Vísbending
1. des, 2002

Jólablað Vísbendingar

Mannauðurinn er dýrmætasta auðlind hvers lands

Sennilega hafa fáir skrifað meira af greinum í Vísbendingu en þú og enginn jafnmikið yfir lengri tíma en það lætur nærri að þú hafir skrifað reglulega í blaðið frá því að það varð til fyrir um tuttugu árum síðan. Manstu um hvað þú skrifaðir þína fyrstu grein í Vísbendingu og hvenær hún birtist?

Þetta var sumarið 1987. Ný ríkisstjórn þriggja flokka var setzt að völdum á Íslandi og lofaði að halda gengi krónunnar stöðugu, stefna að hallalausum viðskiptum við útlönd, lækka erlendar skuldir í hlutfalli við þjóðarframleiðslu og ná verðbólgunni niður. Ég skrifaði þá grein, sem hét ,,Er hægt að halda gengi krónunnar stöðugu?”, og reyndi þar að útmála fyrir lesandanum, hvað til þess þyrfti að ná þessum markmiðum, og lagði áherzlu á strangt aðhald í ríkisfjármálum og peningamálum. Nokkrum mánuðum síðar var gengið fellt til að púkka undir fiskvinnsluna eina ferðina enn, og gafst mér þá tilefni til að fjalla nánar um málið í Vísbendingu. Reyndar var ég um þetta leyti að skrifa langa greinargerð um gengismál og verðbólgu fyrir Seðlabankann; hún birtist í Fjármálatíðindum árið eftir.

Þegar þú horfir yfir umræðuna og helstu efnahagslegu hitamálin á þessu tuttugu ára tímabili, hvernig finnst þér umræðan um efnahagsmál hafa breyst, hvaða málum hefur verið sópað af borðinu og hvaða deiluefni eru orðin næsta krónísk?

Efnahagsumræðan hefur tekið miklum framförum þennan tíma ekki sízt vegna þess, að hún hefur losnað smám saman úr viðjum stjórnmálaflokkanna, auk þess sem hagfræðikunnáttu í landinu hefur fleygt fram: þetta tvennt hangir saman. Umræðan lét löngum hér áður fyrr berast með straumnum: stjórnmálamenn og blaðamenn og aðrir, sem þeim voru handgengnir, þjörkuðu fram og aftur og endalaust um efnahagsmál og sjaldnast af næmum skilningi, svo að segja má, að naumast hafi staðið steinn yfir steini í efnahagsumræðunni. Þetta var yfirleitt gersamlega ófrjótt rifrildi, að vísu með ýmsum veigamiklum undantekningum, og árangurinn í efnahagsmálunum var eftir því. Ég þreytist aldrei á að rifja það upp, að það var Halldór Kiljan Laxness, sem fletti ofan af óhagkvæmninni í íslenzkum landbúnaði af völdum búverndarstefnunnar á sínum tíma með nákvæmlega réttum rökum, á meðan stjórnmálamenn og hagfræðingar og aðrir horfðu sljóum augum í aðrar áttir. Öll þessi ár, frá 1930 til 1960, ríkti hálfgert ófremdarástand í efnahagsmálum landsins, þótt styrjaldargróðinn byrgði sumum sýn á stríðsárunum og ruglaði þá í ríminu.

Það rofaði mjög til á viðreisnaráratugnum 1960-1970: þetta var stjórnin, sem lyfti ávaxtabanninu. Umbæturnar, sem viðreisnarstjórnin réðst í, gengu þó of skammt af sjónarhóli nútímans, allt of skammt, enda hélt hringavitleysan í efnahagsmálunum áfram eftir 1970, þótt hlutföllin væru nú önnur. Hagvöxturinn var að vísu allmikill og full atvinna flest árin, jafnvel yfirfull, og þessu fylgdi mikil verðbólga, sem skekkti innviði atvinnulífsins, mikil skuldasöfnun í útlöndum langt umfram arðvænlega fjárfestingu og landlæg óhagkvæmni og sóun á ýmsum sviðum, ekki sízt í landbúnaði og sjávarútvegi. Enda vantaði mikið á, að Íslendingar stunduðu heilbrigðan markaðsbúskap að hætti annarra þjóða í okkar heimshluta. Ríkisbúskapurinn í heild var rekinn með allmiklum halla, sem sást þó ekki greinilega í ríkisreikningi eða öðrum opinberum skýrslum, af því að ríkisbókhaldið náði aðeins yfir ríkisbúskapinn í allra þrengsta skilningi. Þetta var reyndar tilefni fyrstu greinarinnar, sem ég skrifaði um efnahagsmál í Morgunblaðið, það var haustið 1985, tveim árum eftir að ég flutti aftur heim til Íslands haustið 1983 eftir þrettán ára samfellda útivist. Mér þótti ráðlegt að blanda mér ekki í efnahagsumræðuna fyrstu tvö árin mín hér heima: mér þótti rétt að anda rækilega að mér, áður en ég byrjaði að anda frá mér. Ég hafði þegar á námsárum mínum í Manchester stofnað til sambands við Morgunblaðið í gegnum Matthías Johannessen ritstjóra. Ég man, að ég þýddi handa blaðinu heilsíðugrein um fiskveiðistjórn veturinn 1971-1972.

En stíflan brast sem sagt: þegar fjárlagafrumvarpið kom út haustið 1985, virtist það á yfirborðinu benda til þess eina ferðina enn, að ríkisfjármálin væru í góðu lagi, enda þótt verðbólgan væri mikil. Mér þótti nauðsynlegt að benda á, að hér væri ekki allt sem sýndist, því að ríkisbúskapurinn í breiðum skilningi væri rekinn með halla svo sem löngum fyrr og þessi halli ætti nokkurn þátt í þenslunni. Þessu var smám saman kippt í lag: eftir að ég hafði skrifað svo að segja sömu greinina um þetta mál í Morgunblaðið og Vísbendingu nokkur ár í röð, með ýmsum tilbrigðum, þá færðust fjárreiður ríkisins smám saman í betra og víðfeðmara horf. Það var tilgangurinn. Mér sýnist einnig, að málflutningur minn og margra annarra á níunda áratugnum og fyrr um skaðann af völdum verðbólgunnar hafi skilað sér sæmilega. Doktorsritgerð mín frá árinu 1976 fjallaði reyndar um þetta efni: hugmyndin kom að heiman, þótt Ísland kæmi hvergi við sögu í ritgerðinni. Nú þykir það sjálfsagður hlutur að halda hagstjórninni í því horfi, að verðlag haldist þokkalega stöðugt, enda þótt það hafi reynzt mönnum nokkuð erfitt á stundum.

Ýmislegt annað hefur tekið lengri tíma. Ég skrifaði um ríkisbankarekstur eða réttar sagt gegn honum í Morgunblaðið 1987, og einnig í Vísbendingu og Fjármálatíðindi. Það framtak mæltist misjafnlega fyrir. Og það er ekki fyrr en nú, fimmtán árum síðar, að málið er komið langleiðina í höfn. Ég skrifaði fyrstu Evrópusambandsgreinina mína í Morgunblaðið árið 1987 – ekki til þess að lýsa eigin afstöðu af eða á, heldur til þess eins að hreyfa málinu og reifa kosti og galla. Ég átti von á, að stjórnmálaflokkarnir myndu taka fyrr við sér í því máli en raun hefur orðið á, en drátturinn þar er skiljanlegri en í bankamálinu, þar eð Evrópumálið er í eðli sínu rammpólitískt. Auk þess eru stjórnmálaflokkarnir flestir þverklofnir í afstöðu sinni til Evrópusambandsins. Klofningurinn afhjúpar þá einföldu staðreynd, að flokkaskipanin í landinu var búin til handa allt öðru þjóðfélagi en því, sem við búum nú í. Því fer þar að auki fjarri, að allir evrópskir hagfræðingar séu á einu máli um ágæti aðildar landa sinna að Evrópusambandinu, þótt flestir séu raunar hlynntir aðild ýmist af efnahags- eða stjórnmálastæðum, eða svo hefur mér sýnzt. Hagfræðinga getur að sjálfsögðu greint á um stjórnmál ekki síður en annað fólk. Það er á hinn bóginn enginn sambærilegur ágreiningur milli góðra hagfræðinga um samband ríkishalla og verðbólgu, og eiginlega ekki heldur um ríkisbankarekstur: það er hagfræði og ekki pólitík.

Mér hefur með líku lagi þótt það dragast úr hömlu að koma fiskveiðistjórnarkerfinu í gott og heilbrigt horf. Röksemdir veiðigjaldsmanna hafa legið fyrir síðan laust eftir 1970, og þeim hefur verið haldið fram með fjölbreyttum blæbrigðum nær sleitulaust æ síðan, og samt er það fyrst núna, 30 árum síðar, að alþingi hefur leitt veiðigjald í lög, en þó þannig, að ýmsir óttast, að gjaldinu sé aðeins ætlað að vera til málamynda og villa mönnum sýn. Það liggur fyrir, að fjórir stjórnmálaflokkar af fimm hafa nú fallizt formlega á röksemdir okkar veiðigjaldsmanna, svo að nú er það eitt eftir að sjá til þess, að andi löggjafarinnar birtist í framkvæmd: gjaldið verður vitaskuld að bíta, ef það á að geta gert fullt gagn.

Og þá eru það landbúnaðarmálin. Búverndarkostnaðurinn hefur dregizt saman, það er rétt, en það hefur gerzt nær eingöngu vegna þess, að bændum hefur fækkað. Árið 1999 kostaði búverndin neytendur og skattgreiðendur á Íslandi 36.000 Bandaríkjadali á hvert ársverk í landbúnaði samkvæmt skýrslum OECD, það er að segja 240.000 krónur á mánuði á hvert ársverk til sveita. Ýmislegt hefur eigi að síður þokazt í rétta átt: nú er til dæmis hægt að kaupa innfluttan ost og jafnvel innflutt kjöt í búðum hér, að vísu á okurverði vegna tollverndar. Baráttan gegn markaðsfirringu landbúnaðarins hefur því ekki verið með öllu árangurslaus: mig langar að nefna hlut Jónasar Kristjánssonar ritstjóra sérstaklega í því sambandi, því að hann hefur haldið fram réttum og skynsamlegum rökum í málinu um 30 ára skeið og ekki látið deigan síga. Hægagangurinn af hálfu stjórnvalda hefur á hinn bóginn sannfært mig um það, að innflutningsmálin komast ekki í lag, fyrr en við göngum í Evrópusambandið – og kalla þeir í Brussel þó ekki allt ömmu sína í þessum efnum.

