Ræturnar liggja djúpt
ATVINNULEYSI
Þorvaldur Gylfason prófessor er ósammála skoðun Peters Johannes Schjødts í bókinni Velferð eða vansæld að stoðir velferðarkerfisins séu brostnar og viðvarandi atvinnuleysi bíði milljóna manna í okkar heimshluta.
Á SKRIFBORÐINU liggja staflar af blöðum og bókum. Fræðirit fylla hillurnar fyrir aftan. Þorvaldur Gylfason, prófessor við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, hallar sér aftur í stólnum og veltir bókinni á milli handa sér. Hann er augljóslega ósammála. Varar við uppgjafartóni. Víst sé að rætur atvinnuleysis liggi djúpt. Skipulag á vinnumarkaði sé að mörgu leyti gallað. Of mikil skattlagning ríkisins á einkarekstur varhugaverð o.fl.
Engu að síður sé ekki ástæða til að gefast upp. Möguleikar á lausn vandans séu margir. Við þurfum að bretta upp ermarnar og vinna á honum. Hugsi lýsir Þorvaldur sig algjörlega ósammála þeirri grundvallarskoðun danska þjóðfélagsfræðingsins Johannes Schjødt að stoðir velferðarkerfisins séu brostnar og viðvarandi atvinnuleysi bíði milljóna manna í okkar heimshluta.
Hann þvertekur fyrir að um eins konar náttúrulögmál sé að ræða. ,,Við höfum þvert á móti, í okkar heimshluta, búið við fulla atvinnu langtímum saman og ekkert segir okkur að við getum ekki komið á slíku ástandi aftur svo fremi sem við högum okkar skynsamlega. Atvinnuleysi í Evrópu, Danmörku, hér heima og víða annars staðar á sér viðráðanlegar skýringar. Þær eru að vísu margar. Sumpart liggja þær í skipulagsgöllum á vinnumarkaði. Sumpart í óhóflegri skattlagningu ríkisins á fyrirtæki sem dregur úr getu þeirra til að ráða fólk í vinnu. Sumpart af því að stjórnvöld telja nauðsynlegt að fara mjög varlega í fjármálum ríkisins vegna þess að þau eru nýbúin að brenna sig illilega á verðbólgu. Allir þessir þættir vinna saman og hafa stuðlað að auknu og vaxandi atvinnuleysi sem mörgum virðist viðvarandi.
En ég er bjartsýnn og tel að fyrsta skrefið felist í því að skoða vandamálið og rætur þess vandlega. Ræturnar liggja djúpt og víða um þjóðlífið. Á því er ekki vafi. Hins vegar er ekki þar með sagt að ekki sé hægt að rífa atvinnuleysið upp með rótum. Ég spái því að við völdum þessu verkefni og vara sérstaklega við því þegar menn segja að atvinnuleysi sé gefið og þörf sé á að leita einhverra leiða til þes að lifa með því, t.d. með því að skipta vinnunni. Óskir manna og þarfir eru ótakmarkaðar. Engin takmörk eru fyrir því hvernig við viljum bæta heimkynni okkar, bílana okkar eða fjölga ferðalögum o.s.frv. Þar af leiðandi er óendanleg þörf fyrir vinnukraft til að fullnægja þessum þörfum. Menn mega því ekki loka sig inni í einhverju horni og gera lítið úr hagvexti. Hagvöxtur er þvert á móti lífsvon mikils fjölda fólks og ákaflega mikilvægur, sérstaklega nú, vegna þess að atvinnuleysi hefur haft þjóðfélagsböl, fátækt, ójöfnuð og óréttlæti í för með sér. En mörgum, sem eru óskólaðir í hagfræði og hafa lagt meiri rækt við félagsfræði og heimspeki, hættir til að falla í þessa gryfju. Slíkt er útaf fyrir sig skiljanlegt miðað við hvernig ástandið hefur verið í Danmörku. Aftur á móti er það um leið hættulegt því sú skoðun getur valdið því að menn annaðhvort sætti sig við óbreytt ástand eða grípi til ráðstafana sem skila miklu minni árangri en hægt væri að ná.“
Þúsundir dæmdar til atvinnuleysis
Að gefnu viðvarandi atvinnuleysi varar Schjødt við því að atvinnulausum sé talin trú um að um tímabundið ástand sé að ræða með því að bjóða sífellt upp á meiri starfsfræðslu í viðkomandi starfsgrein. Verið sé að gefa fólki falskar vonir. Menntun skapi ekki fleiri störf.
