8. júl, 2005

Raunlaun og atvinna í Evrópu og Ameríku 1970-1996

Mynd 39. Hér sjáum við tvær myndir, sem segja meira en mörg orð um mikilvægi vinnumarkaðsmála. Vinstri myndin sýnir, hversu raunverulegur launakostnaður hefur hækkað í Evrópu síðan 1970 og hversu störfum hefur fjölgað. Verklýðsfélög eru yfirleitt öflug í Evrópu, og þau hafa neytt afls síns til að knýja fram myndarlega kaupmáttaraukningu, eins og rauði ferillinn sýnir, enda er það höfuðmarkmið þeirra að hækka laun. Vinnuveitendur geta einnig séð sér hag í að greiða há laun til að halda í góðan starfskraft, hvað sem starfsemi verklýðsfélaga líður. En skuggahliðin á mikilli kaupmáttaraukningu, sem á sér ekki stoð í aukinni framleiðni, er þessi: atvinna staðnar, ef kauphækkunin reynir um of á greiðslugetu fyrirtækjanna. Þessi varð raunin í Evrópu: atvinna stóð í stað eða því sem næst frá 1970 fram yfir miðjan níunda áratuginn, eins og guli ferilinn sýnir. Þegar hægði á hækkun kaups, byrjaði atvinna loksins að aukast. Allt tímabilið 1970-1996 jókst kaupmáttur laun um rösk 60%, en atvinna jókst aðeins um 11%. Í Bandaríkjunum varð þróunin önnur. Þar hækkuðu laun tiltölulega hægt, enda ráðast laun að mestu leyti á frjálsum markaði þar vestra án afskipta öflugra hagsmunasamtaka, svo að kaupmáttur launa jókst um 17% frá 1970 til 1996. Ekki getur það talizt mikil aukning. Þetta örvaði fyrirtæki á hinn bóginn til að ráða fleira fólk í vinnu, svo að atvinna jókst um rösk 60% yfir tímabilið. Þarna höfum við líkast til vænan hluta skýringarinnar á því, hvers vegna atvinnuleysi er næstum ekkert í Bandaríkjunum, en mikið — allt of mikið! — í Evrópu.