Svo er eitt verk enn óunnið, og það er að tryggja næga sveigju á vinnumarkaði. Við búum enn við það, að fámenn sveit forustumanna launþega og vinnuveitenda hefur launamyndunina að miklu leyti í hendi sér svo sem tíðkast enn sem endranær víðast hvar í Evrópu. Þetta fyrirkomulag er óheppilegt og hefur átt talsverðan þátt í miklu atvinnuleysi í Evrópu undangengin ár og átti löngum drjúgan þátt í mikilli verðbólgu og skuldasöfnun hér heima, eða svo sýnist mér. Margt benti til þess, að áhugi manna á vinnumarkaðsumbótum væri að vakna á erfiðleikaárunum 1987-1996, en uppsveiflan síðan 1996 virðist hafa svæft áhugann á ný. Vinnumarkaðslöggjöfinni var að vísu breytt lítils háttar fyrir fáeinum árum, en breytingin gekk of skammt. Reyndar hefur friðurinn á vinnumarkaði hangið á bláþræði nokkrum sinnum síðustu ár og litlu munað, að efnahagslífinu væri hleypt í bál og brand með gamla laginu, en atvinnulífið hefur með naumindum sloppið fyrir horn. Hugtakið ,,friður á vinnumarkaði” segir í rauninni allt, sem segja þarf um þetta mál: hættan, sem stafar af núverandi skipan, er fólgin í því, að fáeinum forustumönnum samtaka launþega og vinnuveitenda er falið vald til að stilla til friðar á vinnumarkaði eða stofna til ófriðar og lama þá allt efnahagslífið, ef þeim sýnist svo. ,,Friður á vörumarkaði” er óþekkt hugtak af þeirri einföldu ástæðu, að vörumarkaðurinn er eins og markaðir eiga að vera, engin miðstýring þar.

Margar af greinum þínum í Vísbendingu hafa vakið mikla athygli og umtal og oft kynt undir heitum umræðum á meðal hagfræðinga. Eru einhverjar slíkar greinar þér sérstaklega minnisstæðar vegna þeirrar umræðu sem varð í kjölfarið?

Nei, eiginlega ekki. Oft fæ ég engin viðbrögð. Mér þykir auðvitað fengur í því, þegar ég verð þess var, að menn – hagfræðingar eða aðrir – taka eftir því, sem ég skrifa, en ég hugsa ekki mikið um það. Mér þykir vænt um það, að alls konar fólk alls staðar að hefur stundum samband við mig vegna þessara skrifa. Ég hef gert mér far um að flytja mál mitt eins varlega og eins rólega og rök mín hafa leyft til að gefa helzt ekki höggstað á mér. Sumum kann að finnast málflutningur minn vera í bragðdaufara lagi fyrir vikið. Ég lýsi þessu nánar í formálanum að einu ritgerðasafnanna minna, Síðustu forvöðum. Orð eru dýr: eitt óvarlegt orð – og allt getur farið í háaloft af litlu tilefni. Þessu hef ég reynt að komast hjá í lengstu lög. Ég birti aldrei svo grein í blaði, að menn úr ýmsum áttum hafi ekki lesið hana yfir fyrir fram og bent mér á hluti, sem betur mættu fara. Þessum mönnum öllum – þetta er fjölmenn sveit! – er ég afar þakklátur. Þessi aðferð hefur borið þann árangur, eða svo hefur mér sýnzt, að ég hef aldrei fengið yfir mig holskeflu mótmæla, enda þótt ég hafi stundum fjallað um viðkvæm mál og stuggað við miklum hagsmunum. Ég hef því aldrei þurft að eyða tíma mínum í að draga í land eða svara andbárum eða útskýra, við hvað ég átti með þessu eða hinu. Bændur og aðrir hafa sumir kvartað undan gagnrýni minni á búverndarstefnuna eins og eðlilegt er, en það hafa aðrir hagfræðingar ekki gert, enda skárra væri það nú. Útvegsmenn og fáeinir hagfræðingar ásamt þeim hafa andmælt sjónarmiðum mínum og annarra veiðigjaldsmanna í fiskveiðistjórnarmálinu; það er einnig skiljanlegt og ekkert við því að segja. Stjórnmálamenn hafa stundum sent mér tóninn, en ég kippi mér ekki heldur upp við það.

Ég hef stundum óskað þess, að Ísland væri þannig, að mér fyndist ég ekki hafa þurft að eyða öllu þessu púðri í að skrifa um efnahagsmál handa almenningi og öðrum hagfræðingum. Þetta er aukabúgrein hjá mér – og niðurgreidd, af minni hálfu: aðalstarf mitt eins og flestra annarra háskólamanna er að skrifa ritgerðir í erlend fræðitímarit og bækur handa erlendum forlögum. Það eru mínar ær og kýr. Sumir félagar mínir í útlöndum vöruðu mig við því á sínum tíma að hella mér út í efnahagsumræðuna hér heima; of lýjandi, sögðu þeir. Samt sé ég ekki eftir því, þegar ég lít um öxl, þótt þetta hafi trúlega að einhverju marki bitnað á afköstum mínum við rannsóknir. Ég hef fengið ýmislegt í staðinn.

Gary Becker, prófessor í Chicago, hefur svipaða sögu að segja. Bandaríska tímaritið BusinessWeek bað hann fyrir allmörgum árum, Becker var þá kominn á miðjan aldur, að skrifa í blaðið á þriggja vikna fresti. Becker taldi sig ekki geta gefið sér tíma til slíks, enda óvanur, en hann spurði samt Milton Friedman vin sinn álits til öryggis, því að Friedman var umsvifamikill dálkahöfundur, meðal annars fyrir Newsweek, um langt skeið – og það stóð ekki á svari: gerðu þetta endilega, því að þetta er bezta leiðin til að læra að skrifa! Friedman fannst, að framsetning hans sjálfs í fræðiritgerðum hefði batnað til muna, eftir að hann hellti sér út í blaðamennskuna. Becker hefur birt dálka sína í BusinessWeek æ síðan, þeir eru yfirleitt alveg prýðilegir – til að mynda dálkurinn, þar sem hann mælir með veiðigjaldi í Massachusetts í Bandaríkjunum með nákvæmlega sömu rökum og við veiðigjaldsmenn höfum haldið fram hér heima um árabil.

Annan bandarískan dálkahöfund úr hópi hagfræðiprófessora langar mig að nefna, Paul Krugman, sem skrifar beittar og oft bráðsnjallar greinar í New York Times á fjögurra daga fresti. Krugman hefur sagt frá því, að hann komst að því fyrir tilviljun, hversu vel honum lætur að skrifa um hagfræði á mannamáli. Hann þurfti ekki á því að halda fyrstu árin, því að þá skrifaði hann eingöngu fyrir aðra hagfræðinga. Hann tók sér stutt frí frá háskólastörfum í forsetatíð Ronalds Reagan og starfaði þá fyrir ráðgjafaráð forsetans í Washington og skrifaði það árið skýrslu forsetans um efnahagsmál landsins, mikla bók og mikið lesna, og þannig komst Krugman að því, hversu vel honum lætur að skrifa um hagfræði á mannamáli – og hann hefur verið nær óstöðvandi síðan. Það er annars tiltölulega sjaldgæft, að hagfræðiprófessorar í Bandaríkjunum skrifi greinar handa almenningi, þótt það hafi færzt í vöxt á síðustu árum. Það er á hinn bóginn gömul hefð meðal háskólahagfræðinga víða í Evrópu að blanda sér í umræður um efnahagsmál og önnur þjóðmál. Sumir gera meira að þessu en aðrir: Þráinn Eggertsson skrifaði til að mynda margar leiftrandi ritgerðir í blöðin í gamla daga. Það var sumpart fyrir áhrif hans og einnig sænskra starfsfélaga minna, að ég leiddist út í þetta hér heima og einnig lítils háttar í Svíþjóð.

Þegar þú lítur yfir það sem þú hefur skrifað á síðustu tuttugu árum, er eitthvað af því sem þér finnst hafa verið betur heppnað en annað, þ.e. hvaða rök og skoðanir hafa elst vel og hvað illa?

Svarið er hið sama og áðan: Nei, eiginlega ekki, ekki enn að minnsta kosti. Ekki þar fyrir, að mér sé fyrirmunað að skipta um skoðun í ljósi nýrra aðstæðna. Ég get tekið dæmi, úr því að óskað er eftir játningu. Ég sá í upphafi eins og margir félagar mínir í Háskóla Íslands ýmis tormerki á þeirri ákvörðun stjórnvalda að stofna Háskólann á Akureyri á sínum tíma; okkur þótti það vera óráð, því að með þessu væri verið að dreifa kröftunum um of. Úr því að ríkið heldur Háskóla Íslands í fjársvelti, hugsuðum við, hvaða vit er þá í því að stofna nýjan ríkisháskóla annars staðar á landinu? Reynsla mín af Tækniháskólanum í Luleå nyrzt í Svíþjóð, skammt fyrir sunnan heimskautsbaug, fékk mig til að skipta um skoðun: þá opnuðust augu mín fyrir því, hversu gríðarlega mikilvægt það er fyrir byggðarlag eins og Norðurland, hér heima eða í Svíþjóð, að hafa eigin háskóla með öllu, sem honum fylgir. Þar munar ekki minnst um aðdráttaraflið: getuna til að halda fólkinu heima og laða nýtt fólk að landshlutanum. Ég kom til Luleå á hverju ári í mörg ár og fylgdist með þróun mála þar, og af því leiddi sinnaskiptin. Ég lýsti skoðun minni á stofnun Háskólans á Akureyri árið 1987 ekki opinberlega, geri það fyrst nú, og ég óska þeim fyrir norðan allrar blessunar ævinlega.

Þau mál, sem ég hef helzt látið til mín taka í skrifum mínum um íslenzk efnahagsmál, eru þannig vaxin – hér á ég einkum við hagstjórn í víðum skilningi og hagskipulag: ríkisfjármál, peningamál, gengismál, vinnumarkaðsmál, landbúnaðar- og sjávarútvegsmál, Evrópumál, menntamál – að mér hefur ekki fundizt ég hafa ástæðu til að skipta um skoðun á þeim. Ástand landsins hefur að ýmsu leyti lagazt að sjónarmiðum mínum með tímanum, eins og ég stefndi að, ekki öfugt. Það reynir að vísu svolítið á þolinmæðina, þegar framfaramálin þokast áleiðis á hraða snigilsins, en þá er bara að bíta á jaxlinn, bretta upp ermarnar og halda áfram að ýta.