Þorvaldur telur sjónarmiðið útaf fyrir sig skiljanlegt en nært á rangri forsendu. ,,Á hinn bóginn er auðvitað enginn hægðarleikur að komast fyrir rætur atvinnuleysisins hér eða annars staðar í Evrópu. Hér heima hefur t.a.m. fé frá bönkum og sjóðum til atvinnuuppbyggingar verið sóað í stórum stíl. Eins og fram kom í umræðum á Alþingi fyrir nokkrum dögum hafa tugir milljarða tapast og verið afskrifaðir, “ segir Þorvaldur og er krafinn nánari skýringa. ,,Jú, hugsaðu þér að þú takir lán í banka og í staðinn fyrir að festa féð í einhverju fyrirtæki, sem getur veitt fólki vinnu, ákveður þú að fara í heimsreisu. Svo kemur þú heim úr ferðalaginu, alsæl, ægilega gaman úti í heimi. En þú hefur ekki skapað atvinnutækifæri sem endast. Þú hefur eytt fénu en reikningnum verða lánastofnanir að framvísa einhvers staðar annars staðar. Væntanlega til skattgreiðenda vegna þess að þeir bera sameiginlega, í gegnum ríkið, ábyrgð á banka- og sjóðakerfinu. Svona erum við búin að fara ofboðslega illa að ráði okkar hér. Ég nefni dæmi af þessu tagi til að sýna hvað ræturnar geta legið djúpt og ég óttast að við séum, með ógætilegri stjórn peningamála og meðfylgjandi afskriftum og ofboðslegum lántökum erlendis, búin að dæma þúsundir til atvinnuleysis eða lágra launa langt fram á næstu öld að öðru jöfnu,“ segir hann.
Missum ekki kjarkinn
Hann heldur áfram. ,,Af þessu dæmi geta menn séð að atvinnuleysi er ekki spurning um að herða skrúfur hér, losa þar og fínstilla svo allt verði komið í lag í næsta mánuði eða á næsta ári. Sveiflurnar verða iðulega miklu lengri en svo og sum mistök eru af því tagi að menn kenna þeirra árum og jafnvel áratugum saman. Það er ekki þar með sagt, þó að dæmið sé svakalegt, að við eigum að missa kjarkinn. Þvert á móti eigum við að láta ástandið verða okkur að kenningu og brýna okkur til að ráðast í þarfar umbætur.
Tökum dæmi frá Evrópu þar sem sóun almannafjár í gegnum peningakerfið hefur verið miklu minni en hér. Þar fólst ein ástæða atvinnuleysis, þegar bakslag kom í efnahagslífið fyrir nokkrum árum, í því að skipulag á vinnumarkaði reyndist verr á samdráttartímum heldur en uppgangstímanum áratugina á undan. Slíkt er aðeins eðlilegt. Ýmis mannanna verk reynast ágætlega í einu árferði og svo afleitlega í öðru. Útaf fyrir sig þarf mönnum því ekki að koma þetta á óvart. Áhugi manna á skipulagi vinnumarkaðarins og umbótum var skiljanlega ekki mjög mikill meðan allt lék í lyndi. En nú hafa tímarnir breyst og menn hljóta að beina sjónum sínum að ýmsum göllum í innviðum samfélagsins sem ef til vill voru huldir áður.
Ég er þeirrar skoðunar, að reynslan utan úr heimi bendi til þess að skipulag á vinnumarkaði sé stór partur af þessum vanda. Ég hef þá í huga samanburð, annars vegar milli Evrópu og Ameríku og hins vegar milli Sviss og Japans. Í Evrópu eru laun u.þ.b. þriggja fjórðu hluta alls vinnandi fólks ákveðin í samningum milli heildarsamtaka launafólks og vinnuveitenda. Fyrirkomulag af þessu tagi þýðir einfaldlega að við tíðkum ekki markaðsbúskap á vinnumarkaði. Við ákveðum vinnulaun, kaup og kjör, í reykfylltum herbergjum í samningum vinnuveitenda og fulltrúa verkalýðsfélaga og þegar menn beita miðstýringu við ákvörðun mikilvægra stærða eins og vinnulauna geta mistök átt sér stað. Ég er þeirrar skoðunar að við höfum valdið verulegum skaða með þessu fyrirkomulegi, þ.e. með því að rjúfa nauðsynlegt og eðlilegt samband eftirspurnar og framboðs á vinnumarkaði, samspil sem okkur þykir sjálfsagt að færa okkur í nyt á langflestum öðrum mörkuðum.
