8. júl, 2005

Hversu opið er Ísland fyrir erlendum viðskiptum?

Mynd 53. Litlum löndum ríður á því að eiga sem mest viðskipti við umheiminn til að bæta sér upp óhagræðið, sem hlýzt af smæð hagkerfisins heima fyrir. Lítill heimamarkaður kemur í veg fyrir, að hægt sé að framleiða á heimavelli alla þá vöru og þjónustu, sem heimafólk þarf á að halda. Þess vegna eiga lítil (þ.e. fámenn) lönd yfirleitt meiri viðskipti við umheiminn en stór (þ.e. fjölmenn) lönd. Bandaríkin, Japan, Brasilía og Indland flytja tiltölulega lítið út og inn af vörum og þjónustu, því að heimamarkaður hvers og eins er svo stór. Innanlandsviðskipti í stórum löndum koma í stað millilandaviðskipta. Þó eru þessi stóru lönd að opnast smám saman fyrir auknum viðskiptum við önnur lönd, því að auknum viðskiptum út á við sem inn á við fylgja allajafna aukin hagkvæmni og örari hagvöxtur til langs tíma litið. Hagurinn af frjálsum viðskiptum við útlönd sprettur ekki aðeins af verkaskiptingu milli landa og meðfylgjandi sérhæfingu, heldur einnig af því, að viðskiptafrelsi út á við dregur úr einokunar- og fákeppnistilhneigingum á heimamarkaði og eykur almannahag aukreitis með því móti. Hvað um Norðurlönd? Summa útflutnings og innflutnings í hlutfalli við verga landsframleiðslu á kaupmáttarkvarða er algeng opingáttarvísitala, þ.e. mælikvarði á það, hversu opið hagkerfið er gagnvart útlöndum. Myndin sýnir viðskiptahlutfallið á Norðurlöndunum fimm árið 1998. Viðskiptahlutfallið var hæst í Svíþjóð (84%) og lægst á Íslandi (61%) í þessum hópi. Viðskiptahlutfall Íslands ætti að vera langhæst í hópnum smæðar landsins vegna, en svo er þó ekki. Sama ár var viðskiptahlutfallið 134% á Írlandi, sem er eitt opnasta hagkerfi álfunnar. Til frekari samanburðar var viðskiptahlutfallið 20% á Bandaríkjunum, 21% í Japan, 10% í Brasilíu og aðeins 4% á Indlandi. Sjá meira um málið í greininni Að opna lönd.