Sumir virtust misskilja bókarheitið Síðustu forvöð, sem ég nefndi áðan: þeir ályktuðu ranglega, að ég væri að spá því, þetta var árið 1995, að efnahagslífið í landinu væri á leiðinni norður og niður. Ég hef þó aldrei litið svo á, heldur þvert á móti sagt og skrifað, að lýðræðisþjóðir fari sér næstum aldrei að voða. Og við búum við lýðræði á Íslandi, þótt það haltri að vísu af völdum ranglátrar kjördæmaskipanar. Heltið mun að vísu minnka svolítið eftir næstu alþingiskosningar, en það hverfur ekki, fjarri því. Kjördæmabreytingar á Íslandi eiga það sammerkt með flestum öðrum brýnum umbótum, að þær koma nær alltaf of seint og ganga of skammt af tillitssemi eða ótta við varðmenn óbreytts ástands. Tímabundin uppsveifla í efnahagslífi lands eins og gerðist hér heima árin 1996-2000 breytir í sjálfri sér engu um hagvaxtargetu þjóðarbúsins til langs tíma litið: hér er um tvö nær óskyld fyrirbæri að tefla. Uppsveifla getur þvert á móti dregið úr hagvaxtargetunni til langframa, einkum ef hún er knúin áfram með erlendum lántökum og leiðir til verðbólgu og dregur auk þess úr áhuga almennings og stjórnvalda á umbótum, sem myndu styrkja undirstöður efnahagslífsins og hagvaxtargetuna til langs tíma litið. Þannig sýnist mér uppsveiflan 1996-2000 hafa hægt á þeim umbótum, sem áttu sér stað árin næst á undan, en þau ár gerði langvarandi stöðnun atvinnulífsins allar götur frá 1987 sitt til að sannfæra menn um nauðsyn þess að ráðast í mikilvægar skipulagsbreytingar. Fjármagnsflutningar að og frá landinu voru gefnir frjálsir á þeim árum, og Íslendingar gerðust aðilar að EES-samningnum. Niðursveiflan í efnahagslífinu síðustu misseri hefur með líku lagi gert sitt til að sannfæra stjórnvöld um nauðsyn þess að koma ríkisbönkunum nú loksins í einkaeign.

John Maynard Keynes sagði að athafnir og afstaða ráðamanna væri lítið annað en afsprengi hugmyndafræðinga sem voru uppi á sitt besta nokkrum árum áður. Friedrich Hayek kallaði ráðamenn „sölumenn notaðra hugmynda“. Að hvað miklu leyti finnst þér efnahagsumræðan síðustu tuttugu árin hafa skilað sér inn í efnahagsstjórnunina hér á landi? Hvar hefur vel til tekist og hvaða umræða og hugmyndir hafa ekki náð verðskuldaðri athygli?

Ég tel umræðuna hafa borið dágóðan árangur, þegar á heildina er litið. Ég tel íslenzka hagfræðinga því hafa gert talsvert gagn eftir á að hyggja, en þó minna gagn en við hefðum getað gert eða helzt kosið sjálfir. Þessu veldur meðal annars viðvarandi slagsíða í skólakerfi landsins og raunar Evrópu allrar. Hagfræði lesa þeir einir, sem ætla sér að verða hagfræðingar eða viðskiptafræðingar. Ég er þeirrar skoðunar, að hagfræði ætti að vera snar þáttur í námsefni framhaldsskóla til jafns við til að mynda eðlisfræði og efnafræði. Svo er ekki nú. Úr þessu er brýnt að bæta. Ekki vantar áhugann meðal æskufólks, ef  reynsla Bandaríkjamanna er höfð til marks, því að þar í landi eiga háskólanemar við átján ára aldur kost á að kynnast undirstöðum hagfræðinnar, og yfirgnæfandi hluti þeirra tekur boðinu fegins hendi. Hagfræði er eða getur að minnsta kosti verið ofboðslega skemmtileg námsgrein, ef menn hafa á annað borð áhuga á lífinu í kringum sig. Umburðarlyndi almennings á Íslandi gagnvart margvíslegri verðmætasóun, sem hefur viðgengizt hér allan lýðveldistímann og lengur og íþyngt þjóðinni mjög, hefur verið meira en það hefði verið, ef næg hagfræði væri kennd í framhaldsskólum.

Andstaða gegn frjálsri verzlun stafar yfirleitt af því, að menn skilja ekki til fulls þau rösklega 200 ára gömlu rök, sem liggja að baki fríverzlunarhugmyndinni. Ef venjulegt fólk hefði fengið tækifæri í skóla til að tileinka sér grundvallaratriði alþjóðaviðskiptafræðinnar, þá myndi lífseig tortryggni gegn viðskiptafrelsi sem almennri viðmiðun í hagstjórn hverfa nánast eins og dögg fyrir sólu nema náttúrulega í hópi þeirra, sem hafa beinan hag af viðskiptahömlum. Við hefðum þá gengið fyrr inn í EFTA en við gerðum, að ég held, og við værum lengra komin áleiðis inn í Evrópusambandið, því að höfuðrökin fyrir aðild að því eru viðskiptarök. Eigi að síður leikur enginn vafi á því í mínum huga, að íslenzkt efnahagslíf hefur í ýmsum greinum tekið miklum framförum á síðustu árum, og hagfræðingar landsins eiga ýmsir talsverðan þátt í því, bæði embættishagfræðingar innan stjórnkerfisins og aðrir, sem hafa tekið sér stöðu annars staðar í framleiðslukeðjunni, fjær vettvangi stjórnmálanna. Þjóðhagsstofnun gerði til að mynda mikið gagn um sína daga undir forustu Jóns Sigurðssonar og síðan Þórðar Friðjónssonar. Það var í mínum augum skemmdarverk að leggja stofnunina niður fyrr á þessu ári og tvístra starfsliði hennar.

Ég er búinn að nefna nokkur dæmi um framfarir hér á undan, til dæmis ríkisfjármálin. Þar hefur margt tekizt vel, en ýmislegt er samt ógert. Það er enginn sérstakur vandi að ná endum saman í búskap ríkisins, ef það vanrækir mörg þeirra mikilvægu verkefna, sem því hefur verið trúað fyrir. Það vantar enn mikið fé til menntamála, heilbrigðismála, löggæzlu og þannig áfram, eins og allir vita. Ríkið virðist vera ófært um að útvega það, sem á vantar. Þegar framlög ríkisins til þessara málaflokka verða komin í fullnægjandi horf, eða þegar ríkisvaldið hefur beitt sér fyrir þeim skipulagsbreytingum, sem þarf til að tryggja nægt fé til þessara mála, án þess að íþyngja efnahagslífinu um of með skattheimtu eða skuldasöfnun eða verðbólgu, þá fyrst verður hægt að hæla stjórnvöldum fyrir góðan árangur í ríkisfjármálum. Við í Háskóla Íslands stöndum til dæmis frammi fyrir því, að ríkisvaldið skammtar Háskólanum of lítið fé og meinar honum jafnframt að afla þess fjár, sem hann vantar, til dæmis með innheimtu skólagjalda. Ríkinu leyfist ef til vill að gera annað tveggja, en ekki hvort tveggja í senn. Sami vandi blasir við í heilbrigðiskerfinu. Það er áleitið umhugsunarefni, hvers vegna almannavaldinu hafa verið svo mislagðar hendur í þessum mikilvægu málaflokkum, ekki aðeins hér heima, heldur einnig víða annars staðar.

Annað dæmi: það er framför, að Seðlabanka Íslands skuli loksins hafa verið veitt stjórnskipulegt sjálfstæði gagnvart ríkisvaldinu. Það á þó eftir að koma í ljós, hvort þessi formbreyting tryggir bankanum aukið sjálfstæði í reynd. Tveir af þrem bankastjórum Seðlabankans voru þar til nýlega fyrrverandi stjórnmálamenn og komnir inn í bankann á þeim forsendum og öðrum ekki; annar þeirra að vísu er nýhættur, og hæfur bankamaður hefur verið settur í hans stað um stundarsakir og bíður þess væntanlega, að einhver flokksmaður verði skipaður í stöðuna til frambúðar. Sjálfstæður seðlabanki þarf á annars konar forustu að halda. Ég hélt þessu sjónarmiði fram árið 1993 í samræmi við þær áherzlur, sem þá voru að ryðja sér til rúms í bankamálum nálægra landa, en það var þá eins og að stökkva vatni á gæs. Þegar mannaskipti urðu í bankastjórninni, snerist umræðan öll um það, hvaða stjórnmálamaður ætti að ,,hreppa hnossið” eins og sumir orðuðu það án þess að blikna. Reyndar hefur það gerzt ekki sjaldnar en tvisvar síðan þá, að ráðherrann, sem fer með veitingarvaldið, skipar sjálfan sig í stöðu seðlabankastjóra eða því sem næst. Það er eiginlega komin hefð á það.

Faðir þinn Gylfi Þ. Gíslason er hámenntaður hagfræðingur sem kenndi lengi við mennta- og háskóla landsins og skrifaði margar bækur um viðskipta- og hagfræðileg efni, hann var um langt skeið bæði menntamála- og viðskiptaráðherra, ásamt því að vera formaður Alþýðuflokksins frá 1968 til 1974 og hefur þannig haft gífurleg áhrif á þróun menntamála og viðskiptalífsins á Íslandi. Að hve miklu leyti hefur hann haft áhrif á feril þinn sem hagfræðingur og hugmyndafræðingur?

Um það verða aðrir að dæma. Eitt er víst: hann hefur aldrei reynt að hafa áhrif á skoðanir mínar. Hitt er jafnvíst, að við höfum talað mikið saman um dagana og erum enn að – og þá ekki aðeins um hagfræði og stjórnmál, heldur bókstaflega um allt milli himins og jarðar. Okkur hefur alla tíð lynt ákaflega vel, og hugðarefnum okkar hefur svipað mjög saman. Ég hlaut að vísu uppeldi mitt sem hagfræðingur á Bretlandi og í Bandaríkjunum, hann er þýzkmenntaður. Ég hef haldið mig víðs fjarri vettvangi stjórnmálanna, hann var stjórnmálamaður drjúgan hluta starfsævinnar. Af þessu kann að hafa leitt svolítið ólíkar áherzlur, en upplagið er áþekkt, þykist ég vita. Hugmyndir mínar um réttlæti og ranglæti hef ég frá foreldrum mínum báðum, býst ég við, og foreldrum þeirra. Afar mínir skiptu sér báðir af stjórnmálum: annar var skáld og ritstjóri og samherji Hannesar Hafstein og skrifaði mikið um stjórnmál og margt annað, en hætti stjórnmálaafskiptum skömmu eftir að núverandi flokkaskipan var sett á laggirnar; hinn var læknir og sat á þingi í nokkur ár fyrir Alþýðuflokkinn.

