Menntun eftir landshlutum 1996
Mynd 32. Við Íslendingar verjum aðeins um 5% af þjóðarframleiðslu okkar til menntamála, á meðan frændur okkar annars staðar á Norðurlöndum verja 7-8% þjóðarframleiðslu sinnar í sama skyni (sjá mynd 17; sjá einnig Þeir þurfa að sjá samhengið). Þar fyrir utan er menntun okkar Íslendinga misskipt á milli landshluta. Myndin sýnir, að hlutfall þeirra, sem lokið hafa háskólaprófi, er langhæst í Reykjavík, Reykjanesi og Norðurlandi eystra, eða um eða yfir 20% vinnandi fólks. Hlutfall háskólamanna er miklu lægra í öðrum landshlutum, eða frá 15% á Vestfjörðum niður í 6% á Vesturlandi og Norðurlandi vestra. Myndin sýnir einnig, að hlutfall þeirra, sem hafa grunnskólamenntun eða minna, er lægst í Reykjavík og á Reykjanesi og Norðurlandi eystra, eða um 30% af mannafla eða tæplega það. Hlutfall þeirra, sem minnsta menntun hafa, er á hinn bóginn miklu hærra annars staðar á landinu, og fer yfir 40% af mannafla á Norðurlandi vestra og Austurlandi. Skipting mannaflans í starfsstéttir endurspeglar misskiptingu menntunarinnar. Bændur eru tiltölulega flestir á Norðurlandi vestra og Suðurlandi og sjómenn á Vesturlandi og Austurlandi. Í þessum fjórum kjördæmum eru hlutfallslega fæstir sérfræðingar og kennarar. Í Reykjavík eru engir bændur, og sjómenn eru langt innan við 1% af mannafla, og í Reykjanesi eru bændur og sjómenn um 3% af mannaflanum. Þarna, þ.e. á suðvesturhorni landsins, eru aftur á móti tiltölulega flestir sérfræðingar og kennarar, eða 15% mannaflans í Reykjavík og 13% á Reykjanesi — auk Norðurlands eystra, þar sem sérfræðingar og kennarar eru 17% af mannaflanum og bændur og sjómenn 13%. Þessar tölur eru teknar úr skýrslu Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, Kjör Íslendinga: Efnahagur einstaklinga og fjölskyldna 1996 (1997). Tölurnar vekja upp tvær spurningar. (1) Er það alls kostar heppilegt, að misvægi atkvæðisréttar eftir búsetu fylgi misskiptingu menntunar? — þannig að sá landshluti, þar sem þegnarnir hafa aflað sér mestrar menntunar, hafi tiltölulega minnst áhrif á löggjöf landsins og landsstjórnina. (2) Er ekki nauðsynlegt að snúa vörn í sókn í menntunarmálum þjóðarinnar og landsbyggðarinnar sérstaklega? — til að renna styrkari stoðum undir fjölbreytt atvinnulíf um breiðar byggðir landsins. Reynslan utan úr heimi sýnir, að góð menntunartækifæri heima fyrir og fjölbreytt atvinnulíf eru langbezta leiðin til að halda unga fólkinu heima. Þetta á jafnt við um Ísland í samfélagi þjóðanna og um landsbyggðina og sambýli hennar við þéttbýliskjarnann á suðvesturhorni landsins.