Landsframleiðsla og framleiðslugeta 1945-2005
Mynd 108. Slétti ferillinn rauði sýnir verga landsframleiðslu á Íslandi eins og hún hefði verið, hefði meðalvöxtur hennar frá 1945 til 2005 haldizt samur og jafn allan tímann. Meðalvöxturinn nam 4,0% á ári að jafnaði þennan tíma. Það gerir röska tíföldun landsframleiðslunnar á föstu verðlagi síðan 1945. Slétti ferillinn slær máli á framleiðslugetu hagkerfisins þessi 60 ár, þ.e. landsframleiðslu miðað við fulla nýtingu framleiðsluþáttanna. Hlykkjótti ferillinn bláii sýnir verga landsframleiðslu eins og hún var á hverjum tíma með vísitölu, sem er 100 árið 2000. Takið eftir því, að landsframleiðslan var langt umfram framleiðslugetu, þegar verðbólgan var mest á áttunda og níunda áratugnum. Ofhitun hagkerfisins átti mikinn þátt í þessu ásamt ofveiði til sjós og oftöku erlendra lána. Að loknu löngu stöðnunartímabili árin 1987-1996 tók þjóðarbúið aftur að vaxa, en vöxturinn síðan þá hefur verið svipaður og vöxturinn að jafnaði frá 1945. Þetta veldur því, að hagkerfið hefur ekki enn náð sér á strik: framleiðslan hefur verið undir framleiðslugetu síðan 1990. Myndin að ofan gefur í grófum dráttum svipaða mynd af sambandi framleiðslunnar og framleiðslugetunnar síðan 1945 og myndir 13 og 14. Tölurnar á myndinni að ofan eru teygðar aftur til ársins 1901 á næstu mynd.