Háskólaútgáfan
2. jan, 1995

Síðustu forvöð

Texti aftan á kápu

Þessi bók leggur brennandi spurningar fyrir lesandann. Hvers vegna eru laun á Íslandi svona lág? Hvað þarf til að bæta launakjör fólksins í landinu? Hvers vegna eru frændur okkar Írar ein fátækasta þjóð Evrópu? Hvernig tókst Færeyingum að koma efnahagslífi eyjanna á kaldan klaka? Hverjir bera ábyrgðina? Hvers vegna eru Norðurlönd í kreppu? Hvað brást? Hvað getum við lært af hagvaxtarundrinu í Austur-Asíu? Af hverju stafar atvinnuleysi? Hverjir hafa hag af því? Hvers getum við orðið vísari af umskiptum Austur-Evrópulandanna frá miðstjórn til markaðsbúskapar? Hvernig er hyggilegast að haga svo gagngerum umskiptum, í áföngum eða einum rykk? Hvers eðlis er búverndarstefna Evrópusambandsins? Hvað kostar hún? Hvert leiðir hún? Eigum við samleið með Evrópu? Eigum við á hættu að missa bezta fólkið burt? Hvað getum við gert til að snúa vörn í sókn?

Höfundur bókarinnar svarar þessum spurningum fyrir sitt leyti. Hann fjallar skýrt og skorinort um efnahagsógöngur Íslendinga undangengin ár og setur þær í samhengi við ýmsar veilur í innviðum efnahagslífsins, hagstjórn og hagstjórnarfari heima fyrir og einnig við efnahagsörðugleika í öðrum löndum. Hann leiðir rök að því, að rætur efnahagsvandans hér heima liggi djúpt í innviðum samfélagsins, viðhorfum og hugarfari og teygi sig langt aftur í tímann og róttækra efnahags- og stjórnarfarsumbóta sé þess vegna þörf til að leiða Íslendinga út úr ógöngunum.

Háskólaútgáfan
Reykjavík 1995

Úr inngangi

Þessari bók er ætlað að brýna lesandann til umhugsunar um ýmsar brennandi spurningar, sem varða afkomu fólksins í landinu í náinni framtíð og langt fram á næstu öld. Hvers vegna hafa erlend viðskipti okkar Íslendinga staðið í stað eða því sem næst í hálfa öld, á meðan viðskipti annarra þjóða hafa yfirleitt aukizt verulega? Hvað þýðir það? Hvers vegna eru launin svona lág? Hvað þarf til að lyfta þjóðinni upp úr láglaunabaslinu? Hvers vegna eru frændur okkar Írar ein fátækasta þjóð í Evrópu? Hvernig tókst Færeyingum að koma efnahagslífi sínu á kaldan klaka? Hverjir bera ábyrgðina á því? Hvers vegna eru Norðurlönd í kreppu? Hvað brást? Af hverju stafar atvinnuleysi? Hverjir hafa hag af því? Hvað getum við lært af hagvaxtarundrinu í Austur-Asíu? Og hvers getum við orðið vísari af umskiptum Austur-Evrópulandanna frá miðstjórn til markaðsbúskapar? Hvernig er hyggilegast að haga svo gagngerum umskiptum, í áföngum eða einum rykk? Hvers eðlis er búverndarstefnan í Evrópu? Hvað kostar hún? Hvert leiðir hún? Eigum við samleið með Evrópu? Til hvers? Eigum við á hættu að missa bezta fólkið burt? Hvað getum við gert til að snúa vörn í sókn og halda unga fólkinu heima?

Í bókinni leitast ég við að svara þessum spurningum og ýmsum öðrum af áþekkum toga, m. a. með því að setja efnahagsógöngur Íslendinga undanfarin ár í samhengi við ýmsar þrálátar veilur í innviðum efnahagslífsins, hagstjórn og hagstjórnarfari heima fyrir og einnig við efnahagsþróun í öðrum löndum. Ég færi rök að þeirri skoðun, að rætur efnahagsvandans hér heima liggi djúpt í innviðum þjóðfélagsins, viðhorfum og hugarfari og teygi anga sína langt aftur í tímann og róttækra efnahags- og stjórnarfarsumbóta sé þess vegna þörf til að leiða þjóðina út úr ógöngunum. Efni bókarinnar er þó alls ekki bundið við Ísland, heldur geymir hún einnig ýmislegt efni um fjölmörg önnur lönd, fjær og nær. Þessu efni er yfirleitt ætlað hvort tveggja í senn: að veita lesandanum innsýn í efnahagsmál og eitt og annað í þessum löndum og freista þess um leið að skerpa skilning hans á eigin umhverfi hér heima í ljósi reynslunnar að utan.

 

  1. Viðskipti og velferð

Efni bókarinnar er skipað í fjóra bálka. Í fyrstu köflunum tveim er því lýst, hversu erlend viðskipti okkar Íslendinga hafa dregizt aftur úr viðskiptum margra annarra þjóða s. l. hálfa öld. Útflutningur okkar hefur staðið nokkurn veginn í stað sem hlutfall af þjóðarframleiðslu síðan 1945, á meðan útflutningshlutfallið hefur hækkað verulega víðast hvar í löndunum í kringum okkur. Útflutningstregðan hefur bitnað á hagvexti hér heima. Hún stafar að minni hyggju mestan part af því, að gengi krónunnar hefur áratugum saman verið of hátt skráð, svo að útflutningur á ýmislegri iðnaðarvöru og þjónustu hefur ekki getað þrifizt. Þetta er eitt helzta einkenni hollenzku veikinnar, sem svo er nefnd. Hún hrjáir margar þjóðir, sem búa að gjöfulli auðlind til sjós eða lands, t. d. fiski eða olíu, og hafa ekki náð að koma sambúð sjávarútvegsins eða olíuvinnslunnar og annarra atvinnuvega í eðlilegt horf með skynsamlegri gengisskráningu og gjaldheimtu.

