Hversu mikið skuldum við í útlöndum?
Mynd 12. Erlendar skuldir þjóðarinnar hafa aukizt mjög síðan 1997 vegna mikils halla á viðskiptum við útlönd flest árin (sjá mynd 11). Heildarskuldirnar hafa rokið upp í áður óþekktar hæðir og námu nífaldri landsframleiðslu í árslok 2008 (sjá mynd 83 og samanburð við önnur lönd á mynd 30). Langtímaskuldirnar, sem sýndar eru að ofan, þ.e. heildarskuldir að frádregnum skammtímaskuldum, hafa einnig haldið áfram að hækka og námu rösklega 600% af landsframleiðslu í árslok 2008. Það hefði við eðlilegar aðstæður verið hyggilegra að nota uppsveifluna í efnahagslífinu síðustu ár til að grynnka á erlendum skuldum og standa straum af stóriðjuframkvæmdum með innlendu lánsfé frekar en erlendu, en aðstæður voru ekki aö öllu leyti eðlilegar, þar eð erlent lánsfé hefur verið miklum mun ódýrara en innlent lánsfé. (Við þetta bætti ég þessum texta löngu fyrir hrun: Hér er að vísu ekki allt sem sýnist, því að væntanlegt gengisfall krónunnar getur átt eftir að jafna vaxtakjörin heima og erlendis, þar eð vaxtamunurinn endurspeglar þá gengisaðlögun, sem vænzt er á gjaldeyrismarkaði. Nú ríður mjög á því sem fyrr, að fjárfestingin, sem verið er að nota lánsféð til að fjármagna, beri myndarlegan arð, því að ella mun skuldabyrðin íþyngja þjóðinni verulega, þegar frá líður. Útreikningar hagfræðinga utan stjórnkerfisins virðast þó benda til þess, að umtalsverður vafi leiki á hagkvæmni virkjunarframkvæmdanna við Kárahnjúka, enda þótt engar bætur komi fyrir umhverfisspjöll. Leyndin, sem hvílir yfir arðsemisreikningum Landsvirkjunar, bendir til sömu ályktunar. Það hefði einnig þurft að treysta hagstjórnina í stað þess að halda áfram að troða lúnum stjórnmálamönnum, sem brestur faglegar forsendur til hagstjórnarstarfa, bakdyramegin inn í bankastjórn Seðlabankans. Þvílíkt háttalag er nær óþekkt í nálægum löndum.)