Fréttabréf Háskóla Íslands
1. sep, 1994

Magn og gæði

Magn og gæði

Halldór Laxness segir frá hollenzkum mannfræðingi, prófessor, í einni bóka sinna. ,,Hann hafði dvalizt áratugum saman í fjarlægum eyjum, þar sem búa villimenn. … Þessi prófessor aðhylltist eina mjög handhæga og sennilega laukrétta heimspeki um kvantítet og kvalítet, það er að segja magn og gæði; en sú grundvallarsetning leyfði honum ekki að hafna neinum hlutum algerlega, hversu illir sem þeir voru, né játast öðrum skilyrðislaust fyrir gæðasakir.“

Halldór rifjar upp nokkur tilsvör prófessorsins.

,,Spyrillinn (mjög andaktug þýzk kennslukona): Herra prófessor, hvað teljið þér aðalmuninn á siðuðum mönnum og villimönnum?

Svar prófessorsins: Það er enginn munur. Meðal villimanna eins og siðaðraða manna er aðeins tvennt til: magn og gæði. En því miður, kona góð, magn og gæði standast ekki á. Það eru aðeins til mjög fáir almennilegir menn. Afgangurinn er ræflar.“ (Skáldatími, bls. 194-6)

Ein aðalröksemd þeirra, sem hafa fjargviðrazt allra mest út í vinnumatsnefnd Háskólans, virðist vera reist á þeirri hugmynd hollenzka mannfræðingsins, að magn og gæði standist ekki á. Þeir, sem birta mikið af greinum um fræði sín í erlendum og innlendum tímaritum, eru lagðir undir grun um, að greinar þeirra hljóti að vera lítilfjörlegar fjöldans vegna. Þessi skoðun virðist til að mynda eiga sterkan hljómgrunn meðal stærðfræðinga í raunvísindadeild Háskólans. Þeir virðast sumir líta svo á, að stærðfræði sé svo vandasamt viðfangsefni og útheimti svo mikla fágun umfram önnur verk, að það jaðri við ókurteisi að birta nema í mesta lagi eina ritgerð á ári eða á nokkurra ára fresti um þau fræði.

Hvað ætli Euler hefði fundizt um þessa kenningu? Leonhard Euler (1707-1783) birti 886 bækur og greinar um stærðfræði um sína daga. Það gerir 800 prentaðar síður á ári. Heildarritsafn hans telur 73 bindi, um 600 síður hvert. Þá eru bréfaskipti hans við tvo Bernoulli-bræður, föður þeirra og fleiri mæta stærðfræðinga ekki talin með, þótt bréfin séu líka sneisafull af stórmerkilegri stærðfræði. Þessi bréf eru talin hafa verið um 4.000, en aðeins 2.791 hafa varðveitzt. Bara bréfaskráin, segjum tvær línur um hvert bréf, myndi fylla 390 blaðsíðna bók. Tímarit eitt í Pétursborg, þar sem Euler birti ritgerðir sínar reglulega, hafði ekki undan: það tók ritstjórana 43 ár eftir dauða Eulers að birta það efni, sem hann hafði sent þeim fyrir andlát sitt.

Euler missti sjón á öðru auga árið 1735 og varð blindur á báðum 1771, en hann hélt þó áfram að semja með óskertum afköstum síðustu tólf árin, sem hann lifði. Beethoven samdi 9. sinfóníu sína næstum alveg heyrnarlaus. Smetana samdi Landið mitt án þess að heyra nokkurn skapaðan hlut. Og Euler skrifaði bók eftir bók alblindur, eins og ekkert hefði í skorizt.

Hvernig fór hann að því? Hann hafði gott minni. Og innsæið var eftir því: hann sá til dæmis á augabragði í gegnum þá ágizkun Fermats, að allar tölur á forminu 2 í veldinu 2n plús 1 séu prímtölur. Ekki aldeilis, sagði Euler, því að 2 í veldinu 25 plús 1 eru 4.294.967.297, og það fæst með því að margfalda 6.700.417 og 641.

Hvernig ætli Euler hefði reitt af í vinnumati Háskólans? Hann birti sextán bækur og greinar á ári að jafnaði frá tvítugu til dauðadags, en af því að útgefendur hans náðu ekki að birta ýmislegt af þessu fyrr en að honum látnum, getum við hugsað okkur, að hann hafi ekki birt nema eina bók eða grein á mánuði að meðaltali, meðan hann lifði. Fyrir hverja grein hefði Euler væntanlega fengið 500-900 punkta og 2.000 punkta fyrir bók samkvæmt núgildandi vinnumatsreglum, segjum 1.000 punkta á mánuði að meðaltali, nema vinnumatsnefndin hefði dregið hann niður fyrir offramleiðslu að undirlagi starfsbræðra hans í stærðfræðiskor. Fjárráð vinnumatssjóðsins hefðu væntanlega ekki leyft sjóðnum að greiða nema fjórðung út eða 250 yfirvinnutíma á mánuði, en það gerir nokkurn veginn 8 tíma á dag ofan á 8 tíma dagvinnu virka daga í dæmi Eulers. Með þessu móti hefðu heildarlaun Eulers í Háskólanum án ofkennslu numið tæplega hálfri milljón króna á mánuði. Það jafngildir innan við 12.000 þýzkum mörkum á mánuði og er langt undir mánaðarlaunum prófessora í þýzkum háskólum á okkar dögum.