8. júl, 2005

Innflutningsvernd og náttúruauðlindir

Mynd 23. Hollenzka veikin tekur sem sagt á sig margar myndir: hún hneigist til að draga úr útflutningi ekki aðeins á vörum og þjónustu, heldur einnig á fjármagni (sjá mynd 22). Ein ástæða til þess, að útflutningur fjármagns (þ.e. hlutabréfa) og meðfylgjandi innstreymi framkvæmdafjár verður fyrir barðinu á veikinni, er sú, að rentusóknarar og ýmsir aðrir óttast erlenda samkeppni: þeir óttast eignarhald útlendinga á innlendum fyrirtækjum og annað í þeim dúr, þótt þeim finnist yfirleitt sjálfsagt, að þeim sjálfum sé gert kleift að eignast hlut í erlendum fyrirtækjum.  Er þá ekki við því að búast, að sömu aðilar reyni að fá stjórnvöld til að reisa skorður við innflutningi á vörum og þjónustu? Myndin að ofan bregður birtu á þetta. Hún sýnir meðaltoll á innflutning árin 1975-1996 á lóðrétta ásnum og náttúruauð (sjá mynd 19) á lárétta ásnum. Meðaltollurinn er þokkalegur mælikvarði á viðskiptahöft, þótt hann nái ekki yfir ýmsar óbeinar viðskiptahindranir. Hvað um það, löndin í úrtakinu eru 84. Halli aðfallslínunnar sýnir, að aukning náttúruauðs um 4% af þjóðarauði frá einum stað til annars helzt í hendur við hækkun tolla um 1% af innflutningi. Fylgnin er marktæk. Ísland er ekki með á myndinni, ekki frekar en á myndum 19 til 22, því að náttúruauðstölur vantar fyrir Ísland, en meðaltollurinn hér heima á tímabilinu var 12,5%. Árið 1992 var meðaltollurinn hér heima ennþá 11%, en hann hefur lækkað verulega síðan þá og var aðeins 1,5% árið 1996. Sams konar lækkun tolla átti sér stað mun fyrr í nálægum löndum. Sjá meira um þetta í ritgerðunum Náttúra, vald og vöxtur og Náttúruauðlindir, útflutningur og Evrópa.