Ég get nefnt sem dæmi að fyrir um tuttugu árum hafði meðal unglingur, 18 ára eða svo, í Svíþjóð laun sem voru 55% af launum feðranna. Núna er hlutfall launa hans komið upp í 80%. Þetta hefur ekki gerst fyrir mistök stjórnvalda í löggjöf og sannarlega ekki fyrir tilstilli einhverra markaðsafla. Þetta hefur orðið vegna þess að menn hafa ekki gætt sín á að taka nægilega mikið tillit til ástandsins á vinnumarkaðinum þegar launastiginn er ákveðinn og hann er alltaf að verða flatari og flatari. Því er engin tilviljun að í Svíþjóð hefur ungt fólk og lítt skólagengið misst vinnuna fyrst.“
Launamunur
Ertu að segja að launamunur milli unglinganna og feðranna ætti að vera meiri?
,,Já,“ segir Þorvaldur. ,,Ég held að það sé sú ályktun sem við verðum að draga því hinn kosturinn er að unglingarnir séu atvinnulausir. Auðvitað er meira vit og réttlæti í því að menn hafi atvinnu með lágum launum en enga atvinnu með háum launum. Þá vaknar sú spurning hvort Ameríka sé fyrirmyndin. Land þar sem atvinnuleysið er miklu minna og markaðsöflunum er gefinn miklu lausari taumur í atvinnumálum og ójöfnuðurinn er augsýnilega talsvert meiri en í einstökum Evrópulöndum. Erfitt er að fella dóm í svari við þessari spurningu. Engu að síður segir tilfinningin mér að þessi kostur sé skárri af tveimur. Mér virðist við, a.m.k. til skamms tíma, standa frammi fyrir mjög sársaukafullu vali milli áframhaldandi atvinnuleysis, að hluta vegna miðstýringar á vinnumarkaði, og aukins launamunar í átt við það sem við sjáum í Ameríku. Þar er tiltölulega mikið af lítt skólagengnu fólki sem hefur lág laun. Þá spyr maður á móti hvort það sé ekki ívið betri kostur heldur en að vera atvinnulaus á háum launum,“ segir Þorvaldur og snýr sér að Japan.
Hann segir að Japanir hafi komið sér upp sveigjanlegu og skilvirku skipulagi á vinnumarkaði og Bandaríkjamenn og Evrópubúar hafi verið alltof ragir við að draga skynsamlega ályktun af reynslu þeirra. Launakerfi í Japan sé tvíþætt. ,,Annars vegar eru mönnum greidd föst laun eins og tíðkast í Evrópu. Hins vegar hafa menn svo hlutaskiptakerfi. Laun starfsmannanna hækka þegar vel gengur og lækka þegar verr gengur. Fyrirkomulagið hefur tvo meginkosti. Annar er að laun starfsmannanna eru í samræmi við afkomu fyrirtækisins og starfsmennirnir hafa beinan hag af því að fyrirtækið gangi vel. Hinn er að fyrirtækið getur, þegar á móti blæs, mætt tekjumissi með mótsvarandi lækkun launakostnaðar. Íslensk fyrirtæki eiga ekki kost á þessu því þegar tekjur hrynja og búið er að semja um föst laun geta fyrirtækin ekki staðið á móti með því að lækka laun og verða að segja fólkinu upp í staðinn. Þetta er mikilvægur þáttur í því hvers vegna japönsk fyrirtæki geta brugðist við andbyr án þess að fækka fólki meðan evrópsk fyrirtæki eru bundin og verða að fækka starfsmönnum,“ segir Þorvaldur og hann segir aðspurður að ekki ætti að vera hætta á því að svindlað sé á starfsmönnum. Þeir ættu að vera í aðstöðu til að þekkja atvinnureksturinn af eigin raun.
