27. nóv, 2006

Landsframleiðsla Asíu sem hlutfall af heimsframleiðslu 1820-2025

Mynd 7. Síðustu 400 ár eru óvenjuleg að því leyti, að allar götur fram til aldamótanna 1600 eða þar um bil voru Kínverjar mesta hagveldi heimsins. Framlag þeirra til framfara mannkynsins ber vitni um veldi þeirra í þá daga: áttavitinn, byssupúðrið, prentvélin og pappírspeningar eru kínverskar uppfinningar. Síðan tók að halla undan fæti þarna fyrir austan. Um 1820 var hlutdeild Asíu í framleiðslu heimsins í heild komin niður fyrir 60%, eins og myndin sýnir. Öld síðar, eða 1920, var hlutdeild Asíu í heimsbúskapnum komin niður undir fjórðung og 1940 niður fyrir fimmtung. Asía var orðin að einu allsherjarfátæktarbæli. En þróunin átti eftir að snúast við. Frá 1965 til 1990 óx framleiðsla á mann í Asíu um næstum 4% á ári að jafnaði og í Austur-Asíu um næstum 7% á ári á móti 2,5% í OECD-löndunum og innan við 1% á ári í Afríku og í Suður-Ameríku (sjá mynd 8). Árið 1992 var skerfur Asíu til heimsframleiðslunnar kominn upp undir 40% og stefnir upp undir 60% árið 2025 samkvæmt spám alþjóðastofnana. Gangi það eftir, þá mun Asía endurheimta fyrri yfirburðastöðu í heimsbúskapnum. Þá mun heimurinn aftur fá annan svip. Fjármálakreppan í Asíu 1997-1998 virðist ekki líkleg til að raska þessari þróun, því að hún náði ekki að feykja burt stoðunum undan hagvextinum í Asíu. Stoðirnar standa. Menntun fólksins hverfur ekki út í veður og vind, þótt hlutabréf falli í verði um tíma. Mikil sparnaðarhneigð gufar ekki heldur upp, þótt gengi bréfa falli í bili. Útflutningsmarkaðir hverfa ekki undan fótum manna, þótt gengi hlutabréfa og gjaldmiðla falli um hríð, heldur ætti gengisfall þvert á móti að örva útflutning með tímanum. Fjármálakreppan gæti átt eftir að reynast Asíuþjóðunum þörf áminning um það, sem betur mátti fara í hagstjórninni, ekki sízt í bankamálum, en þar var og er enn einn veikasti hlekkurinn í hagvaxtarkeðjunni þarna austur frá: of mikil ítök stjórnmálamanna í bönkum og sjóðum og þar af leiðandi of lítil fyrirhyggja í fjárfestingu. En það er verið að breyta þessu, til dæmis í Taílandi og Kóreu. Samdráttarskeiðinu er lokið. Flest Asíulöndin hafa rétt úr kútnum og búa nú enn á ný við öran hagvöxt.