Ég var kominn á fertugsaldur og hafði starfað erlendis í nær áratug, þegar ég flutti heim til Íslands árið 1983, eins og ég sagði áðan, og þá urðum við faðir minn starfsbræður í viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, en þá deild byggði hann upp frá grunni á sínum tíma ásamt Ólafi Björnssyni. Fáeinum árum eftir heimkomu mína hætti Gylfi í Háskólanum fyrir aldurs sakir, svo að samstarfsár okkar þar urðu ekki mörg.

Eftir að þú laukst doktorsprófi við Princetonháskólann árið 1976 þá starfaðir þú um fimm ára skeið sem hagfræðingur við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í Washington. Hvað lærðir þú af þeirri vist?

Þetta voru góð ár og ákaflega lærdómsrík. Það var af ráðnum hug, að ég gerðist embættismaður hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að loknu námi og ekki háskólakennari, af því að mig langaði til að afla mér fjölbreyttrar reynslu af hagstjórn: mig langaði að dýfa hendinni í kalt vatn og kynnast heiminum. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn var og er enn að minni hyggju einn bezti og skemmtilegasti skóli, sem hægt er að hugsa sér í þessu skyni, einmitt vegna þess, að viðfangsefnin þar eru svo fjölbreytt. Ég starfaði í þeirri deild Sjóðsins, sem var þá og er enn taugamiðja starfseminnar og aflstöð, og ég var á ferð og flugi þessi ár um allar álfur heimsins með sendinefndum að semja um lán og leggja á ráðin um hagstjórn, enda þótt mér gæfist einnig tóm til eigin rannsókna. Ég lærði mikið, að mér fannst, af mér eldri og reyndari mönnum. Gjaldeyrissjóðurinn er feiknarlega skemmtilegur og líflegur vinnustaður, af því að starfsliðið er svo fjölbreytt og flinkt og hefur auk þess frá svo mörgu að segja víðs vegar að.

Kynni mín af vandamálum fátækra þjóða hófust á þessum árum og kveiktu áhuga minn á efnahagsumbótum í fátækraríkjum þriðja heimsins – áhuga, sem hefur enzt mér fram á þennan dag og markað rannsóknir mínar í auknum mæli síðustu ár. Reyndar hef ég haldið áfram að vinna svolítið með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, bæði að rannsóknum og þjálfun embættismanna í aðildarríkjum Sjóðsins. Hefði ég hafið störf í háskóla strax að loknu námi, þá hefði rannsóknaráhugi minn og val viðfangsefna ef til vill beinzt í aðrar áttir. Ég þóttist sjá þetta fyrir og ákvað því strax á menntaskólaárunum fyrir 1970 að hafa þennan háttinn á: að afla mér hagnýtrar hagstjórnarreynslu að loknu námi, helzt í Sjóðnum, og leita mér síðan að háskólastarfi – og þetta gekk eftir. Þegar ég hafði starfað í Sjóðnum í tvö ár, fékk ég óvænt boð frá Alþjóðahagfræðistofnuninni við Stokkhólmsháskóla um að koma þangað gestur til rannsóknastarfa. Ég hafði aldrei verið á Norðurlöndum að neinu gagni og tók boðinu fagnandi, fékk síðan tilboð um að hverfa þangað nokkru síðar í fullt starf við rannsóknir og þekktist það boð, því að mér fannst ég þá hafa verið nógu lengi í Sjóðnum og Washington. Ég var á leiðinni heim: ég ætlaði ekki að verða Íslendingur í útlöndum.

Sjóðurinn hefur sætt mikilli gagnrýni síðustu ár: fyrst fyrir að halda að sér höndum í Rússlandi eftir hrun kommúnismans þar 1991 og síðan fyrir of mikla afskiptasemi í kjölfar fjármálakreppunnar í Austur-Asíu 1997-1998, en þá var Sjóðurinn sakaður um að gefa ráð, sem reyndust illa. Og nú er Sjóðurinn enn í eldlínunni vegna kreppunnar í Argentínu. Ég tel, að þessi gagnrýni sé að ýmsu leyti misráðin og ósanngjörn. Vandinn í Argentínu stafar sumpart af úreltri stjórnarskrá, sem torveldar skynsamlega hagstjórn með því að veita einstökum ríkisstjórum um landið leyfi til að prenta peninga og kynda þannig undir verðbólgu: þessi stjórnarskrá er arfur frá þeim tíma, þegar höfuðborgin Buenos Aires var óralangt frá ýmsum byggðum landsins vegna lélegra samgangna. Dugleysi stjórnmálastéttarinnar bætir ekki úr skák. Þegar núverandi forseti Argentínu tók við embætti fyrir ári, sagði hann opinberlega: ,,Stjórnmálaforusta landsins er sjitt (hans orð, ekki mitt; stafsetningin er samkvæmt nýju íslenzku orðabókinni), og ég tel sjálfan mig með.” Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er sem betur fer ekki þeim vopnum búinn, að hann geti reist Argentínu við undir slíkum kringumstæðum. Veik lýðræðishefð í landinu á trúlega talsverðan þátt í því, að svo illa fór að þessu sinni; vonandi tekst þeim að rétta úr kútnum.

Hvaða fræðimenn, hvort sem innlendir eða útlendir, hafa haft mest áhrif á þig sem hagfræðingur í gegnum tíðina? Af hverju?

Ég hef, að svo miklu leyti sem ég get um það dæmt sjálfur, mótazt fremur af viðfangsefnum mínum, ferðalögum og lestri bóka en af þeim mönnum, sem ég hef lært af eða unnið með. Þeir eru samt ófáir: fyrir utan þá, sem hafa kennt mér eða starfað með mér gegnum tíðina, hef ég til þessa skrifað ritgerðir og bækur með einum sextán meðhöfundum frá tíu þjóðlöndum auk tveggja Íslendinga, fyrrum nemenda minna, þeirra Gylfa Zoëga, sem er nýorðinn prófessor í viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, og Tryggva Þórs Herbertssonar, forstöðumanns Hagfræðistofnunar Háskólans. Ég hef haft mikið gagn og gaman af samstarfinu við alla þessa menn.

Mest er skuld mín þó, að ég hygg, við John Maynard Keynes, sem áður var nefndur og ég kynntist að sjálfsögðu aðeins af lestri og afspurn. Hann var hagfræðingur, höfundur nútímaþjóðhagfræði eins og við þekkjum hana og mjög að mínu skapi: fjölhæfur, fjöllyndur, knúinn áfram af óslökkvandi umbótaástríðu og ríkri réttlætiskennd – og ritsnillingur að auki. Aðdáun mín á honum er sömu ættar og aðdáun mín á Jóni Sigurðssyni forseta, Einari Benediktssyni og Halldóri Kiljan Laxness, sem ég spyrti reyndar saman í lítilli bók og sjónvarpsþáttaröð um hagstjórnarhugmyndasögu Íslands fyrir nokkrum árum. Það er sorglegt til þess að hugsa, að Keynes dó í miðju dagsverki rétt rösklega sextugur að aldri; slíkir menn þyrftu helzt að endast í hundrað ár.

Ég hef einnig með árunum lært að meta þá menn, sem Keynes stóð á öxlunum á: einkum Adam Smith og Alfred Marshall. Smith var heimspekingur í Glasgow og gerði hagfræði að sjálfstæðu viðfangsefni og fræðigrein. Rit hans eru hafsjór af frumlegum og skemmtilegum hugmyndum – og ferðasögum manns, sem fór næstum aldrei að heiman, heldur ferðaðist í huganum með því að hlusta á sögur annarra frá fjarlægum löndum. Marshall var kennari Keynes í Cambridge á Englandi og er rétt nefndur faðir rekstrarhagfræðinnar. Hann skrifaði kennslubók, sem margar kynslóðir hagfræðinga lásu sér til gagns og yndisauka og lesa enn, bók, sem er gersamlega sneisafull af fágaðri snilld.

Að öðrum mönnum ólöstuðum hefur sænski hagfræðingurinn Assar Lindbeck ef til vill haft meiri áhrif á mig en aðrir samverkamenn mínir. Hann er helzti núlifandi hagfræðingur Svíþjóðar og var einn nánasti samstarfsmaður minn um margra ára skeið. Við birtum einar sex ritgerðir í sameiningu, einkum um verklýðsfélög og vinnumarkaðsmál. Hann er óvenjulega fjölhæfur maður, jafnvígur á almannafræðslu, fræðastörf og ráðgjöf og byggði auk þess upp glæsilega rannsóknastofnun við Stokkhólmsháskóla og stýrði henni með stakri prýði í aldarfjórðung. Hann heldur málsverkasýningar í tómstundum og samdi meira að segja og frumflutti klarínettukonsert í Luleå, sem ég nefndi áðan, árið 1948. Assar er nú kominn á áttræðisaldur, en er þó enn í fullu fjöri, skrifar og skrifar. Hann gefst ekki upp fyrr en fulla hnefana.

Manstu eftir einhverjum vendipunktum í lífi þínu, sögu Íslands eða heimssögunni sem breyttu skoðunum þínum eða áherslum?

Ég hef lifað umhleypingalausu lífi: engir vendipunktar þar, ekki það sem af er. Ég hef prýðilegan aðbúnað í Háskóla Íslands og á góða vinnufélaga og vini þar og einnig erlendis og bý auk þess við frábært atlæti heima hjá mér, konan mín er stoð mín og stytta og veitir mér þann vinnufrið, sem ég tel mig þurfa á að halda. Saga Íslands hefur með líku lagi verið frekar vendipunktasnauð, síðan ég komst til vits og ára: ekkert þar hefur hróflað verulega við mér. Heimssagan er annar handleggur: þar er líf í tuskunum. Og þar gnæfir einn atburður yfir alla aðra á síðari helmingi 20. aldar: hrun kommúnismans. Þessi atburður olli straumhvörfum í heimi mörg hundruð milljóna manna – og einnig í heimi hagfræðinga, eins og nærri má geta. Ég var einn þeirra, sem drógust inn í þá hringiðu, sem þarna myndaðist. Ég hef haft brennandi áhuga á Rússlandi og Austur-Evrópu allar götur síðan á námsárum mínum í Manchester; mér rann til rifja, hvernig einræðisstjórnir kommúnista lögðu líf tveggja kynslóða í rúst í Mið- og Austur-Evrópu, þriggja kynslóða í Sovétríkjunum. Enginn hagfræðingur gat staðið ósnortinn frammi fyrir svo miklum atburðum. Ég skrifaði þess vegna ásamt tveim félögum mínum bók, eina fyrstu bók sinnar tegundar, og var ætlað að veita almennum lesendum í fyrrum kommúnistaríkjum innsýn í markaðsbúskap. Ég hef einnig skrifað nokkrar ritgerðir um vanda umskiptalandanna og farið nokkuð víða um þessi lönd. Mér fundust vandamál Austur-Evrópulandanna fyrir og eftir umskiptin bregða gagnlegri birtu á ýmsa bresti efnahagslífsins hér heima, þegar ég kynntist Austur-Evrópu af eigin raun. Þetta kom mér samt ekki á óvart: landlæg markaðsfirring á mörgum sviðum hér heima og miðstýringin fyrir austan tjald voru angar á sama meiði. Guðmundur Ólafsson starfsbróðir minn í Háskólanum settist um sama leyti niður við annan mann og samdi drög að ,,500 daga áætlun” um innleiðingu markaðsbúskapar á Íslandi og skemmti sér og öðrum konunglega; ég man, að þeim í ríkisstjórninni var ekki skemmt. Þetta austur-evrópska millispil hefur verið ákaflega fróðlegt og skemmtilegt.

