7. júl, 2005

Sex OPEC-lönd: þjóðarframleiðsla á mann 1960-1999

Mynd 64. Hér sjáum við þróun þjóðarframleiðslu á mann í sex OPEC-löndum: Alsír, Indónesíu, Íran, Nígeríu, Sádi-Arabíu og Venesúela. Löndin sex eiga það sammerkt, að efnahagur þeirra batnaði mjög við margföldun olíuverðs í tvígang á áttunda áratugnum (1973-1974 og aftur 1979-1980) og síðan aftur lítils háttar í kringum 1990, en efnahag þeirra allra hrakaði verulega eftir 1980 – nema Indónesíu, sem óx og dafnaði lengi vel eins og mörg önnur Asíulönd og af svipuðum ástæðum. Ferill þjóðarframleiðslunnar í Sádi-Arabíu, sem er sýnd efst á myndinni, er dæmigerður fyrir heildina. Þarna sjáum við myndarlegan uppgang frá 1960 til 1980, en eftir það hefur framleiðsla á mann minnkað hröðum skrefum og er nú ekki nema röskur helmingur þess, sem hún komst upp í 1980, og stefnir enn neðar. Sádi-Arabía hefur ekki aðeins farið illa með tekjurnar af olíuauðinum, heldur hefur landið safnað himinháum skuldum erlendis í ofanálag. Olíuútflutningstekjunum hefur verið ausið í allar áttir, meðal annars til að kaupa fjölskyldueinræðisstjórninni ,,frið” fyrir bókstafstrúarmönnum. Aðeins 60% stúlkna ganga í barnaskóla. Á hinn bóginn verja Sádi-Arabar 15% þjóðarframleiðslunnar til hermála á móti 3% í Bandaríkjunum og Bretlandi til samanburðar. Nígería skríður eftir botninum meðfram lárétta ásnum á myndinni, svo að það sést ekki vel, að þjóðarframleiðsla á mann þar jókst um næstum helming frá 1960, þegar landið fékk sjálfstæði frá Bretum, til 1979, en síðan hefur landið færzt aftur á bak á fyrsta reit eða því sem næst. Þar niður frá stendur varla steinn yfir steini í efnahagsmálum, því að herforingjar í ríkisstjórn landsins hafa stolið olíutekjunum svo að segja öllum eins og þær leggja sig, en nú er lýðræðislega kjörinn forseti að vísu kominn til valda í Nígeríu og reynir að hemja gripdeildirnar. Indónesía er eina landið í hópnum, sem tókst að tryggja myndarlegan hagvöxt fram til þess, að fjármálakreppan í Asíu brast á 1997 með illum afleiðingum, en þó ekki alvondum, því að nú er þó loksins komin lýðræðisstjórn yfir landið og efnahagslífið er byrjað að rétta úr kútnum. Þessu er lýst nánar í greininni Olía: Eykur hún hagvöxt? Eflir hún frið?