Morgunblaðið
1. jún, 2002

Óháð nefnd stjórni auðlindagjaldi

Tvenns konar nýmæli eru í drögum að ritgerð Þorvaldar Gylfasonar og Martins Weitzmans, hagfræðings við Harvard-háskóla, um auðlindagjald, sem kynnt voru á ráðstefnunni Ísland og heimsbúskapurinn – Hagkerfi smárra eyríkja á tímum alþjóðavæðingar.

ANNARS vegar er stungið upp á nýju fyrirkomulagi fiskveiðistjórnar sem dregur dám af þróun peningamálastjórnar í heiminum og hins vegar er þar að finna umfjöllun um umhverfislega óvissu.

Þorvaldur segir að fiskveiðistjórn sé ef til vill óvenju viðkvæmt mál á Íslandi. ,,Sjávarútvegurinn er stór hluti hagkerfisins hér á landi og þess vegna skiptir mjög miklu máli hvernig stjórn hans er farið. Við stingum upp á því að ný sjónarmið í löggjöf um seðlabanka, sem rutt hafa sér til rúms síðastliðin tíu ár, verði tekin upp í stjórn fiskveiða. Þessi sjónarmið hafa verið á þá lund að peningamál séu mikilvægari en svo að vel fari á að stjórnmálamenn skipti sér af þeim. Þess vegna hefur sjálfstæði seðlabanka verið aukið víða um heim,“ segir hann.

Nefnd um auðlindagjald verði skipuð

Á svipaðan hátt er lagt til í ritgerðinni að skipuð verði nefnd embættismanna sem stjórnmálamenn geti ekki hnikað. ,,Þeir gætu t.a.m. verið skipaðir til fimm ára í senn. Lög um starfsemi nefndarinnar eiga að vera á þann veg að hún sé óháð öllum utanaðkomandi þrýstingi,“ segir Þorvaldur.

Þorvaldur segir að í ritgerðinni sé kynnt til sögunnar umhverfisóvissa, þ.e. óvissa um atburðarás í vistkerfi hafsins, sem setur mark sitt á sjávarútveginn. ,,Það kemur í ljós að þegar hún er tekin með í reikninginn hefur sóknarstýring með gjaldi ótvíræða hagkvæmisyfirburði yfir kvótastýringu eins og hún tíðkast hér,“ segir hann. Hann segir að Weitzman hafi sýnt fram á þessa niðurstöðu með töluvert flóknum reikningum annars staðar, en þarna sé hún felld inn í umfjöllun um málið í heild sinni.

Í ritgerðinni er farið yfir hvernig sníða megi helstu galla kvótakerfisins í burtu. Nefndir eru fimmtán rekstrarhagfræðilegir gallar, sem lúta að hegðun fyrirtækja, og fimm þjóðhagfræðilegir gallar, sem lúta að þjóðarbúinu í heild.

Fyrsti rekstrarhagfræðilegi gallinn varðar of mikla afkastagetu flotans. Kvótakerfið hvetji til hennar, vegna þess að hámark kvótans sé ósveigjanlegt og leyfi ekki aðlögun sóknar að árferði. Því sé hagkvæmt fyrir útgerðarfyrirtæki að hafa stærri flota miðað við veiði en samkvæmt veiðigjaldsleiðinni.

Kvótakerfið hvetur til brottkasts

Í öðru lagi hvetji kvótakerfið, vegna þess að það er bundið tímabilum, til brottkasts. Skip haldi frekar dýrari tegundum afla og hendi þeim ódýrari. Ef veiðigjaldsleiðin væri farin myndu allar tegundir fiskjar vera verðmætar og enginn hvati myndast til brottkasts, svo lengi sem verð hans að frádregnu veiðigjaldi væri hærra en kostnaðurinn við að flytja hann til hafnar.

Í þriðja lagi hvetji kvótakerfið til brottkasts ódýrari afla innan tegunda, þannig að verðmætari fiskum verði landað, en minni einstaklingum hent í hafið aftur.

Í fjórða lagi segja Þorvaldur og Weitzman að kvótakerfið hvetji til óhagkvæmrar hegðunar útgerðarfyrirtækja þegar þau eru að fínstilla sóknartíma til að forðast að veiða meira en kvótinn leyfir.

Í fimmta lagi nefna þeir að þegar heildarkvótamagn nálgist jafnvægismagn til langs tíma, eins og gerst hafi á Nýja-Sjálandi, verði kvótinn ekki fullnýttur.