Á síðustu vikum hefur ríkisstjórnin selt hlut sinn í bæði Landsbankanum og Búnaðarbankanum til kjölfjárfesta og má því segja að frelsið í bankakerfinu hafi aukist til muna. Umbætur á þessum markaði hafa engu að síður tekið rúman áratug en eins og Jón Sigurðsson sagði í viðtali við Vísbendingu á síðasta ári þá stóð Sjálfstæðisflokkurinn í vegi fyrir slíkum umbótum í upphafi tíunda áratugarins. Að hvað miklu leyti hafa tímasetningar haft áhrif á þróun markaðarins og hvaða áhrif getur aukið frelsi komið til með að hafa á íslenskt viðskiptalíf?

Lýsing Jóns Sigurðssonar á Sjálfstæðisflokknum kemur mér ekki á óvart. Einkavæðing viðskiptabankanna tók of langan tíma. Það var ekki uppörvandi að fylgjast með hraðri einkavæðingu gömlu ríkisbankanna í Austur-Evrópu í návígi allan síðasta áratug og horfa um leið upp á hægaganginn hér heima. Viðkvæðið var og er: ,,Við förum fetið.” Þetta er reyndar tilvitnun í einn ráðherrann, sem var að lýsa silalegu vinnulagi ríkisstjórnarinnar í öðru máli. Það er dýrt að fara fetið, þegar heimurinn allur er á fleygiferð.

Ríkið hefur ekki reynzt vera hagsýnn bankaeigandi á Íslandi. Stjórnmálaflokkarnir hafa þvert á móti misnotað bankakerfið miskunnarlaust í eigin þágu og umbjóðenda sinna frá fyrstu tíð; þá sögu þyrfti einhver góður sagnfræðingur að gefa sér tóm til að skrásetja, svo að öllum upplýsingum sé til haga haldið handa framtíðinni. En nú sér loksins fyrir endann á veldi stjórnmálaflokkanna í bankakerfinu: það er gott. Það er að vísu ekki algild regla, að viðskiptabönkum sé bezt borgið í einkaeign, en það hefur að minni hyggju kveðið svo rammt að óhagkvæmninni í bankarekstri hér heima, svo sem ráða má til dæmis af miklum mun útláns- og innlánsvaxta, að brýna nauðsyn bar til þess að minni hyggju að rjúfa tengsl bankanna við stjórnmálaflokkana og selja bankana í hendur einkaaðila. Vænlegast væri að fá erlenda aðila inn í reksturinn til að styrkja innviði bankanna hér heima og tryggja sjálfstæði þeirra gagnvart ríkisvaldinu og sérhagsmunahópum; það verður vonandi næsta skref.

Þú hefur um langan tíma verið talsmaður auðlindagjalds í sjávarútveginum og ennfremur bent á að íslenskt atvinnulíf sé meira en einungis sjávarútvegur. Sjávarútvegurinn er mjög vernduð atvinnugrein og það hefur t.d. komið fram í umræðunni um aðild Íslands að Evrópusambandinu að íslenskur sjávarútvegur leikur þar lykilhlutverk, Davíð Oddsson sagði að með því að flytja lögsögu Íslendinga yfir fiskimiðunum til Brussel þá værum við að gefa frá okkur efnahagslegt sjálfstæði okkar. Að hvað miklu leyti hefur sjávarútvegurinn haft áhrif á efnahagsmál á Íslandi og hversu réttmætt er það?

Útvegurinn hefur alla tíð notið ríkisverndar eins og landbúnaðurinn, bæði leynt og ljóst. Fyrir viðreisn var útvegurinn beinlínis á ríkisframfæri. Ríkisútgjöld til útvegsins voru þá skorin niður úr 43% af ríkisútgjöldum í heild í 3% á aðeins tveim árum, svo sem sjá má í Hagskinnu. Fénu, sem losnaði, var varið til menntamála, heilbrigðismála, tryggingamála – og landbúnaðarmála! Gengi krónunnar var fellt til mótvægis, svo að útvegurinn héldi velli. Eftir þetta var gengið fellt nánast eftir smekk og þörfum útgerðarinnar, svo að hún þurfti ekki að hafa miklar fjárhagsáhyggjur upp frá því, enda átti hún einnig greiðan aðgang að niðurgreiddu lánsfé í bönkum og sjóðum. Þessi skipan kynti undir hirðuleysi í rekstri, verðbólgu og skuldasöfnun í útlöndum. Síðar hættu menn að fella gengi krónunnar eftir pöntun og byrjuðu að draga úr nær sjálfvirkum lánveitingum banka og sjóða til sjávarútvegsfyrirtækja, en þetta gerðist þó ekki fyrr en eftir að kvótakerfinu hafði verið komið á, það var 1984. Síðan hefur útvegurinn verið styrktur með ókeypis afhendingu veiðiheimilda, sem hafa meðal annars gert ýmsum fyrirtækjum kleift að komast hjá gjaldþroti, standa skil á skuldum sínum við bankana og fara sér hægt í hagræðingu. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) skilgreinir ókeypis afhendingu aflaheimilda sem styrk til sjávarútvegs, eins og vera ber.

Kvótakerfið hefur flýtt fyrir hagræðingu í útvegi miðað við þá skipan, sem fyrir var, frjálsar veiðar, á því er enginn vafi. Kvótakerfið hefur á hinn bóginn tafið og torveldað hagræðinguna miðað við þann árangur, sem hefði getað náðst með vel útfærðu veiðigjaldi. Ástæðan er einföld og alþekkt: ríkisstyrkir draga þrótt úr atvinnurekstri. Hitt er þó alveg rétt, að ríkisforsjá af þessu tagi teflir völdum og áhrifum í hendur þeirra, sem hennar njóta. Ég tel, að samtök útvegsmanna hafi ekki farið vel með þetta vald. Þau bera höfuðábyrgð á því, hversu nauðsynlegar umbætur á fiskveiðistjórninni og umræður um aðild Íslands að Evrópusambandinu hafa dregizt á langinn. Það er eftirtektarvert, að önnur samtök atvinnulífsins og verzlunarinnar skuli láta bjóða sér þetta fokk langtímum saman. Ísland er eina landið í Evrópu, þar sem samtök atvinnulífsins og samtök verzlunarinnar þegja þunnu hljóði um Evrópumál. Þessi einfalda staðreynd vitnar að minni hyggju um það, að ekki hefur enn tekizt að losa nógsamlega um þau nánu tengsl á milli atvinnulífs og stjórnmála, sem voru löngum eitt helzta kennimark – mér liggur við að segja brennimark – íslenzks atvinnulífs: fyrirtækin hunza hagsmuni eigenda sinna og viðskiptavina án þess að blikna til þess eins að stugga ekki við stjórnmálahagsmunum. Þessi samtök reyna ekki einu sinni að breiða yfir þessi nánu tengsl, heldur beinlínis flagga þeim, svo sem sjá má á ársþingum þeirra, þar sem aðalræðumenn eru oftast ráðherrar. Samtök iðnaðarins hafa lofsverða sérstöðu í þessum hópi: þar er allt eins og það á að vera, enda starfa þau með sama hætti og atvinnuvegasamtök í öðrum löndum.

Forsagan er reyndar fróðleg. Sjávarútvegur átti undir högg að sækja, þegar hann var að ryðja sér til rúms við hlið landbúnaðar, því að talsmenn landbúnaðarins litu í fyrstu á útveginn sem ógnun við hefðbundið, þjóðlegt atvinnulíf í sveitum og sveitamenningu. Sjávarþorpin og fólkið, sem settist þar að, máttu sæta linnulausum árásum af hálfu talsmanna landbúnaðarins. Eigi að síður tókst mönnum með elju að gera sjávarútveg að mikilvægum atvinnuvegi, og útvegsmenn tóku sér síðan stöðu við hlið bænda. Þegar iðnaður byrjaði að ryðja sér til rúms, þá endurtók sagan sig: þeir atvinnulífsfrömuðir, sem fyrir voru, sáu ýmis tormerki á iðnvæðingunni. Þessum augum ættum við ef til vill að skoða andstöðu Ólafs Thors, framkvæmdastjóra Kveldúlfs um aldarfjórðungsskeið og síðar forsætisráðherra, gegn fossavirkjunar- og iðnvæðingaráformum Einars Benediktssonar á sínum tíma. Ólafur hefur sennilega litið iðnaðinn sömu augum og Jónas Jónsson frá Hriflu leit sjávarútveginn: sem ógnun við ríkjandi ástand í atvinnuháttum. Það lifði lengi í þessum glæðum: þeir, sem stunduðu iðnað og verzlun, þurftu á sínum tíma að stofna eigin banka, Iðnaðarbankann og Verzlunarbankann, sem runnu síðar inn í Íslandsbanka, af því að landbúnaður og sjávarútvegur gengu fyrir í ríkisbönkunum þrem. Það eimir ennþá eftir af þessum upphöfnu viðhorfum til forgangsatvinnuveganna, enda þótt hlutdeild sjávarútvegsins í landsframleiðslu sé komin niður í 10% og hlutdeild hans í útflutningstekjum sé komin niður í 40% – og bæði hlutföllin munu halda áfram að lækka á komandi árum.

