Náttúruauðlindir og þroski fjármálakerfisins 1965-1998
Mynd 56. Stofnanir þjóðfélagsins skipta máli fyrir hagvöxt, sögðum við í textanum undir mynd 55. En af hverju ræðst það, hvort stofnanir þjóðfélagsins koma þegnunum að góðu gagni eða ekki til langs tíma litið? Eftir hverju fer það til dæmis, hvort við búum við lýðræði eða fáræði, frjálsa eða múlbundna fjölmiðla, óháða dómstóla eða dómstóla, sem dansa eftir duttlungum ríkisvaldsins? Við þessum spurningum eiga fræðimenn engin einhlít svör, en glíman við þær heldur áfram. Getur það verið, að náttúruauðlindagnægð veiki ýmsar stofnanir samfélagsins? — til dæmis lýðræðið og innviði fjármálakerfisins með því að ýta undir rentusókn af ýmsu tagi. Er það tilviljun, að Afríka logar í ófriði? — þegar allir vita, að stríðið stendur um yfirráð yfir demöntum í Sierra Leóne og ýmsum öðrum náttúruauði annars staðar um álfuna. Þetta eru býsna góðar spurningar. Myndin að ofan sýnir, að þroski fjármálakerfisins, mældur eins og á mynd 55, stendur í öfugu sambandi við hlutdeild náttúruauðs í þjóðarauði um heiminn, en hún er mæld eins og á mynd 19. Myndin að ofan nær yfir 85 lönd, bæði rík lönd og fátæk, og lýsir hver punktur á myndinni meðalgildum stærðanna á ásunum tveim yfir 33 ára tímabil, 1965-1988. Nú er að vísu ekkert hægt að fullyrða um orsök og afleiðingu á grundvelli einfaldrar fylgni eins og þeirrar, sem sýnd er á myndinni. Líklegra virðist þó það, að þroski fjármálakerfisins fari eftir auðlindagnægðinni, heldur en hitt, að auðlindagnægðin fari eftir fjármálaþroskanum. Það er til að mynda hægt að hugsa sér, að rentusóknurum í kringum auðlindaútgerðina takist að sölsa undir sig banka og aðrar fjármálastofnanir og beina útlánum þeirra í farvegi, sem eru þóknanlegir rentusóknurunum sjálfum, en almenningi í óhag, og haldi aftur af eðlilegri framþróun í peningamálum með því móti. Annar möguleiki er sá, að auðlindagnægð dragi beinlínis úr þörfinni fyrir banka. Þjóð, sem á mikið af olíu eða öðru slíku, getur aukið eða minnkað sparnað sinn og fjárfestingu með því að hægja eða herða á olíuútgerðinni, svo að þá er kannski minni þörf fyrir fjármálastofnanir til að laða menn til sparnaðar og fjárfestingar. En svo er einn kostur enn: ef til vill ráða einhverjir enn aðrir þættir því, hversu löndin skipast á myndinni, þannig að sum búa við litlar auðlindir og mikinn fjármálaþroska og önnur við miklar auðlindir og lítinn þroska. Reynslan mun vonandi skera úr þessu.