8. júl, 2005

Peningamagn og verðbólga á Íslandi 1966-2001

Mynd 36. Verðbólga dregur úr eftirspurn eftir peningum, eins og lýst var undir mynd 35. Um þetta vitnar reynsla fjölmargra landa víðs vegar um heiminn. Ísland er engin undantekning frá þessari reglu. Myndin að ofan sýnir annars vegar hlutfall peningamagns í umferð (M3) og landsframleiðslu og hins vegar verðbólgu (hækkun neyzluvöruverðs á ári) síðan 1966. Peningahlutfallið var nálægt 40% á sjöunda áratugnum, en hrundi síðan niður í 20% af völdum verðbólgunnar á áttunda áratugnum. Þegar verðbólgan hjaðnaði á ný, byrjaði peningahlutfallið aftur að hækka og komst loksins aftur upp fyrir 40% árið 2000. Enn er þetta hlutfall þó mun lægra en víðast hvar í nálægum löndum (sjá mynd 35). Aukin peningaprentun er ekki vænleg leið til þess að hækka peningahlutfallið. Það stafar af því, þótt undarlegt megi virðast, að aukning peningamagns kyndir undir verðbólgu og dregur þannig úr eftirspurn eftir peningum. Vænlegasta leiðin til að auka hlutfall peningamagns og landsframleiðslu til langframa og greiða með því móti fyrir framleiðslu og viðskiptum er þvert á móti að gæta aðhalds í peningamálum til að halda verðbólgu í skefjum. Þannig helzt hagkerfið vel smurt, vex og dafnar.