ETLA
2. jan, 2010

Nordics in Global Crisis: Vulnerability and Resilience

Þorvaldur Gylfason, Bengt Holmström, Sixten Korkman, Hans Tson Söderström og Vesa Vihriälä

Síðustu tvö ár hefur heimurinn gengið í gegn um fjármálakreppu og djúpa efnahagslægð, hina dýpstu síðan í heimskreppunni 1929-39. Norðurlönd hafa orðið verr úti en flest önnur lönd.

Fjármálakreppan hefur hleypt af stað rökræðum um getu heimsbúskaparins til að bregðast hjálparlaust við svo miklum skelli, um þörfina fyrir úrræðabetri stjórn á fjármálamörkuðum og strangara eftirlit með þeim og um hlutverk hagstjórnar í sveiflujöfnunarskyni. Kreppan hefur leitt til endurmats á stjórn peningamála og fjármála ríkisins. Hún vekur spurningar um ágæti óheftrar hnattvæðingar og undirstrikar þörfina fyrir samstarf og stofnanir á alþjóðavettvangi. Hún varpar ljósi á kosti og galla velferðarríkisins og áhættuskiptabúnaðar þess. Kreppan kallar á víðtækt endurmat á gömlum og nýjum álitamálum um hagstjórn.

Þessi bók fjallar um fjármálakreppuna og efnahagslægðina af hennar völdum af sjónarhóli lítilla opinna hagkerfa með sérstakri skírskotun til Norðurlanda. Bókin tekur á mörgum brennandi spurningum: Hvers vegna urðu Norðurlöndin fyrir skelli, sem virðist ekki hafa stafað af veikleikum í fjármálakerfi þeirra sjálfra (að Íslandi undanskildu) og ekki heldur af skorti á samkeppnishæfni þeirra á heimsmörkuðum? Hvað hafa Norðurlöndin gert til að stemma stigu fyrir afleiðingum kreppunnar heima fyrir? Hvaða lærdóma er hægt að draga af kreppunni um stjórn og fyrirkomulag peningamála á Norðurlöndum? Gerðu Svíar rétt í að halda í sænsku krónuna? Gerðu Finnar rétt í að taka upp evru? Hvað fór úrskeiðis á Íslandi? Er þörf og svigrúm fyrir örvandi aðgerðir í ríkisfjármálum í litlum opnum hagkerfum, ef skuldir ríkisins eru við efstu hættumörk? Hvernig er hægt að sameina styrka stjórn ríkisfjármála og endurheimt örs hagvaxtar? Ættu Norðurlöndin að endurskoða opingáttarstefnu sína í ljósi hverfullar þróunar efnahagsmála á heimsvísu? Er velferðarríki Norðurlanda léttir eða byrði í ljósi kreppunnar?

Bókin leitar svara við áleitnum spurningum um hagstjórn í litlum opnum hagkerfum í sviptivindasömum heimi. Hún leggur til hagstjórn, sem hentar til að leiða Norðurlöndin í eftirsókn þeirra eftir betra skjóli og meira úthaldi.

Útgefandi: Rannsóknastofnun finnsks efnahagslífs (ETLA), Helsinki, janúar 2010.