Fjármálatíðindi
4. jan, 2002

Raungengið flýtur, þótt nafngengið sé fast

Hvernig svo sem skipan gengismála er háttað, þá er raungengi gjaldmiðla ævinlega á floti – ef ekki vegna þess að nafngengið flýtur, þá vegna þess að verðlag breytist. Þar eð verðlag er jafnan tregbreytilegt niður á við og einnig kauplag, þá tekur aðlögun raungengis að langtímajafnvægi yfirleitt nokkurn tíma, svo sem þrálát og langvinn frávik raungengis frá langtímajafnvægi víðs vegar um heiminn bera vitni um. Í annan stað er raungengi líklegt til að sveiflast til og frá á leið sinni að langtímajafnvægi, þar eð raungengið orkar á viðskiptajöfnuðinn og öfugt. Með öðrum orðum: áhrif gengisbreytinga á erlend viðskipti koma ekki fram undir eins, heldur koma þau fram smám saman með þeirri afleiðingu, að raungengið sveiflast upp og niður.