Því næst víkur sögunni að lágum launum og lélegum kjörum fjölda fólks á Íslandi. Þjóðartekjutölur frá Alþjóðabankanum í Washington eru dregnar fram til að sýna, að kaupmáttur þjóðarframleiðslu á vinnustund hér heima er nálægt botni meðal iðnríkjanna innan Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) í París. Við erum nú aðeins hálfdrættingar á við Bandaríkjamenn á þennan mælikvarða. Rætur vandans eru raktar í stuttu máli til landlægrar óhagkvæmni í landbúnaði, sjávarútvegi og bankakerfinu auk miðstýringar á vinnumarkaði, en þessum fjórþætta vanda hef ég gert nánari skil í fyrri bókum. Hér er þó bætt við nýju efni um búvöruinnflutningsbannið í sögulegu samhengi. Það er, sýnist mér, ærin ástæða nú til að rifja það upp, að Jón Sigurðsson forseti var eindreginn málsvari viðskiptafrelsis á sem flestum sviðum. Hann nam hagfræði og stjórnmálafræði við Hafnarháskóla auk málfræði og sögu, þótt hann lyki ekki prófi. Hann birti langa og lærða ritgerð, ,,Um verzlun á Íslandi“, í Nýjum félagsritum árið 1843, hina fyrstu eiginlegu hagfræðiritgerð Íslendings, næstum fjörutíu árum áður en séra Arnljótur Ólafsson, sem hafði ekki heldur lokið háskólaprófi í hagfræði, birti bók sína, Auðfræði, en hún kom fyrst út í Kaupmannahöfn árið 1880. Ritgerð Jóns sýnir glöggt, að hann hafði náð prýðilegu valdi á hagfræði síns tíma. Röksemdir hans gegn haftabúskap eiga við orðréttar enn þann dag í dag. Mér finnst því eðlilegt að telja Jón forseta fyrsta hagfræðing Íslands.

Fyrsta bálkinum lýkur með stuttri lýsingu á efnahagsþróun Írlands s. l. 150 ár. Þar er í örstuttu máli reifuð sú skoðun, að Írar séu enn að súpa seyðið af viðskiptaviðjum, sem þeir reyrðu efnahagslíf sitt í fyrr á þessari öld. Þeir eru þó löngu búnir að sjá að sér sem betur fer. Hagvöxtur hefur verið meiri á Írlandi síðan 1980 en í nokkru öðru Evrópulandi. Þjóðarframleiðsla á mann á Írlandi óx um næstum 60% frá 1980 til 1993, eða um 3½% á ári að jafnaði. Það er mikill vöxtur. Til samanburðar óx þjóðarframleiðsla á mann hér heima um 9% á sama tíma, eða um tæplega 0,7% á ári að jafnaði.

 

  1. Ábyrgð

Í öðrum bálki er fyrst sagt frá hlutskipti Færeyinga. Fjárhagshrun Færeyja er að sumu leyti sambærilegt við hrun Sovétríkjanna og leppríkja þeirra í Austur-Evrópu á sama tíma. Landsframleiðsla í Færeyjum hefur dregizt saman um meira en þriðjung síðustu fimm ár líkt og gerzt hefur t. a. m. í Eystrasaltslöndunum, Rússlandi og Rúmeníu. Erlendar skuldir Færeyja eru meiri miðað við landsframleiðslu en nokkurs annars lands í heiminum nema fáeinna örvasa Afríkulanda. Næstum fjórði hver Færeyingur er búinn að missa vinnuna, svo að atvinnuleysið er nú meira þar á eyjunum en í nokkru öðru landi í Evrópu nema á Spáni. Og næstum tíundi hver Færeyingur er fluttur burt, ungt og efnilegt fólk ekki sízt.

Færeyingar hafa næstum allar útflutningstekjur sínar af fiski. Þeir settu eggin sín öll í eina körfu — og glopruðu henni í gólfið. Mikilvægustu fiskstofnarnir umhverfis eyjarnar hafa rýrnað mjög, aðallega vegna ofveiði. Færeyingar festu þar að auki allt of mikið fé í rándýrum fiskiskipum og fiskvinnslustöðvum: þeir byggðu 21 verksmiðju, þegar tvær eða svo hefðu líklega dugað til að vinna þann fisk, sem barst á land. Þeir fjárfestu einnig um of á öðrum sviðum, mest fyrir lánsfé. Þeir reistu þrjú elliheimili og þrjár hafnir á eyju með 1700 manns. Fjárfestingaræðið leiddi til mikillar uppsveiflu í efnahagslífinu um skeið. Samt hlaut hagkerfið að kikna á endanum undan ofurþunga óarðbærrar fjárfestingar og ofdekraðs, óhagkvæms sjávarútvegs, sem nærðist á styrkjum, boðum og bönnum og hafði auk þess verið rofinn úr sambandi við heimsmarkaðinn. Þannig hrundu einnig Sovétríkin, nema þar var atvinnulífið næstum allt í hlutverki færeysks sjávarútvegs og niðurnídd náttúra landsins í hlutverki fiskstofnanna umhverfis eyjarnar.