Erlendar skuldir þjóðarbúsins voru 959 milljarðar í júní síðastliðnum skv. Seðlabankanum og hafa lækkað lítillega á þessu ári  en hreinar erlendar skuldir eru nú um 98% af vergri landsframleiðslu. Hreinar skuldir hins opinbera hafa lækkað mikið á síðustu árum, úr 39% af VLF í 23%, en skuldir fyrirtækja og heimila eru í sögulegu hámarki. Fyrrum kollegar þínir í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum vöruðu á síðasta ári við bankakrísu en þessi skuldasúpa hefur þó hingað til haft tiltölulega lítil áhrif. Hvaða áhrif getur skuldastaðan haft á efnahagsmál hér á landi næstu misserin?

Það hefði að mínu viti verið hyggilegra að nota uppsveifluna í efnahagslífinu 1996-2000, að svo miklu leyti sem hún var ekki knúin áfram af erlendum lántökum, til að grynnka á erlendum skuldum og búast til að standa straum af stóriðjuframkvæmdum með innlendu lánsfé frekar en erlendu. Skuldabyrðin hefur þyngzt gríðarlega síðustu ár, enda hafa erlendar langtímaskuldir þjóðarbúsins nær tvöfaldazt síðan 1996 og eru nú komnar upp í næstum 100% af landsframleiðslu. Við vörðum árið 1997 fimmtungi útflutningsteknanna í vaxtagreiðslur og afborganir af erlendum lánum. Í fyrra, 2001, námu vaxtagreiðslur og afborganir nærri helmingi útflutningsteknanna. Í fyrra var því ekki hægt að nota nema helminginn af útflutningstekjum til að greiða fyrir innflutta vöru og þjónustu. Byrðin getur átt eftir að þyngjast, ef vextir hækka á heimsmarkaði. Það á eftir að koma í ljós, hvort öllu þessu lánsfé hefur verið svo vel varið, að skuldunautarnir geti með góðu móti borið svo þunga skuldabyrði til lengdar.

Svo mikill og þrálátur viðskiptahalli og meðfylgjandi skuldasöfnun eru samt ekki einsdæmi innan OECD. Erlendar skuldir Ný-Sjálendinga fóru upp fyrir 100% af landsframleiðslu þeirra 1999. Segja má, að þeir hafi fjármagnað róttækar umbætur á efnahagslífi sínu eftir 1984 sumpart með erlendum lánum. Þrátt fyrir allar umbæturnar árar samt ekkert sérlega vel á Nýja-Sjálandi núna. Sumir láta sér detta í hug, að þung skuldabyrði hamli hagvextinum þarna suður frá; það þarfnast nánari skoðunar. Danir höfðu annan hátt á. Þeir voru komnir miklu skemmra á skuldasöfnunarbrautinni en við Íslendingar erum nú, þegar þeir ventu sínu kvæði í kross og sneru halla í afgang til að grynnka verulega á erlendum skuldum sínum eftir 1985. Kóreumenn fóru að eins og Danir. Varkárnin gafst báðum þjóðum vel.

Í lok árs 2000 var viðskiptahallinn kominn í 68 milljarða sem leiddi m.a. til þess að krónan féll hratt. Þú skrifaðir grein í Vísbendingu í mars árið 2001sem vakti mikla athygli, en þá hafði gengi krónunnar lækkað um 20% gagnvart Bandaríkjadollar, þar sem þú hélst því fram, þvert á skoðun flestra, að íslenska krónan ætti enn eftir að lækka mikið, sem varð svo raunin. Nú hafa aðstæður breyst mikið, viðskiptajöfnuðurinn fer hverfandi, verðbólgan hefur lækkað hratt og krónan hefur styrkst mikið á þessu ári. Hvað gerðist á þessu tímabili og hver er staðan núna?

Ég er enn þeirrar skoðunar, að gengi krónunnar sé of hátt skráð eins og sakir standa og eigi því eftir að lækka. Gengislækkunin mikla 2001 var ekki skot yfir markið frá mínum bæjardyrum séð, heldur tímabundið daður gengisins við raunhæft langtímajafnvægi. Um þetta er að vísu ekki hægt að fullyrða neitt með óyggjandi vissu: það er ekki hlaupið að því að reikna ,,rétt” jafnvægisgengi til frambúðar, því að gengisþróun er háð alls kyns óvissu bæði til skamms og langs tíma litið. Kjarni þessa máls í mínum huga er sá, að þeir þættir, sem valda hágengisvandanum og ég lýsti í greininni í marz 2001, eru enn til staðar. Vandinn er kerfislægur: hann liggur í innviðum hagkerfisins – og þá er ég enn að tala um (a) þetta séríslenzka afbrigði hollenzku veikinnar, sem birtist í langvarandi stöðnun útflutnings og er einsdæmi í iðnríkjunum; (b) áframhaldandi skuldasöfnun í útlöndum; (c) verðbólgu, sem rýkur upp annað veifið; (d) skakka innviði af völdum rótgróinnar ofverndarstefnu til sjós og lands; og (e) allt of miklar erlendar skammtímaskuldir og of rýran gjaldeyrisforða.

Einhver teikn á lofti eru um að Evrópumálin geti orðið að kosningamáli hér á landi á næsta ári en þar leikur gjaldeyrisumræðan stórt hlutverk. Krónusinnar sem áttu undir högg að sækja þegar krónan féll í frjálsu falli 2000-2001 hafa hljómað sannfærandi þegar þeir hafa bent á að krónan hafi virkað býsna vel sem ventill á hagkerfið og stöðugleikanum hafi verið náð á ný. Þá hafa þeir haldið fram að sveiflur íslenska hagkerfisins séu allt aðrar en efnahagssveiflur á meginlandinu sem ætti að þýða að evran gæti skaðað meira en hjálpað við „íslenskar aðstæður“. Við slíkar aðstæður eiga evrusinnar erfitt með að sannfæra fólk um að evran muni þjóna Íslendingum betur en krónan. Hver telur þú að lendingin ætti að verða í þessu máli?

Ég er þeirrar skoðunar, að Ísland eigi heima í Evrópusambandinu. Ég er með þessu að lýsa stjórnmálaskoðun, ég dreg enga dul á það. Hugmyndin um heilaga sérstöðu Íslands í samfélagi þjóðanna virðist mér vera sprottin af óraunsærri fortíðarfíkn, sem á takmarkað erindi við nútímann. Til þess að hafa fullt gagn af aðild að Sambandinu þurfum við, sýnist mér, að taka upp evruna eins og flestar aðildarþjóðirnar hafa gert, allar nema Bretar, Danir og Svíar. Svíar kvarta sumir undan því, að það sé ekki hlustað nóg á þá í Brussel, og bera því við, að aðrar sambandsþjóðir muni halda áfram að líta á þá sem annars flokks þátttakendur í Evrópusamstarfinu svo lengi sem þeir leggja ekki í að taka upp evruna. Finnar þurfa ekki að kvarta undan þessu.

Spurningin um evruna verður því ekki útkljáð með hagrænum rökum einum saman, eins og ég sagði áðan. Því fylgja bæði kostir og gallar að leggja niður krónuna og taka upp evruna, og öll heimsins hagfræði getur ekki úr því skorið í eitt skipti fyrir öll, hvort er hagkvæmara, að halda krónunni eða taka upp evruna. Sumir segja, að hagsveiflan hafi aðra tíðni hér en á meginlandinu. Það kann að vera rétt, en þá þarf einnig að hyggja að því, að sveiflugangur efnahagslífsins fer eftir aðstæðum: innganga okkar í Evrópusambandið myndi auka viðskipti milli Íslands og Evrópu, svo að hagsveiflurnar hér myndu þá trúlega semja sig smám saman að hagsveiflunum þar.

Evrópusambandið er friðarbandalag. Það fer því ekki vel á því að minni hyggju að spyrja eingöngu að því, hvað aðild myndi kosta og hverju hún myndi skila. Slíkra spurninga var ekki spurt, að minnsta kosti ekki upphátt, þegar okkur bauðst að ganga í Atlantshafsbandalagið á sínum tíma. Mér finnst, að við Íslendingar ættum að ganga glaðir til samstarfs við aðrar Evrópuþjóðir á vettvangi Evrópusambandsins, ekki aðeins til þess að hagnast á því, heldur einnig til að reyna að láta gott af okkur leiða. Það á stundum við í samskiptum þjóða, að sælla er að gefa en þiggja. Það er okkur ekki til mikils sóma, að við munum verða víðs fjarri, þegar Austur-Evrópuþjóðirnar ganga inn í Evrópusambandið eftir nokkur misseri og innsigla með því móti endurkomu sína í hóp evrópskra lýðræðis- og markaðsbúskaparþjóða. Við hefðum átt að vera í móttökunefndinni.

Stóriðjumál hafa verið mikið í umræðunni síðustu ár og nú bendir flest til þess að mikill vöxtur muni verða í þessum geira hér á landi á næstu árum. Þeir sem hafa verið fylgjandi þessum framkvæmdum hafa talað um margföldunaráhrif fyrir íslenskt atvinnulíf en efasemdarmenn hafa m.a. bent á ruðningsáhrif sem munu veikja en ekki styrkja aðrar atvinnugreinar. Á aðra höndina virðist þetta vera nákvæmlega það sem læknirinn myndi fyrirskipa veikum sjúklingi til að komast á fætur en hins vegar virðist þetta ýta undir króníska sjúkdóma landa sem leggja hald og traust sitt við náttúruauðlindir. Hver er þín sjúkdómsgreining og læknisráðgjöf?

Ég hefði verið hlynntur virkjunaráformum Einars Benediktssonar, hefði ég verið uppi um hans daga. Ég var einnig hlynntur virkjunarframkvæmdum viðreisnaráranna, enda þótt þær hæfust að minni hyggju 40 árum of seint eða þar um bil. Nú eru enn önnur 40 ár liðin, og mér finnst eðlilegt að líta svo á, að tími virkjana og orkufreks iðnaðar sé liðinn í okkar heimshluta. Suma hluti gera menn annaðhvort á réttum tíma – í samræmi við kall og kröfur tímans – eða láta þá eiga sig. Við hlupum yfir járnbrautarlagningu um Suðurland og norður yfir heiðar, þegar hún var tímabær, og engum dettur í hug að reyna að bæta skaðann nú, ef það var þá skaðlegt að hlaupa yfir þennan áfanga í iðnþróun landsins, með því að leggja járnbrautir á okkar dögum: það er einfaldlega of seint.