Miðstýring eða markaðsbúskapur
Schjødt vill minnka sundrung milli launafólks og atvinnuleysingja með því að tengja atvinnuleysi launavinnu, t.a.m. með því að borga svokölluð borgaralaun fyrir verkefni í þági þjóðfélagsins. Hins vegar verði launavinna skattlögð í ríkari mæli en nú. Jafnframt verði reynt að stytta vinnutíma.
Þorvaldur tekur undir að skattafrádráttur sé ein leið til að draga úr atvinnuleysi. ,,Annað dæmi óskylt er frá Singapore. Þar fá fjölskyldur skattaafslátt fyrir að hafa gamalmenni á heimilinu hjá sér. Þú getur ímyndað þér sparnaðinn í t.d. elliheimilarekstri. Hugmyndin er ágæt og mér sýnist hún ekki vera komin inn í velferðarumræðuna á Vesturlöndum. Auðvitað er líka hægt, eins og þú hefur eftir honum, að breyta atvinnuleysingjum í vinnandi fólk með því að borga þeim skattfrjáls lág laun fyrir að vinna við eitthvað frekar en að vinna alls ekki. En slíkt kostar fé og gallinn er að engin trygging verður fyrir því að verkin sem unnin eru séu í samræmi við óskir og þarfir fólksins, þ.e.a.s. neytenda. Um þetta snýst einmitt spurningin um miðstýringu og markaðsbúskap. Væri ekki betra að hafa vinnumarkaðinn frjálsari en nú og láta þarfir og óskir neytenda laða til sín fólk í vinnu að verkefnum sem neytendur hafa áhuga á? Frekar heldur en að stjórnmálamenn og embættismenn í ráðuneytum beini mönnum að vinnu í einhverjum farvegum sem enginn hefur áhuga á eða þörf fyrir. Ekki má gleyma því að ein ástæðan fyrir því að sovétkerfið hrundi var að embættismenn en ekki neytendur ákváðu hvað átti að framleiða. Þannig að þegar upp var staðið voru Sovétríkin yfirfull af verksmiðjum sem framleiddu vörur sem enginn vildi sjá eða kaupa.“
Atvinnuleysismenning
,,Svo vaknar önnur hugmynd við lýsingu þína. Hún er sú að atvinnuleysi er mjög hættulegt. Ekki aðeins af þessum augljósu ástæðum með bölinu sem það leiðir yfir einstaklinga og þjóðfélagið allt. Heldur líka vegna hættunnar á því að eins konar atvinnuleysismenning verði til. Þegar atvinna er mikil og einhver missir vinnuna er hann einn um það eða því sem næst í sínu nánasta umhverfi, hvatinn til að finna sér nýja vinnu hið skjótasta og halda atvinnuleysinu leyndu verður því mjög sterkur. Þegar hins vegar atvinnuleysi er orðið mikið og margir í nánasta umhverfi atvinnuleysingjans eru í svipaðri aðstöðu minnkar hvatinn til að fá sér vinnu aftur. Atvinnuleysið getur í ákveðnu ljósi sést sem, kannski ekki eðlilegt ástand, en ekki heldur sérkennilegt. Hugsunarháttur eða smit af þessu tagi kann að vera hluti af skýringunni á því að atvinnuleysi hefur tilhneigingu til að kynda undir sjálfu sér og festast.“
,,Nytsamt“ atvinnuleysi
Í bókinni vill Schjødts að barist sé fyrir nytsömu atvinnuleysi án rýrnunar lífskjara.