Hvers vegna fóru Færeyingar svo illa að ráði sínu? Fjármálaráðherra þeirra sagði við Wall Street Journal árið 1987: ,,Það er rótgróin sannfæring okkar, að Danmörk láti okkur ekki verða gjaldþrota.“ Það er samt ekki allt. Þeir fóru svona að ráði sínu einnig vegna rótgróinna galla á samfélagsgerð þeirra sjálfra. Í krafti auðs og valds gátu útgerðarmenn í raun og veru ráðið því, sem þeir vildu ráða um löggjöf og framkvæmd laga, um útlán banka og sjóða, um fréttir og frásagnir fjölmiðla og þannig áfram. Þetta gerðist án nokkurrar alvarlegrar umræðu um afleiðingarnar, ef frá eru taldar fáeinar gagnrýnisraddir, en þær heyrðust varla fyrir hávaðanum í hinum, sem stóðu vörð um óbreytt ástand. Nómenklatúran notfærði sér sinnuleysi almennings til að ná sínu fram. Það hefði verið hægt að koma í veg fyrir hrunið með því að takmarka aðgang útvegsmanna að fiskimiðunum, ekki með sovézkum boðum og bönnum, því að það er bæði óhagkvæmt og óréttlátt, heldur með því að verðleggja veiðiréttinn. Þannig hefði verið hægt að beizla markaðsöflin til að tryggja hagkvæma og réttláta nýtingu fiskimiðanna og þá um leið varðveizlu fiskstofnanna handa komandi kynslóðum. Þetta var ekki gert.

Þessi sorgarsaga vekur spurningar um ábyrgð. Flestir Færeyingar virtust halda, að allt væri í himnalagi, unz voðinn brast á næstum eins og þruma úr heiðskíru lofti. Jafnvel stjórnmálaforingjarnir virtust koma af fjöllum. Flestir þeirra, sem helzt hefðu átt að sjá hættuna fyrir og vara við henni, þögðu þunnu hljóði — að því er virðist til að stugga ekki við þeim, sem réðu lögum og lofum í landinu, og til að komast þannig sjálfir hjá óþægindum. Þeir bera þunga ábyrgð, því að

þau eru verst hin þöglu svik,
að þegja við öllu röngu.

Þetta leiðir hugann aftur hingað heim. Hér ríkti löngum undarleg lognmolla í opinberum umræðum um ýmis brýn þjóðþrifamál, þótt ástandið hafi að vísu breytzt til batnaðar hin síðustu ár. Halldór Laxness gagnrýndi t. d. landbúnaðarstefnu stjórnvalda harkalega með hárréttum rökum fyrir hálfri öld, en það getur þó ekki heitið, að gagnrýni hans hafi fengið nokkrar umtalsverðar undirtektir fyrr en löngu, löngu síðar. Svipaða sögu er að segja um sjávarútvegsmál: nokkrir hagfræðingar héldu fram kostum veiðigjalds með sterkum hagkvæmnis- og réttlætisrökum þegar á fyrri hluta áttunda áratugarins, en þó hefur enginn þriggja stærstu stjórnmálaflokkanna í landinu tekið þeim rökum enn sem komið er, heldur aðeins tveir (eða þrír) af þrem minnstu flokkunum á þingi — og það ekki fyrr en á síðasta kjörtímabili (eða þessu). Hér er samt ekki við stjórnmálamenn eina að sakast, heldur einnig embættismenn, sem hafa atvinnu af því að fylgjast með gangi efnahagsmála og leggja á ráðin um hagstjórn í umboði almennings. Mér sýnist skorta á það, að embættismenn í helztu efnahagsstofnunum landsins, einkum í Þjóðhagsstofnun og Seðlabanka Íslands, veiti stjórnvöldum það aðhald, sem ætlast má til og slíkar stofnanir veita og eiga að veita í nálægum löndum.

Hér sjást t. a. m. ennþá engin merki þess, að stjórnvöld telji nauðsynlegt eða æskilegt að auka sjálfstæði Seðlabankans innan stjórnkerfisins til samræmis við þróun seðlabankamála víðast hvar í nágrannalöndum okkar á liðnum árum. Öðru nær, því að Seðlabankinn hefur sennilega aldrei verið hallari undir stjórnmálahagsmuni en hann er nú, svo sem ráða má af núverandi skipan bankastjórnarinnar. Þess vegna getur bankinn ekki gert nema brot af því gagni, sem hann þyrfti að gera til að standast sanngjarnar gæðakröfur og til að réttlæta þann kostnað, sem þjóðin ber af bankanum. Núverandi ástand býður auk þess þeirri hættu heim, að Seðlabankinn byrji aftur að prenta peninga og fella gengi krónunnar með gamla laginu eftir geðþótta stjórnmálamanna, hvenær sem þeim býður svo við að horfa. Varla líður svo dagur eða vika, að erlend blöð eins og t. d. Financial Times eða International Herald Tribune greini ekki frá góðfúslegri gagnrýni sjálfstæðra seðlabanka á ríkisstjórnir heima fyrir eða frá vinsamlegum umvöndunum og viðvörunum úr þeirri átt til almennings og stjórnvalda. Hér heima heyrist á hinn bóginn hvorki hósti né stuna frá Seðlabankanum, þótt ærin tilefni séu til. Banka- og sjóðakerfi landsmanna hefur t. d. tapað 50 milljörðum króna síðan 1987 skv. síðustu tölum, án þess að Seðlabankinn, sem lögboðin bankaeftirlitsskylda hvílir þó á, hafi haft nokkuð til málsins að leggja opinberlega annað en að gera sem minnst úr öllu saman eftir dúk og disk. Nú er þó loksins farið að bera nokkuð á því, að erlendar efnahagsstofnanir, sem Ísland er aðili að, fetti fingur út í stefnu stjórnvalda hér heima og reyni að beina henni í réttan farveg fyrir opnum tjöldum. Það er framför og fordæmi, sem íslenzkir embættismenn eiga vonandi eftir að fylgja.

