8. júl, 2005

Landsframleiðsla á vinnustund á Íslandi og erlendis 2001

Mynd 67. Nýjar tölur frá OECD um vinnutíma Íslendinga og annarra aðildarþjóða benda enn sem fyrr til þess, að Íslendingar vinna lengri vinnudag en aðrar Evrópuþjóðir nema Tékkar og Slóvakar. Vinnutíminn hér er svipaður og í Bandaríkjunum, Ástralíu og Mexíkó, eða á bilinu 1800 til 1860 stundir á ári frá 1996 til 2001 (sjá mynd 68). Bandarískir launþegar hafa yfirleitt ekki nema tvær vikur í sumarfrí, á meðan fimm til sex vikna frí er algengt hér heima. Þetta þýðir, að vinnuvikan er að jafnaði lengri hér en þar þær vikur, sem unnið er. Til samanburðar unnu Norðmenn 1364 stundir að jafnaði árið 2001 og Svíar 1603 stundir. Vinnutímatölur eru ekki til fyrir árið 2001 í öllum löndum OECD, svo að þá er stuðzt við vinnutíma árið á undan eða þar á undan frekar en að skila auðu fyrir viðkomandi land á myndinni að ofan. Það á ekki að skekkja myndina að ráði, því að vinnutími breytist tiltölulega lítið frá ári til árs í hverju landi fyrir sig. Takið eftir því, að vinnutímatölur vantar fyrir nokkur lönd, þar á meðal Danmörku. Svo er annað: hlutfall starfandi fólks í mannaflanum er mun hærra hér heima en annars staðar í OECD löndum. Þetta hlutfall hér er 85% á móti 78% í Noregi og 73% í Bandaríkjunum (sjá mynd 69). Sem sagt: við þurfum að vinna meira en aðrir til að halda uppi sambærilegum lífskjörum. Þetta er gömul saga um ýmislega landlæga óhagkvæmni í íslenzku efnahagslífi. Og takið eftir því, að Ísland hefur færzt lítils háttar upp eftir listanum miðað við árið 1997 (sjá mynd 15) vegna þess, að landsframleiðsla á mann hefur aukizt ívið meira hér en víða annars staðar. Takið einnig eftir því, að landsframleiðslutölurnar að ofan eru skráðar á kaupmáttarkvarða með aðferð Alþjóðabankans, sem er frábrugðin aðferð OECD, og eru því lægri fyrir flest landanna á myndinni en tölurnar á mynd 15. Hversu varanleg aukning landsframleiðslunnar er hér heima, getum við ekki vitað með vissu, því að hagvöxturinn á Íslandi síðustu ár hefur að miklu leyti verið knúinn áfram með erlendu lánsfé (sjá mynd 12 og  mynd 66). Ýmislegt bendir enn til þess, að lánsfjáraukningin muni ekki öll skila sér í varanlegum tekjuauka, en reynslan mun skera úr því. Sjá nýrri tölur fyrir árið 2002 hér.