Háskóli Íslands
1. des, 1985

Rannsóknir og kennsla í öflugum háskóla

Ræða á hátíðarfundi stúdenta í Háskólabíói 1. desember 1985

Einkunnarorð Háskólans eru sótt í fleyga ljóðlínu Jónasar Hallgrímssonar, þar sem hann segir: ,,Vísindin efla alla dáð.” Jónas horfði til framtíðarinnar. Hann lifði sjálfur mikið blómaskeið í bókmenntum og listum. Tækni og vísindi byrjuðu ekki að skila verulegum árangri fyrr en eftir hans daga.

Enginn vafi leikur á því, að einn lykillinn að því efnalega og andlega ríkidæmi, sem okkar þjóð býr við eins og aðrar í þessum heimshluta, er fólginn í þeirri byltingu, sem orðið hefur í vísindum og tækni á þessari öld. En nútíminn er ekki einhlítur og vísindin ekki heldur. Mörg þeirra snilldarverka, sem við metum mest — málverk, sönglög, sögur — urðu til á öldinni sem leið eða fyrr.

Vísindabyltingin er ekki einkamál auðugra þjóða, heldur hafa margar fátækar þjóðir um heimsins breiðu byggð stuðlað að henni og notið góðs af. Til dæmis eru Indverjar í fremstu röð í mörgum greinum vísinda þrátt fyrir sára fátækt. Og lífskjörum Indverja hefur fleygt fram þrátt fyrir allt. Þannig hefur meðalævi Indverja lengzt um næstum 20 ár á s.l. aldarfjórðungi vegna minnkandi barnadauða og betra heilsufars. Þetta er meðal annars verk vísindanna.

 

Rannsóknir og kennsla

Ísland er líka öflugur þátttakandi í vísindastarfi þjóðanna. Háskóli Íslands, sem stúdentar helga þennan dag, er höfuðvettvangur vísinda og fræða í landinu. Hann er lögum samkvæmt ,,vísindaleg rannsóknarstofnun og vísindaleg fræðslustofnun.”

Þessi tvö höfuðhlutverk Háskólans og starfsmanna hans, rannsóknir og kennsla, eru í raun og veru óaðskiljanleg.

Rannsóknarstarf getur einangrazt frá raunveruleikanum, ef fræðimaðurinn kemur aldrei niður úr fílabeinsturninum. Kennsla er eins og lyfta í fílabeinsturni: Hún tryggir jarðsamband og veitir kennaranum tækifæri til að afla sér reynslu og þekkingar utan þröngra sérgreina. Og oft reynist kennslan opna nýjar gáttir í rannsóknarstarfinu sjálfu, vekja nýjar spurningar og veita hugboð um ný svör.

Með svipuðum hætti getur kennsla orðið daufleg og jafnvel viðskila við nýjustu þekkingu, ef kennarinn er ekki virkur rannsóknari og rithöfundur sjálfur. Kennari, sem stendur sjálfur í fremstu víglínu í þekkingarleitinni í sinni grein, hefur skilyrði til að miðla þekkingunni til stúdenta með líflegri og áhrifaríkari hætti en ella.

Fólkið og fyrirtækin í landinu gera sífellt meiri kröfur til Háskólans eins og eðlilegt er í gróandi þjóðlífi. Það er fagnaðarefni. Við háskólakennarar eigum líka að gera sífellt meiri kröfur, ekki aðeins til stúdenta, heldur líka til okkar sjálfra með því að leggja enn harðar að okkur bæði við rannsóknir og kennslu. Mikill árangur hefur náðst á mörgum undanförnum árum á báðum vígstöðum. Við getur gert enn betur.