 

  1. Úr vörn í sókn

Í þriðja bálkinum segir fyrst frá efnahagskreppu Norðurlanda hin síðustu ár. Velferðarríki Norðurlanda eru bersýnilega ekki lengur ónæm fyrir atvinnuleysisbölinu, sem hefur herjað á meginland Evrópu síðan 1980. Þarna eru færð rök að því, að miðstýring launamyndunar ásamt ósveigjanleika á vinnumarkaði eigi umtalsverðan þátt í atvinnuleysinu í Evrópu og þá einnig á Norðurlöndum, þótt stjórnvöldum þar hafi að vísu tekizt að halda atvinnuleysinu niðri í nokkurn tíma með örvandi aðgerðum í ríkisfjármálum, lántökum og lággengisstefnu. Því næst eru sagðar nokkrar kraftaverkasögur um sóknarfæri úr erfiðri aðstöðu. Hin fyrsta er af bónda nokkrum norður við heimskautsbaug. Hann rekur kúabú sitt af mikilli hæfni og hugkvæmni, og honum vegnar vel, þótt hann þiggi enga styrki af almannafé. Kýrnar ganga lausar í kulda og frosti á veturna og virðast una því ágætlega. Því næst er sagt frá árangri afburðalandanna átta í Austur-Asíu, sem Alþjóðabankinn hefur nefnt svo, en þau eru: Hong Kong, Indónesía, Japan, Kórea, Malasía, Singapúr, Taíland og Taívan. Þessum átta löndum tókst að fjórfalda þjóðarframleiðslu á mann að jafnaði árin 1965-90, svo að tekjubilið á milli þeirra og iðnríkjanna innan OECD minnkaði um helming á sama tíma. Nú eru þjóðartekjur á mann í Hong Kong og Singapúr komnar upp fyrir tekjur á mann í móðurlandinu, Bretlandi, og einnig hér heima. Fólkið í þessum löndum var bláfátækt fyrir fáeinum áratugum, en hefur nú fengið sér sæti við háborðið í heimsbúskapnum. Mikill hagvöxtur, lítil verðbólga og lítið atvinnuleysi hafa haldizt í hendur.

Góð hagstjórn virðist hafa átt mikinn þátt í þessum gagngeru umskiptum. Þrennt virðist einkum hafa skipt mestu máli: mikill sparnaður og hagkvæm fjárfesting í skjóli stöðugs verðlags, mikil og vaxandi viðskipti við umheiminn í skjóli skynsamlegrar gengisskráningar og rík áherzla á menntun á öllum skólastigum. Ýmislegt annað lagðist á sömu sveif. Vinnumarkaður hefur t. d. þróazt með allt öðrum hætti þarna austur frá en í Evrópu: í Austur-Asíulöndunum er yfirleitt samið um kaup og kjör á hverjum vinnustað fyrir sig án afskipta voldugra verklýðsfélaga og vinnuveitendasamtaka á landsvísu, eins og tíðkast um alla Evrópu nema í Sviss (og sums staðar í Austur-Evrópu).

Þessum bálki lýkur síðan með hugleiðingum um þann séríslenzka vanda, sem fylgir því, að sumir þeirra, sem fjalla mest um fjármál þjóðarinnar eða stýra þeim, virðast vera tiltakanlega fákunnandi til þeirra verka án þess að gera sér grein fyrir því. Þetta virðist stafa sumpart af landlægri oftrú á brjóstvit og vantrú á bókvit og sumpart af slagsíðu í skólakerfinu, þar sem framhaldsskólanemendum eru kennd reiðinnar býsn í raunvísindum, svo sem eðlisfræði, efnafræði og náttúrufræði, en lítið eða ekkert í hagfræði og öðrum félagsvísindum. Þessa skekkju er brýnt að leiðrétta, þannig að flestum framhaldsskólanemum sé kennt fyrir tvítugt svipað námsefni og nú er í boði t. d. á fyrsta ári náms í viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands til samræmis við þær námskröfur, sem gerðar eru til jafnaldra þeirra t. d. í Bandaríkjunum. Þar í landi les næstum helmingur allra 18-19 ára unglinga jafnmikla hagfræði og kennd er á fyrsta ári hagfræðináms í evrópskum háskólum. Þegar þetta misræmi er úr sögunni, er þess að vænta, að almennur skilningur á efnahagsmálum hér heima eflist til muna, svo að fólki veitist það auðveldara en ella að greina rétt frá röngu í umræðum um efnahagsmál og halda lýðskrumurum þannig í hæfilegri fjarlægð.

Þessi menntunarvandi teygir anga sína í allar áttir. Það er t. a. m. vel þekkt víða úti á landi, að sumir efnilegir unglingar hafa látið mikinn afla úr sjó freista sín til að hætta í skóla, stundum jafnvel að undirlagi foreldra sinna, svo að þeir gætu heldur farið að vinna fyrir sér sem fyrst við færiböndin í fiskvinnslunni. Sumt af þessu unga fólki hefur þannig misst af dýrmætum tækifærum til að afla sér menntunar til annarra og betur launaðra starfa, þegar fram í sækir og fiskaflinn dvín. Þessi freisting hefur dregið úr þrótti ungs fólks á landsbyggðinni til að hasla sér völl utan sjávarútvegs og um leið rýrt þrek stjórnvalda til að renna fleiri og fjölbreyttari stoðum undir atvinnulífið og halda ofveiðinni í skefjum. Við þetta bætist svo víða sú undarlega meinloka, að sjávarútvegur sé upphaf og endir alls lífs, sem lifandi sé í landinu.

Þrálátar þjóðfélagsmeinsemdir eiga sér yfirleitt þá einföldu skýringu, að miklir hagsmunir eru bundnir við óbreytt ástand. Of mikil einhæfni íslenzks atvinnulífs enn þann dag í dag — þrátt fyrir ítrekaðar heitstrengingar stjórnvalda áratugum saman um aukna fjölbreytni — stafar m. a. af því, að fólk hefur reynzt ófúst til að slíta sig frá sjósókn og fiskvinnslu á þeim kjörum, sem þar bjóðast. Þetta fólk vill halda áfram að vinna við sjávarútveg, þótt það kosti ofveiði og endalausan hallarekstur, svo lengi sem því sjálfu finnst það borga sig. Þetta er eðlilegt sjónarmið, en það sýnir einnig, að rekstrarumhverfið, sem stjórnvöld búa sjávarútveginum, er ekki heilbrigt. Í heilbrigðu umhverfi myndi fólk flykkjast burt úr atvinnugrein, þar sem fjöldi fyrirtækja er á hvínandi kúpunni, og fá sér önnur, betur launuð verk að vinna. Einmitt þannig hefur Evrópa breytzt úr fátæku bændasamfélagi í forríkt iðnaðar-, verzlunar- og þjónustuþjóðfélag á fáeinum áratugum.