Röksemd númer sex lýtur að ósveigjanleika kvótakerfisins. Heildarkvóti sé ákveðinn fyrir kvótatímabilið og þá séu margir þættir varðandi fiskstofnana óvissir og háðir skyndilegum breytingum, sem erfitt sé að bregðast við. Veiðigjaldinu sé hins vegar hægt að breyta um leið og slíkar upplýsingar berist.

Í sjöunda lagi víkja þeir að því að um sé að ræða margar tegundir fiskjar í sjónum og ekki sé hægt með kvótakerfi að stjórna til fulls tegundasamsetningu heildarafla.

Takmörkun á nýliðun í greininni

Í áttunda lagi nefna þeir að samkvæmt kvótakerfinu megi eigendur fiskiskipa einir eiga kvóta, sem komi í veg fyrir að nýir aðilar komist að í greininni.

Í níunda lagi segja þeir að umfangsmiklir kvótaeigendur geti leynt eða ljóst gert með sér samkomulag í því augnamiði að hafa áhrif á kvótaverð.

Í tíunda lagi nefna Þorvaldur og Weitzman að sjómenn sem eigi ekki nægan kvóta í upphafi fiskveiðiárs þurfi að taka á sig mikla áhættu, enda þurfi þeir að kaupa kvóta áður en þeir sigli til hafs. Atvinnugreinin sé fyrir mjög áhættusöm, afli óviss, og ekki sé á þá áhættu bætandi.

Í ellefta lagi segja þeir að kvótakerfið auki áhættu á alls kyns verkföllum og mótmælum þeirra sem vinni í sjávarútvegi, þar sem þeir eigi ekki kvótann sjálfir, heldur þurfi að vinna fyrir ,,sægreifa“ eða ,,kvótakónga“.

Tólfta röksemdin fjallar um að samkvæmt kvótakerfinu er takmörkun á framsali kvóta milli staða. Þetta fyrirkomulag hamli frjálsri samkeppni og feli í sér óhagkvæmni.

Í þrettánda lagi segja þeir að eigendur kvóta séu skyldir til að veiða sem nemur helmingi kvótans á tveimur árum. Þetta sé kvöð og dragbítur á hinn frjálsa markað.

Í fjórtánda lagi nefna þeir að fiskveiðistjórnarlög banni einum aðila að eiga meira en 8-10% heildarkvótans, sem komi í veg fyrir hagkvæmni stærðarinnar.

Í fimmtánda lagi nefna þeir holur í kvótakerfinu sem varða smábáta, sem eru að hluta til utan kvótakerfisins.

Hægt að nota skatttekjur til að leggja niður virðisaukaskatt

Þjóðhagfræðilegar röksemdir eru sem fyrr segir fimm talsins. Í fyrsta lagi missi íslenska ríkið af miklum skatttekjum sem nota megi til að leggja niður óhagkvæma skatta á borð við virðisaukaskatt. Annar kostur sem bent er á er að tekjum vegna auðlindagjalds verði haldið frá stjórnvöldum og veitt beint til heimilanna.

Í öðru lagi segja þeir að í kvótakerfinu hafi falist miklar niðurgreiðslur og styrkir hins opinbera til sjávarútvegs. Þessir styrkir hafi verið leyndir og hvergi komið fram. Auðlindagjaldsleiðin myndi auka gagnsæi og draga mjög úr ríkisstyrkjum, sem hafi neikvæð áhrif á hvata innan kerfisins.

Þriðja röksemdin sem snýr að þjóðarbúinu fjallar um hina svonefndu hollensku veiki, en lönd sem þjást af henni reiða sig um of á eina atvinnugrein. Aðrar greinar líði fyrir það. Auðlindagjaldsleiðin flýti fyrir minnkun flotans og dragi úr einkennunum.

Auðveldar inngöngu í ESB

Í fjórða lagi segja þeir að auðlindagjald fjarlægi stærstu hindrun þess að Íslendingar geti gengið í Evrópusambandið. Með því að bjóða upp hluta veiðiréttarins, án þess að einskorða uppboðið við íslenskt þjóðerni, væri komið í veg fyrir að hægt sé að framselja auðlindina í formi kvóta til erlendra aðila.

Í fimmta og síðasta lagi nefna þeir Þorvaldur og Weitzman að kvótakerfið sé óréttlátt. Óréttlæti geti leitt til óstöðugleika og stöðnunar í hagkerfinu. Sem dæmi nefna þeir að á ósveigjanlegum vinnumarkaði eins og þeim íslenska gæti farið svo að verkalýðsleiðtogar knýi á um meiri launahækkanir en ella vegna þess að þeir teldu sig hlunnfarna við úthlutun kvótans. Þótt sú hafi ekki orðið raunin sé þessi hætta ávallt fyrir hendi.

Ívar Páll Jónsson tók saman.