27. nóv, 2006

Landsframleiðsla á vinnustund á Íslandi og erlendis 1997

Mynd 15. Myndin sýnir landsframleiðslu á vinnustund árið 1997 í öllum OECD-löndum, þar sem tölur eru til um meðallengd vinnuvikunnar. Ísland er í 16. sæti af 21. Allar þær þjóðir, sem við erum vön að bera okkur saman við, eru fyrir ofan okkur á listanum. Sumir gleðjast að vísu yfir mikilli vinnu og meta kjör sín eftir árangri vinnunnar án tillits til erfiðisins, sem að baki býr. Það er virðingarvert sjónarmið, ef menn líta svo á, að vinnan sé guðs dýrð. Aðrir efast um ágæti mikils vinnuálags, því að það getur bitnað á ýmsum öðrum lífskjaraþáttum, svo sem barnauppeldi og eðlilegu heimilislífi. Langflestir myndu þó taka því fegins hendi að fá að vinna minna fyrir óskert kaup. Þess vegna er framleiðsla á vinnustund betri lífskjarakvarði en framleiðsla á mann. Það er með öðrum orðum ekki framleiðslan, sem ræður mestu um lífskjörin, heldur framleiðnin. Tölur um meðallengd vinnuvikunnar eða um meðalfjölda vinnustunda á hvern vinnandi mann á ári eru ekki til um allmörg OECD-lönd, a.m.k. ekki í gagnasafni OECD. Þess vegna vantar Austurríki, Belgíu, Grikkland, Írland, Lúxemborg, Pólland, Tyrkland og Ungverjaland á myndina. Auk þess eru tölurnar ekki fyllilega sambærilegar á milli landa, svo að myndina ber því að túlka með varúð. Um Ísland er það að segja, að ýmsum mun finnast vinnustundafjöldinn, sem íslenzka súlan hvílir á, vera tortryggilega lítill. Samkvæmt tölum OECD vinnur hver starfsmaður á Íslandi 1860 stundir á ári, sem þýðir tæplega 36 stunda vinnuviku að jafnaði á móti 32 stundum í Danmörku til samanburðar. Þessu máli eru gerð nánari skil í greininni Framleiðni og lífskjör: Hvar stöndum við? Viðbót í maí 2001: Uppsveiflan í íslenzku efnahagslífi síðustu ár þokaði Íslandi upp eftir þessum lista árin 1998-2000, en það var þó tálsýn, sem byggði á of hátt skráðu gengi krónunnar. Nú, þegar gengið er kolfallið og komið nær réttu lagi miðað við markaðsðstæður, þá er Ísland aftur komið neðarlega á listann að ofan, sé hann færður upp til ársins í ár (2001), en það verður ekki hægt fyrr en 2003, þar eð opinberar tölur um landsframleiðslu eru ekki skráðar í hagskýrslur fyrr en 1-2 árum eftir á. Viðbót í nóvember 2002: sjá mynd 67.