Við getum nálgazt ýmsar aðrar meinsemdir, t. d. atvinnuleysisbölið, með sömu aðferð: atvinnuleysi heldur áfram svo lengi sem voldugir hópar í samfélaginu hafa hag af því. Sumir hópar hafa hag af atvinnuleysi, t. d. þeir, sem semja um há laun handa sjálfum sér, þótt aðrir veikari hópar séu þá um leið verðlagðir út af vinnumarkaðinum, og einnig þeir, sem standa gegn lækkun launatengdra gjalda og skipulagsumbótum á vinnumarkaði, þótt hvort tveggja gæti dugað til að draga úr atvinnuleysinu.

 

  1. Umskipti

Hversu líklegt er það, að gagngerar efnahagsumbætur nái fram að ganga í blóra við þá miklu hagsmuni, sem eru yfirleitt bundnir við óbreytt ástand? Um það og fleira fjallar fjórði og síðasti bálkurinn, sem er lengstur. Hann hefst í Rússlandi. Þar segir fyrst frá hugrökkum umbótasinnum, sem báru hitann og þungann af umskiptum Rússlands frá miðstjórn til markaðsbúskapar, kornungum, sjálfmenntuðum mönnum, sem tóku mikla áhættu, en eru nú flestir horfnir úr ríkisstjórn landsins að loknu verki og eru í stjórnarandstöðu á þingi. Brotthvarf þeirra úr ríkisstjórninni hafði ekki eins alvarlegar afleiðingar og margir óttuðust í fyrstu, því að ekki varð aftur snúið af þeirri braut, sem þeir höfðu markað. Þá segir frá umskiptunum í Rússlandi og annars staðar í kommúnistalöndunum fyrrverandi. Þar hafa miklir atburðir gerzt. Í Rússlandi starfa nú t. d. þrír ríkisbankar við hlið meira en 2000 einkabanka. Ríkisbankarnir þrír standa á bak við þriðjunginn af útlánum bankakerfisins þar eystra, en einkabankarnir standa á bak við þá tvo þriðju hluta, sem eftir eru. Í Lettlandi eru einnig þrír ríkisbankar og standa á bak við einn sjöunda af heildarútlánum, en rösklega 50 einkabankar sjá um afganginn. Þetta er gagnger breyting — sannkölluð bylting! — í löndum, þar sem einkabankar voru óþekktir og óhugsandi fyrir aðeins fjórum árum. Þetta er verðugt umhugsunarefni okkur Íslendingum, sem búum enn við bankakerfi, þar sem tveir ríkisbankar stunda tvo þriðju hluta heildarútlána. Atburðirnir þarna austur frá hafa sýnt okkur og sannað, að gagnger umskipti geta átt sér stað, sé almennur skilningur á nauðsyn þeirra og leiðtogarnir vandanum vaxnir.

Síðan eru raktar ýmsar upplýsingar um þróun efnahagsmála í umskiptalöndunum síðustu ár. Þær sýna, að mikill árangur hefur náðst við erfiðar aðstæður. Framleiðsla hrundi að vísu í öllum þessum löndum, en það stafar ekki fyrst og fremst af umbótunum, heldur af hæggengri eyðileggingu efnahagslífsins marga áratugi aftur í tímann. Framleiðsluhrunið var því hluti af hreingerningunni. Það var verðbólgan einnig, en hún gaus upp um leið og verðlag var gefið frjálst. Verðbólgan kraumaði alltaf undir yfirborðinu í stjórnartíð kommúnista, en henni var haldið niðri með handafli. Í langflestum þessara landa — öðrum en suðurríkjum Sovétríkjanna sálugu, þar sem nauðsynlegar umbætur drógust úr hömlu — er framleiðslan nú aftur byrjuð að aukast og verðbólgan að hjaðna. Eigi að síður býr mikill fjöldi fólks í þessum löndum við afar kröpp kjör, en það er ekki umskiptunum að kenna, heldur óstjórn undangenginna áratuga. Léleg lífskjör í langan tíma hafa leitt til þess, að meðalævi rússneskra karla hefur stytzt síðan 1970 úr 63 árum í 57 ár, á meðan ævilíkur bandarískra karlmanna hafa lengzt úr 67 árum í 72 ár. Munurinn hefur því næstum fjórfaldazt s. l. aldarfjórðung. Til samanburðar er meðalævi karla á Indlandi og í Kína nú talin vera 61 ár og 68 ár.

Þessu næst víkur frásögninni að væntanlegri inngöngu Mið- og Austur-Evrópulanda í Evrópusambandið. Öll þessi lönd hafa nú þegar sótt um aðild eða lýst því yfir, að umsókn sé á leiðinni, enda líta þau á inngöngu sína í Evrópusambandið sem síðasta áfangann á leið sinni frá miðstjórn til markaðsbúskapar. Fólkið í þessum löndum er ekki aðeins að hugsa um landvarnir og vestræn lífskjör, heldur er það einnig að marka sér bás í samfélagi Evrópuþjóðanna. Þessu fólki liggur á. Það má ekki til þess hugsa að hafna utan garðs í evrópsku samstarfi og standa utan Evrópusambandsins, ef svo illa skyldi fara, að einræðisseggir næðu völdum á nýjan leik í Rússlandi. Sameiginleg landbúnaðarstefna Evrópusambandsins er helzti Þrándur í Götu Mið- og Austur-Evrópuþjóðanna, því að óbreytt búverndarskipulag myndi reynast Evrópusambandinu allt of dýrt við útvíkkun Sambandsins til austurs. Þess vegna ber brýna nauðsyn til að breyta búverndarstefnunni sem allra fyrst. Þröngir skammtímahagsmunir tiltölulega fámennrar bændastéttar í Frakklandi og öðrum Evrópusambandslöndum mega ekki standa í vegi fyrir nauðsynlegum umbótum í landbúnaðar- og byggðamálum og útiloka á annað hundrað milljónir manns í Mið- og Austur-Evrópu frá aðild að Sambandinu.