En ásetningurinn einn nægir ekki, heldur verður líka að skapa skilyrði til þeirrar eflingar rannsókna og kennslu, sem öflugt háskólastarf hvílir á. Einkum er brýnt að bæta úr bókaskorti og féleysi og öðrum vanefnum, sem hafa staðið rannsóknarstarfi við Háskólann fyrir þrifum. Um þetta er Háskólinn ekki sjálfráður, heldur er viðgangur rannsóknarstarfsins við Háskólann og þar með afrakstur þess háður velvild og skilningi almennings og yfirvalda.

Kennsluna getur Háskólinn hins vegar eflt og bætt upp á eigin spýtur. Ég er þeirrar skoðunar, að kennslan sé of mikil í mörgum deildum Háskólans eins og sakir standa. Í sumum deildum er stúdentum gert að sækja 20-30 fyrirlestra á viku eða jafnvel enn fleiri eins og í menntaskólum, meðan aðrar deildir hafa fækkað fyrirlestrum að óbreyttu námsefni niður í 10-15 stundir á viku handa hverjum stúdent eins og tíðkast víðast hvar við erlenda háskóla.

Háskólanám er og á að vera bóknám og sjálfsnám fyrst og fremst. Of mikið fyrirlestrahald getur beinlínis staðið í vegi fyrir bóklestri, sjálfstæðri þekkingaröflun og gagnrýnni hugsun. Fækkun fyrirlestra gerir að vísu meiri kröfur til nemenda og einnig til kennara, að nokkru leyti vegna þess að það er tímafrekt að vera stuttorður. Enn fremur kallar aukið sjálfsnám á aukna handleiðslu utan fyrirlestra og þar með á persónulegri kennslu.

Ég held líka, að kennsluhættir gætu batnað verulega, ef stúdentar fengju fyrirhafnarlaust tækifæri til þess að segja skoðun sína á fyrirlestahaldi kennara. Þessi háttur er hafður á við marga bandaríska háskóla, þar sem stúdentar gefa einstökum námskeiðum einkunnir, og virðist hafa gefið góða raun að ýmsu leyti. Einkum er mikils vert fyrir kennara að fá hollar ábendingar frá nemendum um námsefni og kennsluhætti. Slíkar ábendingar veita æskilegt aðhald og gagnlegar upplýsingar og geta þannig leitt til betri og áhrifaríkari kennslu.

Vegsemd og vandi

Rannsóknum og kennslu fylgja bæði vegsemd og vandi.

Vegsemdin er fólgin í sjálfri  þekkingarleitinni, því að verkefnin eru fjölbreytt og skemmtileg, stundum knýjandi og eilíflega óþrjótandi. Vegsemdin er líka fólgin í skemmtilegu og lærdómsríku samstarfi við efnilegt og þróttmikið fólk, sem kemur í háskólann til að afla sér frekari menntunar.

Vandinn er sá, að vísindin eru harður húsbóndi. Rannsóknarstörf í öllum greinum krefjast ómældrar atorku, einbeitingar og ásetnings um að ná settu marki. Iðulega eru þau unnin hávaðalaust, jafnvel í einmanalegum kyrrþey. Stundum lætur árangur slíkra starfa á sér standa, jafnvel árum saman. Sagan þekkir mjög mörg dæmi þess úr öllum greinum vísinda, að mikilvægar uppgötvanir hafi verið gerðar fyrir hreina tilviljun.

Þess vegna verður alltaf að gæta þess vandlega að gera ekki þær kröfur til frumrannsókna, að þær komi að beinu hagnýtu gagni strax. Slíkar kröfur eru beinlínis fjandsamlegar öllu rannsóknarstarfi. Ef Pasteur, sem fann upp gerilsneyðingu, og Röntgen, sem fann upp gegnumlýsingu, hefðu verið krafðir um að skila gagnlegum niðurstöðum eftir hverja tilraun, hefðum við trúlega aldrei fengið að njóta uppfinninga þeirra. Þeir voru sem betur fer frjálsir að því að láta gamminn geysa.

Slíkt frelsi er forsenda árangursríks rannsóknarstarfs og áhrifamikillar kennslu.