8. júl, 2005

Peningamagn sem hlutfall af landsframleiðslu 1997

Mynd 35. Peningar eru smurolía efnahagslífsins. Hagkerfi án peninga (þ.e. vöruskiptakerfi) er eins og olíulaus vél og getur ekki skilað árangri. Ein helzta ástæða þess, að verðbólga er óæskileg, er einmitt sú, að verðbólga rýrir verðgildi peninga og refsar mönnum með því móti fyrir að hafa handbært fé til að greiða fyrir framleiðslu og viðskiptum. Verðbólga dregur því úr eftirspurn fólks og fyrirtækja eftir peningum, svo að efnahagsvélin er þá vansmurð og byrjar að hökta. Stöðugt verðlag varðveitir verðgildi peninga, svo að menn sjá sér þá hag í því að smyrja efnahagslífið eftir þörfum. Hversu vel hagkerfið er smurt, má ráða af því, hversu mikið peningamagn er í umferð miðað við landsframleiðslu. Sé hlutfallið lágt, eins og raunin er víða í þróunarlöndum, meðal annars vegna þess, að verðbólgan þar er yfirleitt mikil, þá verður gróskan í efnahagslífinu minni en ella fyrir vikið. Í iðnríkjum er peningahlutfallið á hinn bóginn yfirleitt nokkuð hátt og hefur farið hækkandi undangengna áratugi. Myndin sýnir, að hlutfall peningamagns í víðum skilningi (M3) og landsframleiðslu er yfirleitt á bilinu 50-70% í Evrópulöndum: það nær frá rösklega 50% í Finnlandi og Noregi upp undir 70% í Frakklandi og Danmörku. Sviss sker sig úr: þar er peningahlutfallið næstum 140%, enda hefur verðbólga þar í landi nánast engin verið undanfarna áratugi. Í löndum, sem mikil verðbólga hefur herjað á, er peningahlutfallið yfirleitt miklu lægra. Rússland og Argentína eru dæmi um þetta, svo sem sjá má neðst á myndinni. Þar getur það tekið almenning langan tíma að byrja að treysta peningum. Peningahlutfallið hér heima er að vísu miklu hærra en í Rússlandi og Argentínu og öðrum miðlungs- og lágtekjulöndum, en samt mun lægra en annars staðar í Evrópu. Þetta er arfleifð verðbólgunnar frá fyrri tíð og heldur aftur af hagkvæmni í þjóðarbúskapnum. Þróun peningahlutfallsins hér heima gegnum tíðina er lýst á mynd 36.