Þetta leiðir þráðinn í bókinni að evrópskum landbúnaði, og segir þá frá því, hvernig atvinnulíf í álfunni hefur þróazt á þessari öld frá landbúnaði að iðnaði, verzlun og þjónustu. Þarna er fjallað um sérkenni landbúnaðar, svo sem samspil lífrænna og hagrænna fyrirbæra, sem leiða óumflýjanlega til samdráttar í landbúnaði um heimsins breiðu byggð. Aukin framleiðni í kjölfar vélvæðingar, betri áburðar og annarra tækniframfara dregur úr þörf fyrir mannskap við matvælaöflun handa hægt vaxandi fólksfjölda, en matarþarfir manna eru á hinn bóginn bundnar við tiltekinn fjölda hitaeininga á dag. Með hækkandi tekjum vilja flestir komast yfir meiri og betri neyzluvörur eins og húsnæði, bíla og fatnað, en eftirspurn eftir fæðumagni helzt lítið breytt, hvað sem gæðum líður. Færri og færri bændur þarf því til þess að brauðfæða fólksfjöldann með tímanum, sem betur fer. Þetta er kjarni landbúnaðarvandans um allan heim.

Þarna er enn fremur gerð grein fyrir nýjum útreikningum, sem leiða til þeirrar niðurstöðu, að kostnaður almennings af verndarstefnu í landbúnaði sé meiri en áður hefur almennt verið talið. Þessi niðurstaða fæst með því að gera ráð fyrir þeim skaða, sem iðnaður, verzlun og þjónusta verða að bera vegna búverndarstefnunnar. Fyrri rannsóknir hafa bent til þess, að heildarkostnaður neytenda og skattgreiðenda umfram hagsbætur bænda og landeigenda vegna verndarstefnunnar í iðnríkjum OECD nemi að jafnaði um 1% af landsframleiðslu, en við nánari skoðun virðist mega hækka þetta mat í 3% af landsframleiðslu eða þar um bil. Lægri kostnaður og lægra búvöruverð vegna frjálsari millilandaviðskipta geta örvað evrópskt efnahagslíf til langs tíma litið, skapað skilyrði til vaxtalækkunar án verðbólgu og dregið um leið úr atvinnuleysi í álfunni. Frjálsari búvöruviðskipti geta einnig orðið til að auka hagvöxt í Mið- og Austur-Evrópu, þar sem þau munu leiða til þess, að útflutningur mun aukast þaðan á næstu árum. Þrátt fyrir þetta kunna þó að vera gild menningarrök fyrir áframhaldandi stuðningi almannavaldsins við evrópskan landbúnað, en ef svo er, þá verður slíkur stuðningur að vera hagkvæmari og markvissari en hann er nú.

Þessar bollaleggingar um evrópsk landbúnaðarmál leiða hugann svo aftur hingað heim. Eigum við Íslendingar heima í Evrópusambandinu? Ég svara þeirri spurningu ekki afdráttarlaust fyrir mitt leyti í bókinni, því að hér er í mörg horn að líta, en mér virðast þó ýmis gild efnahags- og menningarrök hníga í átt að inngöngu, úr því sem komið er. Við gætum hugsanlega haslað okkur völl utan Evrópusambandsins með því að ganga á eigin spýtur enn lengra en Sambandslöndin í átt til aukins viðskiptafrelsis og ýmissa skipulagsumbóta, t. d. í landbúnaðar- og bankamálum og á vinnumarkaði, til að bæta okkur upp óhagræðið af því að standa fyrir utan. Hitt virðist mér þó líklegra, að við þurfum á Evrópusambandsaðild að halda til að dragast ekki á næstu árum enn lengra aftur úr Sambandslöndunum á viðskiptasviðinu og í skipulagsmálum atvinnulífsins. Við megum ekki heldur horfa fram hjá þeirri gagngeru breytingu, sem er að verða á Evrópusambandinu. Í árslok 1994 voru Sambandslöndin ennþá 12 talsins, og íbúafjöldi þeirra var þá tæpar 30 milljónir að meðaltali. Ef EFTA-löndin, Kýpur, Malta og Mið- og Austur-Evrópulöndin ganga inn í Sambandið á næstu árum, svo sem flest virðist nú benda til, þá verða aðildarlöndin rösklega 30, og íbúafjöldi þeirra verður þá aðeins um 15 milljónir að meðaltali. Evrópusambandið er m. ö. o. að breytast í smáríkjabandalag, þar sem öll nema átta fjölmennustu ríkin, þ. e. þrjú af hverjum fjórum aðildarríkjum, hafa um eða innan við 10 milljónir íbúa. Smáríkin munu þá trúlega taka höndum saman til að tryggja eigin hagsmuni. Þó virðast stórveldin í Sambandinu ekki líkleg til að reyna einhver bolabrögð, enda eru sjónarmið þeirra býsna ólík að ýmsu leyti. Evrópusambandið er að breytast í allsherjarbandalag Evrópuríkja. Þjóð, sem var meðal stofnenda Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans eftir heimsstyrjöldina síðari og Atlantshafsbandalagsins fáeinum árum síðar og gekk síðan ótrauð inn í EFTA árið 1970, þarf að hugsa sig vandlega um, áður en hún hafnar aðild að slíku allsherjarbandalagi.

