Hannesarholt
25. nóv, 2017

Sextán söngvar

Sextán söngvar fyrir sópran og tenór eru sönglagaflokkur eftir Þorvald Gylfason prófessor við kvæði eftir Kristján Hreinsson skáld og heimspeking. Ljóðin og lögin fjalla um söknuð, sorg og gleði, viljann og vonina, ástina, lífið og listina.

Hallveig Rúnarsdóttir sópran, Elmar Gibertsson tenór og Snorri Sigfús Birgisson píanó frumfluttu ljóðaflokkinn í Hannesarholti í Reykjavík 25. nóvember 2017. Skáldið flutti stuttar skýringar á undan hverju lagi og ljóði sem var varpað á vegg á bak við sviðið. Hér má heyra Tónlist hjartans.

 

EFNISSKRÁ

  1. Lágstemmdar línur
  2. Þegar ljóðið lifir
  3. Móðurminning
  4. Við glugga um nótt
  5. Ekkert að óttast
  6. Minn eilífi draumur
  7. Lífsblóm
  8. Leiðin liggur heim
  9. Fagur engill fylgir þér
  10. Fögur mynd
  11. Tónlist hjartans
  12. Vilji vindsins
  13. Við gröfina þína
  14. Vonarglæta
  15. Sagan
  16. Ljúfur leikur
  17. Vertu hjá mér
  18. Bros

 

Þorvaldur Gylfason hefur samið um 100 sönglög, m.a. Sautján sonnettur um heimspeki hjartans, Söngva um svífandi fugla og Sjö sálma við kvæði Kristjáns Hreinssonar. Sonnetturnar voru fluttar í Hörpu 2012 og 2013, Fuglasöngvarnir í Salnum í Kópavogi 2014 og sálmarnir í Langholtskirkju 2014 og í Guðríðarkirkju 2015. Eftir Þorvald liggja einnig Fimm árstíðir við kvæði Snorra Hjartarsonar.

Kristján Hreinsson er skáld, tónskáld, söngvari og heimspekingur. Eftir hann liggja bráðum 40 bækur, nú síðast Verði ljóð (2015), Ég sendi þér engil (2016), Skáld eru skrýtnir fuglar (2016) og Koddaljóð (2017), auk fjölda hljómdiska.

Hallveig Rúnarsdóttir hefur sungið mörg óperuhlutverk á sviði, m.a. í Íslensku óperunni, og einnig erlendis og komið fram sem einsöngvari með hljómsveitum, m.a. oft með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Undanfarin ár hefur hún einnig lagt rækt við ljóðasöng og haldið tónleika með þýzkum, frönskum og norrænum sönglögum. Á geisladiskinum Í ást sólar flytur hún íslenzk sönglög ásamt Árna Heimi Ingólfssyni piánóleikara. Hún hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin 2013 sem söngkona ársins fyrir hlutverk Michaelu í Carmen eftir Bizet í Íslensku óperunni.

Elmar Gilbertsson hefur sungið mörg óperuhlutverk á sviði innan lands og utan, einkum í Hollandi og Belgíu og einnig í Frakklandi, Þýzkalandi og víðar. Hann hlaut Grímuverðlaunin 2014 sem söngvari ársins fyrir hlutverk Daða Halldórssonar í óperunni Ragnheiður eftir Gunnar Þórðarson í Íslensku óperunni og aftur 2016 fyrir hlutverk Don Ottavio í Don Giovanni eftir Mozart. Elmar hlaut einnig Íslensku tónlistarverðlaunin 2014 sem söngvari ársins í flokki sígildrar og samtímatónlistarog samtímatónlistar og aftur 2017 fyrir hlutverk Lenskís í Évgení Ónegin eftir Tsjækovskí í Íslensku óperunni. 

Snorri Sigfús Birgisson stendur í fremstu röð íslenzkra píanóleikara og er jafnframt mikilvirkt tónskáld. Eftir hann liggur fjöldi tónverka: einleiksverk, kammertónlist, raftónlist, kórtónlist, sinfónísk verk og sönglög. Tónlist hans er að finna á fjölmörgum geisladiskum og hljómplötum. Hann gekk frá lagaflokkinum í hendur söngvaranna tveggja.