8. júl, 2005

Ójöfnuður vex fyrst og minnkar síðan með vaxandi tekjum

Mynd 59. Hvert er sambandið milli ójafnaðar og þjóðartekna? Fyrir nær hálfri öld leiddi bandarísk-rússneski hagfræðingurinn Simon Kuznets líkur að því, að svarið við þessari spurningu færi eftir þróunarstigi viðkomandi lands. Hann lýsti því, hversu fátæk lönd þurfa að þola meiri ójöfnuð í skiptingu auðs og tekna með vaxandi tekjum framan af hagþroskaferli sínum, en síðan, þegar ákveðnu þroskastigi er náð, þá snýst dæmið við, sagði Kuznets: þá byrjar ójöfnuðurinn að minnka aftur með vaxandi tekjum. Þannig er samband ójafnaðar og tekna eins og öfugt U í laginu: ójöfnuðurinn vex fyrst með vaxandi tekjum og byrjar svo að minnka aftur, þegar tekjurnar eru komnar upp fyrir ákveðið mark. Menn hafa þótzt sjá merki um þessa kúrfu, sem er kennd við Kuznets, í hagtölum fyrir einstök lönd yfir löng tímabil. Myndin að ofan sýnir, að sambandið á einnig við um samanburð ólikra landa með ólíkar tekjur. Myndin nær yfir 74 lönd — öll þau lönd, sem Alþjóðabankinn á til tekjuskiptingartölur um. Hver punktur á myndinni lýsir einu landi. Lóðrétti ásinn sýnir Ginistuðulinn, sem er algeng vísitala ójafnaðar. Stuðullinn mælir frávik tekjuskiptingar frá fullkomnum jöfnuði. Stuðulgildið 0 lýsir algerum jöfnuði, þannig að þjóðartekjunum er þá jafnt skipt á milli allra þegnanna, en stuðulgildið 100 lýsir algerum ójöfnuði, þar sem öll þjóðarframleiðslan fellur aðeins einum þegn í skaut. Lárétti ásinn á myndinn sýnir lógariþma þjóðarframleiðslu á mann 1965. Kúrfan í gegnum punktaskarann fellur betur að gögnunum en nokkur bein lína og virðist ríma vel við kenningu Kuznets. Fylgnin er þó langt frá því að vera fullkomin, enda ræðst ójöfnuður af ýmsu öðru en þróunarstigi, þar á meðal menntun. Hér er samt ekki alveg allt sem sýnist. Þótt jöfnuður hafi að vísu aukizt í flestum löndum með auknum tekjum, eftir að þau voru komin upp á ákveðið þróunarstig, þá bendir samt ýmislegt til þess, að ójöfnuður hafi færst aftur í vöxt í iðnríkjunum síðan 1980 eða þar um bil. Ekki er enn vitað með vissu, hvað veldur þessu, en augu manna beinast meðal annars að tæknibyltingunni, sem sumir telja, að hafi skilað meiri lífskjarabótum til þeirra, sem bezt eru settir, en hinna. Reynsla og frekari rannsóknir fá vonandi skorið úr því.