8. júl, 2005

Náttúruauður og þróunaraðstoð 1965-1998

Mynd 57. Þróunaraðstoð við fátæk lönd víðs vegar um heiminn hefur reynzt misvel. Ein ástæðan virðist vera sú, að skilyrðislaus aðstoð hneigist til að slæva sjálfsbjargarhvöt þiggjandans. Þess eru mörg dæmi, einkum í Afríku, að þróunaraðstoð hafi verið misnotuð. Fá lönd hafa þegið jafnmikið fé utan að og Tansanía, en samt stóð landið í stað áratug fram af áratug eða allar götur, þar til gefendurnir, þar á meðal Svíar, gerðu sér ljóst, að þróunaraðstoðin skilaði ekki tilætluðum árangri og kipptu að sér hendinni. Þá loksins hófust nauðsynlegar umbætur í efnahagsmálum Tansaníu, og nú er landið að byrja að sjá árangur af umbótastarfinu, þótt hægt gangi. Eftir hverju fer það, hvaða lönd þiggja mesta þróunaraðstoð? Það fer að miklu leyti eftir því, hversu fátæk þau eru, svo sem eðlilegt er, en þó ekki eingöngu. Myndin að ofan sýnir, að þegin þróunaraðstoð síðan 1965 helzt í hendur við vægi frumframleiðslu í efnahagslífinu. Myndin nær yfir 143 lönd; hver punktur á myndinni lýsir einu landi. Fylgnin er 0.54. Takið eftir því, að ekkert land, þar sem hlutur frumframleiðslunnar í mannaflanum er fimmtungur eða minna, þiggur meira en sem svarar 5% af þjóðarframleiðslu sinni erlendis frá. Takið einnig eftir því, að öll löndin, sem þiggja fimmtung af þjóðarframleiðslu sinni eða meira af útlendingum, binda 40% af mannaflanum eða meira við landbúnað og aðra frumframleiðslu. Minni frumframleiðsla — og meiri iðnaður, verzlun og þjónusta! — er því ávísun á minni þróunaraðstoð erlendis frá, meiri sjálfsábyrgð í efnahagsmálum og meiri hagvöxt (sjá mynd 19).