Með líku lagi tel ég, að nú sé of seint í rassinn gripið í orkumálunum: það eru of mikil áhöld um hagkvæmnina, og nútíminn gerir aðrar og meiri kröfur í umhverfismálum en gert var fyrir hálfri öld. Auk þess er Landsvirkjun öðrum þræði pólitískt fyrirtæki nú orðið, og þá er ég ekki aðeins að tala um yfirstjórn fyrirtækisins, heldur einnig yfirbragð framkvæmdastjórnarinnar. Það er nú orðið þannig, að menn hafa ástæðu til að velta því fyrir sér, hvort Landsvirkjun sé í aðra röndina orðin að framlengdum armi byggðastefnunnar með svipuðum hætti og ríkisbankarnir hafa löngum verið og ýmis ríkisfyrirtæki. Reynslan varðar veginn: þegar fyrirhuguðum virkjunarframkvæmdum er lýst sem mesta hagsmunamáli tiltekins byggðarlags um margra áratuga skeið, þá ættu skattgreiðendur – og orkunotendur! – að grípa um veskið sitt.

Vandinn hér er sá, sýnist mér, að við höfum vanrækt menntamál. Ef við hefðum hugsað meira um menntun fólksins í landinu, þá stæðum við ekki í þessum sporum nú: þá væri landsbyggðin nú full af fyrirtækjum, þar sem góður og vel menntaður vinnukraftur með góð laun væri í óðaönn að búa til hugbúnað handa heimsbyggðinni og þess háttar. Þá þyrftu byggðarlögin ekki að bíða eftir bjargráðum að sunnan: jarðgöngum hér, virkjunum þar og þannig áfram. Við þurfum að hætta að einblína á göng og vegi, virkjanir og brýr sem allra meina bót á landsbyggðinni. Mér finnst við ættum heldur að keppa að því að efla menntun fólksins sem allra mest, og þá kemur fjölbreytt og öflugt atvinnulíf af sjálfu sér. Það er bezta byggðastefnan.

Sennilega hafa fáir talað eins fyrir mikilvægi menntunar fyrir íslenskt þjóðfélag eins og þú á undanförnum árum. Samkvæmt mati The World Economic Forum á samkeppnishæfni þjóða þá virðist það draga Ísland hlutfallslega niður að hlutfall nemanda í menntun á æðstu stigum skuli ekki vera hærra. Hver er staðan nú í menntamálum hér á landi, er þörf til að bæta úr og hvað er þá hægt að gera?

Menntun borgar sig. Hún borgar sig jafnan fyrir hvern og einn, því að hún eykur starfsánægju og afköst og þá um leið tekjur manna og tækifæri á lífsleiðinni. Afrakstur menntunar hefur aukizt verulega með árunum, ef bandarískar hagtölur eru hafðar til marks. Fyrir 20 árum hafði vinnandi fólk með háskólapróf þar vestra rösklega helmingi hærri laun að jafnaði en þeir, sem luku framhaldsskólaprófi og létu þar við sitja. Nú hafa háskólamenntaðir starfsmenn í Bandaríkjunum meira en tvisvar sinnum hærri laun en hinir að jafnaði. Þessi launamunur sendir skýr skilaboð til ungs fólks. Menntun borgar sig einnig fyrir samfélagið í heild, því að menntun eins eykur hag annars: hver og einn er jafnan betur settur í samfélagi, þar sem menntun er almenn, mikil, fjölbreytt og góð.

Fyrirferðarmiklum ríkisbúskap í menntamálum fylgja samt ýmsir alvarlegir ókostir eins og gengur og gerist um ríkisafskipti. Höfuðvandinn sýnist mér vera sá, að umfang menntamálanna hefur vaxið almannavaldinu yfir höfuð og kallað á miðstýringu, sem bitnar á fjölbreytni í skólastarfi. Miðstýring er svifasein: það hefur til að mynda dregizt of lengi að lækka stúdentsprófsaldur til að stytta nemendum leið í gegnum framhaldsskólana, það hefði átt að vera búið að gera það fyrir löngu. Miðstýring stendur með líku lagi í vegi fyrir frjórri og heilbrigðri samkeppni – til dæmis um kennara og nemendur, það er um starfslið og viðskiptavini – samkeppni, sem hefur reynzt gjöful og gagnleg á flestum öðrum sviðum efnahagslífsins. Menntakerfið er eins og heilbrigðiskerfið: það er snar þáttur þjóðlífsins og þarf því að lúta sömu meginlögmálum markaðsbúskapar og samfélagið að öðru leyti til að tryggja bæði mikla og góða menntun og heilbrigðisþjónustu. Misheppnuð miðstýring bitnar bæði á magni og gæðum þjónustunnar.

Fólk er ólíkt, og því hentar að sama skapi fjölbreytt menntun. Það er því ekki vænlegt að reyna að steypa alla nemendur í sama mót. Hitt er líklegra til árangurs að reyna að koma til móts við ólíkar þarfir og óskir nemenda með því að bjóða þeim margar og margvíslegar námsleiðir. Mikið brottfall úr framhaldsskólum stafar meðal annars af námsleiða: margir nemendur hafa ekki fundið námsbrautir, sem henta þeim. Aðrir bera það ekki einu sinni við að byrja í framhaldsskóla, af því að þeir finna engar námsleiðir, sem höfða til þeirra.

Misheppnuð miðstýring bitnar á fjölbreytni í menntakerfinu. Stuðningur ríkis og byggða við menntakerfið þýðir ekki endilega, að almannavaldið þurfi að eiga og reka skólana, svo sem nú er algengast. Ríki og sveitarfélög geta eflt menntun með öðru móti, til dæmis með því að styrkja einkaskóla eða með því að styrkja nemendur beint og leyfa þeim að velja sér námsleiðir á eigin spýtur. Rekstur skóla myndi þá að einhverju leyti færast smám saman frá almannavaldinu yfir í einkageirann, svo sem hefur raunar gerzt í auknum mæli undangengin ár, en ríkið sæi eftir sem áður um rammann, til dæmis með því að halda úti öflugu gæðaeftirliti og þess háttar. Þetta er almenna reglan í okkar þjóðfélagi: einkafyrirtæki sjá um reksturinn, ríkið sér um rammann. Jafnframt þyrfti að gæta þess vandlega í ljósi reynslunnar frá öðrum löndum að virða sérstöðu og mikilvægi almennrar menntunar í þjóðfélaginu og vernda hana fyrir til að mynda trúarofstæki og óprúttnum eiginhagsmunasjónarmiðum án þess þó að skerða trúfrelsi og einkafrelsi.

Myndi fjölskrúðugri menntun leiða til aukins ójafnaðar í skiptingu auðs og tekna? Það þarf ekki að vera. Jafnrétti í menntamálum er bezt borgið með því að tryggja öllum jafnan aðgang að menntun og með því að reyna að gera öllum kleift að afla sér mestu og beztu menntunar, sem hugur þeirra stendur til. Það liggur í hlutarins eðli, að sumir nýta sér menntunarfærin betur en aðrir. En svarið við því er ekki að reyna að halda aftur af þeim, sem vilja afla sér mikillar og góðrar menntunar, heldur þvert á móti að reyna að leita leiða til að lyfta hinum – og einnig þar hefur almannavaldið mikilvægu hlutverki að gegna. Meiri, fjölbreyttari og betri menntun handa sem allra flestum stuðlar yfirleitt að auknum jöfnuði í þjóðfélaginu og þá um leið að aukinni samheldni og hagsæld til langs tíma litið.

Það hefur verið mjög athyglivert að fylgjast með hagfræðiumræðunni undanfarin misserin. Arfleifð Keynes hefur ýmist verið tekin sem leiðarljósið eða villukenningar, austurrísku hagfræðingarnir, þá aðallega Hayek og kannski Schumpeter, hafa fengið uppreisn æru og nóbelsverðlaunin í hagfræði síðustu ár hafa verið gefin fyrir rannsóknir sem eru á jaðrinum að vera hagfræði eins og leikjafræði og tilraunahagfræði. Enn sem áður skipa hagfræðingar sér í fylkingar og virðast varla sammála um nokkurn skapaðan hlut. Hvar stendur hagfræði sem fræðigrein núna og hver er líkleg framþróun hennar?

Hagfræði stendur vel sem fræðigrein og greiningartæki; ég fer ekki ofan af því. Hún ber af öðrum félagsvísindum að því leyti, að hún hefur í miklu ríkari mæli en þau tekið tölfræði og stærðfræði í þjónustu sína. Aðrir félagsvísindamenn hafa auðvitað tekið eftir þessu og freista þess nú að feta svipaða slóð, einkum stjórnmálafræðingar. Hitt er rétt, að hagfræðingum gengur misvel að halda mörgum kylfum á lofti í einu og halda hagfræði aðgreindri frá einkaskoðunum sínum.

Tökum síðar nefnda atriðið fyrst. Mér er minnisstætt samtal, sem ég átti við einn bandarískan kunningja minn úr hagfræðingastétt yfir kvöldverði fyrir allmörgum árum, við vorum bara þrjú saman, og hann er raunar einn kunnasti hagfræðingur Bandaríkjanna og heimsins. Sagan skýrir, hvers vegna ég ætla ekki að nefna hann á nafn. Hann sagði okkur í óspurðum fréttum, að hann gæti ekki undir nokkrum kringumstæðum komizt að þeirri niðurstöðu í rannsóknum sínum, að ríkisvaldið gæti látið gott af sér leiða. Ég lagði frá mér hnífapörin og spurði hann á móti, hvað honum fyndist um greinarmuninn, sem Milton Friedman brýndi fyrir hagfræðingum, að gera þyrfti á staðreyndahagfræði og stefnuhagfræði. Staðreyndahagfræði fjallar um hlutina eins og þeir eru, og þá skipta skoðanir rannsóknarans engu máli, ekki frekar en í eðlisfræði eða líffræði, á meðan stefnuhagfræði fjallar um hlutina eins og þeir ættu að vera, og þar fer ýmislegt eftir einkaskoðunum. Hálfrar aldar gömul lýsing Friedmans á muninum á þessu tvennu er að réttu lagi höfð í hávegum meðal hagfræðinga enn þann dag í dag. Nema viðmælandi minn sagði, að hann kærði sig kollóttan (,,Who cares?!”), svo að mér fannst öruggast að skipta um umræðuefni. Mér hefur fundizt hugmyndafræðileg óbilgirni af þessu tagi færast í vöxt í Bandaríkjunum síðustu ár – sömu ár og stjórnmálaflokkarnir tveir í landinu, Demókratar og Repúblikanar, hafa tekizt á af meiri hörku en oftast áður í hundrað ár. Það er ekki til þess fallið að vekja traust almennings á hagfræði og hagfræðingum, að aukið sundurlyndi meðal þeirra í ýmsum málum skuli bera upp á sama tíma og tvídrægni stjórnmálaflokkanna hefur keyrt um þverbak. Það kveður ekki eins rammt að þessari sundurþykkju í Evrópu sem betur fer.