Síðasti kaflinn er samnefndur bókinni. Þar er athygli lesandans beint að þeirri stöðnun, sem hefur einkennt íslenzkt efnahagslíf allar götur síðan 1988. Kyrrstaðan er í rauninni arfur frá fyrri tíð. Hún stafar að miklu leyti af því, að verðbólgan, skuldasöfnunin og ofveiðin, sem höfðu gert okkur kleift að lifa árum saman um efni fram, hafa rénað, a. m. k. í bili. Hagvöxturinn, sem við bjuggum við, að vísu með rykkjum og skrykkjum, fram til ársins 1987, hvíldi því að nokkru leyti á fölskum forsendum. Við lifðum vel, en á kostnað næstu kynslóðar. Kyrrstaðan síðan 1988 felur í sér alvarlega viðvörun, sem stjórnvöld hafa ekki tekið nógu nærri sér að minni hyggju. Kreppan væri dýpri en hún er nú, hefðu íslenzk fiskiskip ekki rutt sér braut til veiða í Smugunni á elleftu stundu í óþökk Norðmanna og Rússa. Smuguveiðarnar (og væntanleg stækkun álversins í Straumsvík!) kunna að hafa slævt skilning stjórnvalda, og e. t. v. einnig almennings, á þeim djúpstæða vanda, sem við er að etja. Þegar Smugan lokast eða tæmist eftir tvö til þrjú ár, svo sem ætla má, mun vandinn varla leynast öllu lengur, nema mönnum takist þá að troða sér í nýjar smugur.

Síðustu fimm ár eru eitt mesta framfaraskeið í hagstjórnarsögu heimsins frá öndverðu. Með rök og reynslu að leiðarljósi hafa fjölmargar þjóðir víðs vegar um veröldina lyft Grettistaki í efnahagsmálum heima fyrir með því að gefa markaðsöflum lausan taum í viðskiptum og skipulagi efnahagslífsins. Þennan tíma höfum við Íslendingar ekki nýtt að neinu gagni til að rétta rammskakka innviði efnahagslífsins hér heima og til að búa í haginn fyrir framtíðina, svo sem brýna nauðsyn bar þó til. Tveir stærstu stjórnmálaflokkar landsins, sem hafa setið að völdum á víxl eða báðir í einu s. l. 65 ár samfleytt, ef utanþingsstjórnin 1942-44 og tvær skammlífar minnihlutastjórnir eru undan skildar, bera höfuðábyrgð á hnignun undangenginna ára. Þeir eiga því ekki auðvelt með að viðurkenna þörfina fyrir vasklegar umbætur, t. d. í kjördæmamálum, landbúnaðarmálum og bankamálum, því að í því fælist þá einnig viðurkenning á því, hversu mjög þeim hafa verið mislagðar hendur við landsstjórnina á liðnum árum. Forustumenn flokkanna hafa því hag af því að þræta fyrir ófremdarástandið í lengstu lög og láta sem allt sé í lagi. Auk þess vita þeir það vel, að réttlát kjördæmaskipan, hagkvæmt og heilbrigt bankakerfi (og aðild Íslands að Evrópusambandinu!) myndu svipta þá völdum og forréttindum, enda helgast umbótaþörfin m. a. af nauðsyn þess að dreifa valdi og vernda almenning þannig gegn yfirsjónum og afglöpum innlendra stjórnvalda. Forustumönnum stjórnmálaflokkanna er hollt að hafa það í huga, að veður geta skipazt æði skjótt í lofti á starfsvettvangi þeirra. Þeir skulu ekki gleyma því, að stærsti stjórnmálaflokkur Kanada var nánast þurrkaður út af þingi í einni svipan fyrir fáeinum árum. Þeir skulu ekki heldur horfa fram hjá því, að stærsti stjórnmálaflokkur Ítalíu, sem hafði stjórnað landinu samfleytt í hálfa öld ásamt öðrum, var einnig þurrkaður út í einum þingkosningum. Brennuvargar henta yfirleitt ekki vel til slökkvistarfa.

* * *

Einhverjum lesendum mun eflaust mislíka boðskapurinn í þessari bók. Þetta á e. t. v. ekki sízt við um þá, sem telja, að þeir myndu ekki sjálfir ríða feitum hesti frá þeim róttæku efnahagsumbótum, sem bókin mælir með. Við þessu er ekkert að segja annað en það, að allur þorri almennings hagnast ævinlega á skynsamlegum efnahagsumbótum, þegar upp er staðið. Til þess og einskis annars er leikurinn gerður. Einhverjum mun e. t. v. finnast, að efni bókarinnar sé bundið um of við efnahagsumbætur og öðrum brýnum umbótum, t. d. í stjórnskipun og stjórnarfari, og ýmsum stjórnmálavandkvæðum þar að lútandi sé ekki gert nógu hátt undir höfði. Á þetta get ég fallizt að nokkru leyti, en ég er þó ekki þeirrar skoðunar, að stjórnarfarsumbætur séu ævinlega forsenda efnahagsumbóta frekar en öfugt. Mér sýnist þetta styðja hvort annað. Reynslan utan úr heimi síðustu ár og áratugi virðist benda til þess, að gagngerar efnahagsumbætur geti náð fram að ganga og skilað miklum árangri við margvíslegar aðstæður á stjórnmálavettvangi.

