Forlagið
4. jan, 2018

Samstæð sakamál

Þessi ritgerð fjallar um spillingu á Íslandi, einkum þann hluta hennar sem varðar meðferð nokkurra kunnra mála í réttarkerfinu og á Alþingi. Vandinn birtist í því að réttarkerfið hefur ekki brugðizt við meintri refsiverðri háttsemi og að Alþingi hefur ekki staðið undir ábyrgð sinni heldur sýnt af sér athafnaleysi eða afskiptaleysi. Sagan er rakin í stuttu máli frá helmingaskiptum tveggja stærstu stjórnmálaflokkanna sem hófust um 1937 og þaðan að hermanginu sem fylgdi komu varnarliðs Bandaríkjanna fyrir hönd Atlantshafsbandalagsins til Íslands í síðari heimsstyrjöldinni og síðan að ókeypis úthlutun aflaheimilda með tilurð kvótakerfisins í sjávarútvegi 1985 og hliðstæðri einkavæðingu bankanna 1998–2003. Rakið er hvernig meint lögbrot voru framin án þess að yfirvöld brygðust við nema að litlu leyti fram að hruni, jafnvel þegar lög voru brotin í allra augsýn að heita má. Fjallað er um þá hættu sem réttarvitund í samfélaginu stafar af refsileysi – þ.e. því að lögum sé almennt ekki framfylgt þegar valdsmenn eða aðrir vel tengdir menn eiga í hlut.

Textinn steypir saman samnefndri greinasyrpu úr Fréttablaðinu með ýmsum áfyllingum svo úr verður heilleg tímaritsgrein sem birtist í Tímariti Máls og menningar, 1. hefti, febrúar 2018.