist á heimili Þorsteins og Þórunnar að Þingholtsstræti 17 í Reykjavík 1932. Þar segir frá endurfundum Einars og Þorsteins fyrir tilstilli Þorvalds, endurfundum sem áttu sér ekki stað svo vitað sé. Þeir Einar og Þorsteinn rifja með hiki upp úlfúðina frá 1896. Spennan fellur hægt. Þeir tala um heima og geima, einkum um stjórnmál og að endingu mest um skáldskap. Þorvaldur og Þórunn láta einnig í sér heyra og Halldór Kiljan Laxess kemur í heimsókn í lokaþættinum, les gömlu mönnunum pistilinn og leiðréttir kveðskap Einars með léttum brag.

Kápuhönnun og myndir:
Aðalsteinn Svanur Sigfússon og Vignir Jóhannsson.
Baksíðumynd af höfundi: Lárus Ýmir Óskarsson.