Einhverjir munu e. t. v. líta svo á sumar ritgerðirnar í bókinni, að í þeim felist lítilsvirðing eða jafnvel beinlínis ögrun við þá menn og flokka, sem mestu hafa ráðið um efnahagsþróun landsins á liðnum árum. Við þessu er ekki neitt að segja nema það, að þunga þjóðfélagsgagnrýni, hversu málefnaleg sem hún er, hljóta einhverjir að þurfa að taka til sín. Sumum kann að finnast, að fulldjúpt sé í árinni tekið hér og þar. Ég legg það í dóm lesandans. Reyndar lít ég sjálfur svo á, að ég hafi yfirleitt frekar sagt of lítið en of mikið, ef eitthvað er. Ég hef talið nauðsynlegt að gæta þess eins vandlega og mér var framast unnt að skrifa aldrei stafkrók, sem ég gæti ekki staðið við, því að ella myndu herskarar hagsmunaveldisins rísa upp til andmæla og ráðast fram og fáir koma til varnar. Ég hef því ætíð reynt að flytja mál mitt eins rólega og rök mín leyfa. Þessari reglu hef ég fylgt út í æsar þau sautján ár, sem ég hef skrifað um efnahagsmál í íslenzk blöð og tímarit. Ég hef á hinn bóginn einnig orðið þess var, að öðrum finnst, að svo mildur og varfærnislegur málflutningur geti ekki hitt í mark í síharðnandi samkeppni um athygli almennings og þess háttar mildi og mýkt eigi ekki heldur við frammi fyrir svo alvarlegum mistökum, sem hafa mótað efnahags- og stjórnmálaþróun landsins að miklu leyti undangengna áratugi. Ég skil og virði nauðsyn þess að skafa ekki utan af hlutunum, þegar það á við, en mér finnst boðskapur þessarar bókar ekki þurfa á því að halda. Mér dugir að vita með vissu, að veldi sérhagsmunahópa og erindreka þeirra á vettvangi stjórnmálanna má sín lítils gegn skynsamlegum hugmyndum, þegar öllu er á botninn hvolft.

Efnisskrá

 

Inngangur

  1. Viðskipti og velferð
  2. Leiðin til útflutnings
    1. Útflutningur hér og þar
    2. Veiðigjald og gengi
    3. Á fundum eða frjálsum markaði?
  3. Hollenzka veikin
    1. Rétt gengi eða rangt?
    2. Útflutningur í járnum
    3. Sérhagur gegn samhag
  4. Þess vegna eru launin svona lág
    1. Landlæg óhagkvæmni
    2. Djúpar rætur
    3. Kæfandi faðmlag
  5. Innflutningsbann
    1. Hvað hefði Jóni forseta fundizt?
    2. Hverjir bera ábyrgðina?
    3. Hversu hratt á að lyfta banninu?
  6. Írland: Hvað fór úrskeiðis?
    1. Hungrið mikla
    2. Hægur vöxtur
    3. Höft
  7. Ábyrgð
  8. Sjálfskaparvíti
    1. Forsaga
    2. Samband eða sjálfsstjórn?
    3. Leikreglur og lög
    4. Ofurvald útgerðarinnar
    5. Þekkingarleysi
    6. Að leikslokum
  9. Ábyrgð embættismanna
    1. Þögnin rofin
    2. Sendiráð sérhagsmuna
    3. Skyldur embættismanna
  10. Fyrst GATT, síðan OECD
  11. Fjörutíu milljarðar á milli vina
    1. Hversu mikill er skaðinn?
    2. Ábyrgð
    3. Eftirlit

III. Úr vörn í sókn

  1. Norðurlönd í kreppu: Hvað brást?
    1. Baksvið
    2. Frá verðbólgu til atvinnuleysis
    3. Innviðir skipta miklu máli
    4. Niðurlag
  2. Heimskautabóndinn
  3. Heimur úr hafti
    1. Átta lönd í Asíu
    2. Sparnaður, fjárfesting og verðbólga
    3. Menntun og mannauður
    4. Erlend viðskipti
    5. Indland og Kína
    6. Hingað heim
  4. Hagvaxtarundrið í Asíu
    1. Svo sem þér sáið
    2. Skipulag vinnumarkaðsins
    3. Viðurlög gegn spillingu
  5. Þjóðsögur
    1. Apar og tölfræði
    2. Að stinga höfðinu í sandinn
    3. Trúarbrögð og tannpína
  6. Lögregluhagfræði
    1. Samgöngur, verð og menntun
    2. Atvinnuleysi
    3. Lág laun
  7. Umskipti
  8. Kynslóðaskipti í Rússlandi
    1. Hamar og sigð
    2. Of geyst? Nei, of hægt!
  9. Umbætur í austri
    1. Aðdragandinn
    A. Miðstjórn og ríkisrekstur
    B. Offjárfesting
    C. Þjónustufirring
    D. Ofvaxtarfíkn
    E. Fáfræði, fúsk og spilling

    2. Umskiptin
    A. Frá miðstjórn á markað
    B. Betra fjármagn
    C. Meiri og betri þjónusta
    D. Minni og betri fyrirtæki
    E. Endurmenntun

    3. Áframhaldið
  10. Viðskipti austurs og vesturs: Hversu frjáls? Hversu fljótt?
    1. Viðskipti, umbætur og hagvöxtur
    2. Forsendur árangursríkra umskipta
    3. Hversu fljótt?
  11. Búverndarstefnan í Evrópu: Hvað hún kostar og hvert hún leiðir
    1. Inngangur
    A. Líf, tækni og saga
    B. Upphaf búverndarstefnu
    C. Kostnaður af stuðningi við landbúnað

    2. Þjóðhagslegar afleiðingar búverndarstefnu
    A. Hagur af viðskiptum
    B. Almennt og einhliða jafnvægi
    C. Viðskipti og vöxtur
    D. Þjóðhagslegar hliðar landbúnaðar

    3. Niðurstöður
  12. Eigum við samleið með Evrópu?
    1. Heilbrigður metnaður
    2. Norræn áhrif
    3. Að gefa og þiggja
    4. Fullveldi eða valddreifing?
    5. Stjórnmál og virðing
  13. Síðustu forvöð
    1. Minni vöxtur
    2. Vegum að rótum vandans
    3. Vatnaskil

Ritdómur um bókina eftir Guðmund Heiðar Frímannsson, Háskólanum á Akureyri, birtist í Morgunblaðinu 3. apríl 1996. Annar dómur eftir Jón Snorra Snorrason, hagfræðing í Landsbanka Íslands, birtist í Frjálsri verslun.

Fæst í Bóksölu stúdenta og hjá Máli og menningu.