8. júl, 2005

Landsframleiðsla 1870-1945

Mynd 49. Hér sjáum við mat dr. Guðmundar Jónssonar lektors á landsframleiðslu á Íslandi frá 1870 til 1945. Landsframleiðslan tífaldaðist að raunverulegu verðmæti á þessum þrem aldarfjórðungum. Það jafngildir rösklega 3% hagvexti á ári yfir tímabilið allt. Landsframleiðsla á mann fimmfaldaðist á sama tíma. Það jafngildir rösklega 2% hagvexti á mann 1870-1945. Takið eftir því, hvernig styrjaldarárin skera sig úr. Heimsstyrjaldarárin fyrri, 1914-1918, voru samdráttarár: landsframleiðsla á mann dróst saman um 22% frá 1913 til 1918. Heimsstyrjaldarárin síðari, 1939-1945, voru á hinn bóginn uppgangsár á Íslandi: landsframleiðsla á mann óx um 85% frá 1938 til 1945. Af þessu má ráða, hversu Íslendingar högnuðust á heimsstyrjöldinni síðari, án þess að bættum búskaparháttum væri fyrir að þakka nema að tiltölulega litlu leyti, enda var stríðsgróðanum eytt á skömmum tíma eftir stríðið. Óstjórnin hélt áfram enn um sinn. Hagvöxtur á mann frá 1870 fram til ársins 1938 var um 1½%.