Þegar þeir skiptust á að skrifa dálka í NewsweekPaul Samuelson, fyrsti bandaríski Nóbelsverðlaunahafinn í hagfræði, og Milton Friedman, sem einnig fékk Nóbelsverðlaun nokkrum árum síðar, þá virtu þeir þessi landamæri stefnu og staðreynda, sem enginn hafði átt meiri þátt í að kortleggja en einmitt Friedman. Og þeir virtu sjónarmið hvor annars, þótt þeir væru iðulega á öndverðum meiði, stundum vegna þess að þeir túlkuðu hagtölur og reynslurök hvor með sínum hætti  og stundum af stjórnmálaástæðum. Gagnkvæm virðing meðal hagfræðinga í Bandaríkjunum, höfuðstöðvum hagfræðinnar á okkar dögum, hefur verið á undanhaldi, eða svo hefur mér sýnzt, og það er óheppilegt.

Hinn vandinn, sem ég nefndi, er einstrengingur: sumir hagfræðingar virðast eiga erfitt með að hafa tvær skoðanir í einu, þeir eru að því er virðist að leita að einni réttri skoðun. Þessi rétttrúnaðarárátta kann að standa í sambandi við þá auknu hörku, sem hefur færzt í stjórnmálabaráttuna í Bandaríkjunum undangengin ár og einnig sums staðar annars staðar, til dæmis á Bretlandi. Þessi þróun virðist hafa hafizt á valdatíma Ronalds Reagan og Margrétar Thatcher. Nú höfðu þau bæði ýmislegt sér til ágætis að minni hyggju, en þau virðast hafa laðað að flokkum sínum ýmsa illskeytta öfgamenn, eins og til dæmis heittrúarmennina, sem hafa í auknum mæli sett svip sinn á Repúblikanaflokkinn í Bandaríkjunum síðustu ár. Þörf ýmissa svo nefndra hægri manna fyrir að mistúlka eða jafnvel sverta Keynes – hann, sem átti flestum öðrum mönnum meiri þátt í því að bjarga markaðsbúskap undan hugmyndafræðilegu áhlaupi kommúnista í Evrópu árin fyrir heimsstyrjöldina síðari – er angi á þessum meiði. Ég held þó, að ofstækismenn muni varla ríða feitum hesti frá þessum sviptingum. Nú er svo komið fyrir brezka Íhaldsflokknum, sem hefur verið höfuðvígi þessa harðskeytta einstrengings þar í landi, að meiri hluti Breta veit ekki, hvað leiðtogi flokksins heitir.

Hvaða hagfræðilegu vandamál er brýnast að leysa á komandi árum fyrir heimsbyggðina og af hverju?

Eitt skiptir meira máli en næstum allt annað eftir mínu höfði, og það er ör hagvöxtur um heiminn í skjóli skynsamlegrar hagstjórnar og góðs hagskipulags. Höfuðvandi heimsins er þrúgandi fátækt og fáfræði. Þetta á auðvitað í fyrsta lagi við um fátækraríki þriðja heimsins, en einnig að nokkru leyti um allsnægtaþjóðfélögin í okkar heimshluta. Ör hagvöxtur, góð hagstjórn og gott hagskipulag – það er heilbrigður markaðsbúskapur – eru eina færa leiðin út úr vandanum, en hagvöxtur er samt engin allsherjarlausn, engin allra meina bót, því að örum vexti þarf að fylgja sanngjörn skipting ávaxtanna milli þjóðfélagsþegnanna. Misskipting getur sundrað samfélagsfriðnum og spillt hagvextinum með því móti.

Það hefur orðið bylting í hagvaxtarfræðum síðast liðin 15-20 ár. Fram að þeim tíma litu hagvaxtarfræðingar yfirleitt svo á, að hagvöxtur sprytti fyrst og fremst af tækniframförum. Þessi hugmynd var reist á glæsilegri kenningu, sem Robert Solow var að verðleikum sæmdur Nóbelsverðlaunum fyrir á sínum tíma, og hún rann eins og rauður þráður í gegnum alla hagvaxtarfræði í heilan mannsaldur fram undir 1990. Um það leyti kom það á daginn, að menn höfðu túlkað gömlu hagvaxtarfræði Solows of þröngt, og þá rann það upp fyrir hagfræðingum, að hægt væri að túlka gömlu kenninguna með öðrum hætti og fella að nýrri og víðfeðmari kenningum um hagvöxt. Niðurstaðan varð sú, þegar öllu var á botninn hvolft, að hagræðing – það er aukin hagkvæmni í hvaða mynd sem er – geti ekki síður en tækniframfarir knúið hagvöxtinn áfram yfir löng tímabil. Þetta var bylting eins og þær gerast beztar í vísindum. Þetta sjónarhorn gerir mönnum kleift að leysa hagvöxtinn úr viðjum tækninnar og byggja brýr til ýmissa átta, til dæmis til að skoða og skýra sambandið á milli hagstjórnar og hagvaxtar, því að efnahagsumbætur, sem auka hagkvæmni í búskap þjóðanna, koma í sama stað niður og tækniframfarir og örva því hagvöxtinn. Þessum augum lítur nýja hagvaxtarfræðin einnig sambandið á milli hagvaxtar og erlendra viðskipta, verðbólgu, einkavæðingar, menntunar, náttúruauðlinda og atvinnuleysis, svo að nokkur dæmi séu nefnd. Það er hægt að lýsa höfuðinntaki nýju hagvaxtarfræðinnar með einni setningu: Allt, sem eykur hagkvæmni, eykur einnig hagvöxt til langs tíma litið. Þetta vissu menn ekki fyrir. Og þó: það er ekki alveg rétt, því að Adam Smith skildi þetta og einnig Alfred Marshall, sem ég nefndi líka fyrr í þessu spjalli – þeim dugði dómgreindin og innsæið til að átta sig á því útreikningalaust, að þannig hlaut þetta að vera. Og þannig er það.

Nú hefur þú kennt hagfræði um langt skeið og kannski fylgst með „uppvexti“ ungra fræðimanna í hagfræði hér á landi. Hvernig líst þér á þá nýju kynslóð hagfræðinga sem sífellt lætur meira til sín taka hér á landi? Hefur þú einhver ráð til að gefa þeim?

Ég hef fylgzt með þeim, já, og mér lízt mjög vel á þá. Það væri lítið varið í að vinna í háskóla, ef hann hefði ekki góðum nemendum á að skipa. Háskóli er jafngóður og stúdentarnir, sem stunda þar nám. Ísland á heimsmet í hagfræðidoktorum miðað við mannfjölda: þeir eru nú orðnir 50 frá öndverðu, og allir nema átta eru enn á lífi. Langflestir þeirra hafa starfað að einhverju eða öllu leyti hér heima. Helmingurinn af þessum 50 varði doktorsritgerð sína eftir 1985 og fjórðungurinn eftir 1995, svo að fjöldi Íslendinga með doktorspróf í hagfræði og viðskiptafræðum verður með sama áframhaldi kominn upp fyrir 100 innan kannski 15-20 ára. Og þá eru ótaldir allir meistararnir og þeir, sem hafa lokið fyrsta háskólaprófi í hagfræði og viðskiptafræðum hér heima eða í útlöndum. Þetta er fríður flokkur. Þessi hópur hefur verk að vinna: hann á vonandi eftir að leiða hagfræði til öndvegis í námsefni framhaldsskólanna, bæta blöðin og aðra fjölmiðla, búa til bíómyndir (því ekki það?), stjórna fyrirtækjum og bönkum – og landinu; sem sagt, næstum allt nema gifta og grafa. Við erum þessi misserin að stíga fyrstu skrefin í doktorsþjálfun í viðskipta- og hagfræðideild Háskólans. Ég er til dæmis með einn doktorsnema á mínum snærum; hún heitir Helga Kristjánsdóttir og er að skrifa ritgerð um millilandaviðskipti og erlenda fjárfestingu í ljósi nýrra kenninga um mannauð og landfræðilegu og vinnur verkið jöfnum höndum hér heima og erlendis.

Að lokum, hver ættu að vera mikilvægustu verkefnin í efnahagsstjórnun landsins næstu tíu árin og hvaða árangri er hægt að ná?

Skömmu fyrir síðustu alþingiskosningar 1999 lýsti ég þeirri skoðun í Vísbendingu, að nýrrar ríkisstjórnar biðu þrjú brýn verk í efnahags- og utanríkismálum: hún þyrfti að leggja inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu, hefja innheimtu veiðigjalds og koma ríkisbönkunum í einkaeign. Hvað hefur gerzt? Utanríkisráðherra hefur skipt um skoðun í Evrópumálinu og virðist nú líklegur til að beita sér fyrir umsókn um aðild á næsta kjörtímabili. Það lofar góðu. Báðir stjórnarflokkarnir eru búnir að setja veiðigjald á stefnuskrá sína og leiða í landslög, þótt við eigum enn eftir að þjarka svolítið um verðið. Og ríkisstjórnin er einnig búin að taka stórt skref í átt að einkavæðingu ríkisbankanna. Þetta kalla ég nokkuð gott, þótt við séum ekki enn komin á leiðarenda. Við sjáum til lands.

Mikilvægasta verkefnið næstu árin er að minni hyggju að halda áfram á þeirri braut, sem búið er að marka: reyna að rétta og styrkja innviði hagkerfisins og auka hagkvæmni og samkeppni á ýmsum sviðum til að treysta hagvöxtinn til langs tíma litið. Aukin viðskipti við útlönd eru einn lykillinn að batnandi lífkjörum í litlu landi – og lífsnauðsynleg í ljósi þeirra erlendu skulda, sem þjóðin er búin að steypa sér í. Það er ekki sízt í þessu skyni nauðsynlegt að koma fiskveiðistjórninni í varanlegt horf með vel útfærðu veiðigjaldi, sem myndi auk annars auðvelda okkur inngöngu í Evrópusambandið, því að við gætum boðið öðrum aðildarþjóðum aðgang að uppboðsmarkaði fyrir aflakvóta og sloppið þannig undan óskum þeirra eftir aðgangi að fiskimiðunum. Við þurfum einnig að gera róttækar skipulagsbreytingar – umbera meiri markaðsbúskap! – í menntamálum og heilbrigðismálum til að tryggja nægt fé til þessara mikilvægu málaflokka. Mannauðurinn er dýrmætasta auðlind hvers lands. Þess vegna gegna menntun, menning og heilbrigði lykilhlutverki í efnahagslífinu.

Eyþór Ívar Jónsson spurði, ég svaraði.