Þorvaldur lýsir yfir vantrú sinni. ,,Nytsamlegt atvinnuleysi er þversögn og fjarstæða því ef festa á atvinnuleysi í sessi með því að gera það að einhverju leyti ásættanlegt eða viðunandi er komin pottþétt uppskrift að verulegri rýrnun lífskjara. Hyggilegra er að ráðast af grimmd að rótum vandans. Þá verða menn líka að setja sig í spor lögreglumanns og spyrja t.d. hvort verið geti að einhverjir hafi hag að ástandinu. Mér sýnist atvinnuleysið að nokkru leyti stafa af valdabaráttu á vinnumarkaði. Yfirleitt hækka laun fyrir þrýsting verkalýðsfélaga og oft eru það sterku hóparnir í verkalýðshreyfingunni sem knýja á um launahækkun vegna þess kannski að þeir vita að umbjóðendur þeirra eiga ekki á hættu að missa vinnuna ef boginn er spenntur of hátt. Láglaunfólkið situr hins vegar í súpunni ef launakostnaður fyrirtækjanna er aukinn um of. Í þessum afmarkaða skilningi má því segja sem svo að ógætilegar kröfur hinna betur megandi í verkalýðshreyfingunni hafi haft tilhneigingu til að verðleggja hina sem minna mega sín út af vinnumarkaðinum. Þetta er eins og hvert annað einokunarvald sem verkalýðshreyfingunni hefur verið fengið í hendur og ég tel að nauðsynlegt sé að dreifa þessu valdi. Reyndar finnst mér líka að vinnuveitendur eigi töluverðan þátt í því hvernig komið er vegna þess að þeir hafa oft í skjóli samtakamáttar síns knúið fram hagsbætur sér til handa sem hafa bitnað á atvinnu fólks. Ítalskir bílaframleiðendur eru ágætt dæmi um þetta. Þeir hafa knúið ítalska ríkið til að verndi ítalska bílaiðnaðinn. Því aka Ítalir um á dýrari og lakari bílum en ella. Slíkt dregur úr kaupmætti fólksins, eftirspurn eftir vörum og þjónustu og þar með úr eftirspurn eftir vinnuafli. Þannig hneigjast innflutningshömlur af öllu tagi til að kynda undir atvinnuleysi.“
Litið heim
Þorvaldur segir að ekkert af því sem hann hafi áður nefnt og eigi við önnur lönd eigi sérstaklega við á Íslandi. ,,Um Ísland er það að segja að vinnumarkaðurinn hér er að mörgu leyti sveigjanlegri heldur en víða í löndunum kringum okkar. Við sjáum þennan mun t.d. á því að lág laun eru miklu lægri hér en Norðurlöndunum. Af því að laun eru kostnaður er þarna að einhverju leyti komin skýringin á því að atvinnuleysi hefur að verið lægra hér en á Norðurlöndum. Sveigjanleikinn er samt ekki nægilega mikill. Við höldum áfram að búa við miðstýringu og marga galla hennar á vinnumarkaði; alls kyns skipulagsgalla og má þar nefna þrásetu sumra verkalýðsforingja. Auðvitað er lýðræði ófullnægjandi þegar sami maður er formaður í sama verkalýðsfélagi í 30 til 40 ár. Enginn stjórnmálaflokkur vill t.d. hafa sama foringja svo lengi.
Mjög mörg ónýtt tækifæri eru úti í Evrópu og hér til að örva búskapinn og auka atvinnuna. Eitt langar mig að nefna sérstaklega og það er landbúnaðurinn. Skipan landbúnaðarmála í Evrópu á meira skylt við miðstýringu en markaðsbúskap. Búvöruverð er ákveðið á fundum og ekki á frjálsum markaði. Rannsóknir óháðra hagfræðinga í Evrópu benda til þess að ef markaðsöflum væri gefinn laus taumur í landbúnaði og höft afnumin myndu 2 til 4 milljónir nýrra starfa verða til og kannski enn fleiri. Til samanburðar eru atvinnuleysingjar í Evrópu upp á um 18 milljónir. Þetta myndi gerast þannig að þegar landbúnaðarhöftin yrðu felld niður myndi matarverð lækka, kaupmáttur heimilanna myndi aukast og geta heimilanna til að kaupa vörur og þjónustu myndi aukast af sama skapi. Af þessu sjáum við að þó landbúnaðurinn sé aðeins lítill partur af þjóðarbúskapnum í Evrópu þá er hann svo illa rekinn að hann veldur miklum skaða. Daninn getur ekki með neinum rétti leikið sér að þeirri hugmynd að atvinnuleysi hljóti að vera viðvarandi því við höfum ýmis tækifæri til að efla atvinnulífið og bæta lífskjör langt fram í tímann.“
Viðtal: Anna G. Ólafsdóttir