7. júl, 2008

Landsframleiðsla á vinnustund á Íslandi og erlendis 2002

Mynd 79. Hér eru samræmdar tölur um landsframleiðslu á vinnustund, en það er skásti mælikvarði, sem völ er á um framleiðni og lífskjör. Árið 2003 var settur á netið nýr hagvaxtargagnabanki í hagfræðideildinni í Groningenháskóla í Hollandi, en þar var einn helzti hagvaxtarmælingamaður heims, Angus Maddison, prófessor í hagfræði frá 1978 til 1996 og hefur auk þess starfað mikið fyrir OECD. Þeir í Groningen hafa tekið saman landsframleiðslutölur fyrir OECD-löndin og ýmis önnur lönd og einnig tölur um atvinnuþátttöku og hlutfall starfandi og síðast en ekki sízt tölur um fjölda vinnustunda, en samræmdar tölur um fjölda vinnustunda í ýmsum löndum hafa verið illfáanlegar fram að þessu. Nú er þetta allt sem sagt loksins aðgengilegt á einum stað, svo að hægt er að bjóða upp á samræmdar upplýsingar um landsframleiðslu á hverja vinnustund án þess að þurfa að hafa fyrir því að viða efninu að sér úr ýmsum áttum, svo sem ég og ýmsir aðrir höfum þurft að gera hingað til. Ísland vantar að vísu í safnið hjá þeim vegna þess, að vinnutímatölur aftur í tímann, aftur til ársins 1950, eru ekki til fyrir Ísland. En vinnutímatölur um Ísland fyrir árin síðan 1995 eru til í skýrslum Hagstofu Íslands og OCED. Þær hef ég notað til að fella Ísland inn í myndina að ofan með sömu aðferð og þeir í Groningen nota til að reikna út landsframleiðslu á vinnustund í öðrum löndum. Sumir telja, að vinnutímafjöldinn á Íslandi sé ofmetinn um nálega 10%. Sé það rétt, þá myndi íslenzka súlan á myndinni lengjast um 10% að öðru jöfnu: Ísland færi þá upp fyrir Spán og Japan á myndinni, en héldist eigi að síður fyrir neðan Ástralíu og Bretland. Heimild: University of Groningen og The Conference Board, GGDC Total Economy Data Base, 2003. Þessum tölum er lýst nánar í fyrirlestri mínum á Iðnþingi 2003. Sjá einnig tölur um fyrri ár á mynd 67 og mynd 15. Ég bað þá í Groningen að taka af mér ómakið og bæta Íslandi í safnið sitt, og þeir urðu góðfúslega við þeirri ósk; sjá tölur þeirra fyrir 2003 á mynd 95 og 2004 á mynd 101.