8. júl, 2005

Laun og menntun 1996

Mynd 31. Reynslan utan úr heimi sýnir, að laun standa jafnan í beinu sambandi við menntun. Hér heima eru því miður engar haldbærar tölur til um samhengi menntunar og launa yfir löng tímabil, en þó eru til athyglisverðar tölur um eitt ár, 1996. Þessar tölur eru birtar í skýrslu Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, Kjör Íslendinga: Efnahagur einstaklinga og fjölskyldna 1996 (1997). Þær virðast staðfesta það, sem við þekkjum að utan: að menntun borgar sig. Myndin sýnir, að starfsmenn með háskólapróf höfðu að jafnaði helmingi (þ.e. 50%) hærri laun á vinnustund en starfsmenn með grunnskólapróf eða minna. Þessar tölur ná að vísu ekki yfir þann kostnað, einkum endurgreiðslu námslána og vinnutekjutap, sem leggst á þá, sem ganga menntaveginn. Þær endurspegla ekki heldur tekjujöfnunaráhrif skatta- og tryggingakerfisins. Þetta þýðir, að ævitekjumunurinn á háskólamönnum og hinum að greiddum sköttum og skyldum er minni en myndin sýnir, en hann hverfur þó ekki næstum allur nema í einstökum hópum. Þeir, sem hafa lokið háskólaprófi, eru um sjöttungur af úrtakinu, en þeir, sem hafa grunnskólamenntun eða minna, eru næstum tvisvar sinnum fleiri, eða um þriðjungur af úrtakinu. Laun fylgja menntun stig af stigi með aðeins einni undantekningu: iðnnám eða vélstjóramenntun gefur ívið meira í aðra hönd en bóklegt framhaldsnám, þótt síðar nefnda námið sé yfirleitt lengra. Með þessum tölum er samt ekki öll sagan sögð. Sama skýrsla greinir frá því, að sjómenn eru tekjuhæsta starfsstéttin á Íslandi: þeir höfðu hærra kaup (970 kr.) á hverja vinnustund 1996 en stjórnendur og atvinnurekendur (963 kr.) og sérfræðingar (836 kr.), að ekki sé talað um iðnaðarmenn (733 kr.), skrifstofufólk (695 kr.), verkafólk (571 kr.) og bændur (370 kr.). Auk þess vinna sjómenn yfirleitt lengsta vinnuviku. Þessar tölur eiga við um allt vinnandi fólk. Sé á hinn bóginn aðeins tekið mið af fullvinnandi fólki, þ.e. þeim, sem vinna 35 stundir á viku eða meira, þá lenda sjómenn í öðru sæti á eftir stjórnendum og atvinnurekendum, en sérfræðingar eru þá í þriðja sæti. Af þessu öllu virðist mega draga þá ályktun, að menntun borgi sig yfirleitt á Íslandi ekki síður en í öðrum löndum, enda þótt miklar tekjur í sjávarútvegi skekki myndina talsvert hér heima. Nánari athugun mun vonandi leiða í ljós, hvort þessi niðurstaða reynist rétt, þegar til lengdar lætur. Hér er þó ef til vill ekki allt sem sýnist (sjá Menntun borgar sig — eða hvað? og Launamunur og menntun).