8. júl, 2005

Ójöfnuður og náttúruauðlindir

Mynd 20. Ýmislegt bendir til þess, að mikill ójöfnuður í skiptingu auðs og tekna hamli hagkvæmni og hagvexti. Reynsla ýmissa Suður-Ameríkulanda undangengna áratugi vitnar um þetta. Ójöfnuður skapar úlfúð, meðal annars á stjórnmálavettvangi og vinnumarkaði, og hvort tveggja truflar efnahagsstarfsemina. Efnahagserfiðleikar Rússlands á þessum áratug virðast að nokkru leyti vera angi á þessum meiði. Sár fátækt innan um allsnægtir hefur gefið andstæðingum róttækra umbóta þar austur frá byr undir vængi. En af hverju stafar ójöfnuður? Hann getur meðal annars stafað af auðlindagnótt, ef ekki tekst að reisa rammar skorður við rentusókn — með öðrum orðum: ef ekki tekst að koma í veg fyrir, að fámennir forréttindahópar slái eign sinni á auðlindirnar og þá rentu, sem þær gefa af sér. Einmitt þetta hefur gerzt í Rússlandi á undanförnum árum: þetta er kallað rússnesk einkavæðing.  En skoðum heiminn í heild.  Myndin sýnir sambandið á milli ójafnaðar og náttúruauðs í 60 löndum. Ginistuðullinn, sem er algengasta vísitala ójafnaðar, er sýndur á lóðréttum ás. Hann mælir frávik tekjuskiptingar frá fullkomnum jöfnuði. Stuðulgildið 0 lýsir algerum jöfnuði, þannig að þjóðartekjunum er þá jafnt skipt á milli allra þegnanna, en stuðulgildið 1 lýsir algerum ójöfnuði, þar sem öll þjóðarframleiðslan fellur aðeins einum þegn í skaut. Náttúruauðæfin eru sýnd á láréttum ás; þau eru skilgreind eins og á mynd 19. Hver punktur á myndinni sýnir ójöfnuð og náttúruauð í einu landi. Hallinn á aðfallslínunni í gegnum punktaskarann er til marks um, að aukning náttúruauðs miðað við þjóðarauð um þrjú prósentustig frá einu landi til annars helzt í hendur við hækkun Ginistuðulsins um eitt stig. Er það mikið eða lítið? Eins stigs hækkun Ginistuðulsins jafngildir einum áttunda af muninum á jöfnuði í tekjuskiptingu í Noregi, þar sem stuðullinn er 25, og í Bretlandi, þar sem stuðullinn er 33. Myndina má því túlka sem svo, að aukning náttúruauðs frá einu landi til annars um 24% af þjóðarauðnum haldist hönd í hönd við hækkun Ginistuðulsins um 8 stig, sem er einmitt munurinn á Noregi og Bretlandi. Það myndi flestum þykja mikill munur. Fylgnin á myndinni er tölfræðilega marktæk, en hún er samt ekki trygg vísbending um orsök og afleiðingu, ekki frekar en fylgnin á mynd 19. Þessu máli eru gerð nánari skil í ritgerðunum Náttúra, vald og vöxtur og Náttúruauðlindir, útflutningur og Evrópa.