Háskóli Íslands
16. nóv, 2002

Hvers virði er tunga, sem týnist?

Hvers vegna er heimurinn ekki allur eitt land? – með einn fána, einn forseta, einn menntamálaráðherra, eina mynt og þar fram eftir götunum. Þessi spurning er ekki alveg eins fráleit í öllum greinum og ýmsum kynni að virðast við fyrstu sýn. Ýmsir málsmetandi menn hafa hvatt til þess, að öll lönd heimsins sameinist um eina mynt af fjárhagsástæðum. Einn helzti höfundur hugmyndarinnar um eina mynt handa öllum þjóðum heims var sæmdur Nóbelsverðlaunum í hagfræði fyrir fáeinum árum. Evrópuþjóðirnar hafa ákveðið að fækka myntum álfunnar til muna: grisjunin felst í því, að evran leysir einstakar þjóðmyntir af hólmi, svo að þess er hugsanlega ekki langt að bíða, að hún verði eini eftirlifandi gjaldmiðillinn í gervallri Evrópu alla leið austur að landamærum Rússlands.

Svo hvers vegna er heimurinn þá ekki allur eitt land? Hvers vegna er Evrópa ekki eitt land? Það stafar af því, að fólk er ólíkt – sem betur fer. Fólk hefur ólíkar hugmyndir, óskir og þarfir. Þess vegna eru lönd heimsins mörg og misstór. Krafan um batnandi lífskjör í skjóli hagkvæms stórrekstrar knýr að sínu leyti á um sameiningu og samruna. Það er eðlilegt svo langt sem það nær. En sækjast sér um líkir, segir máltækið. Eftirsókn eftir samneyti við sitt eigið fólk – fólk, sem býr að sömu menningu og sögu og talar sömu tungu – stendur gegn kröfunni um stórrekstur í búskap þjóðanna. Það er ekki hagfellt að hafa löndin of stór og fá, því að stór lönd byggir yfirleitt sundurleitt fólk, og mikilli fjölbreytni getur fylgt sundurþykkja og staðið velferð fólksins og framþróun fyrir þrifum. Smáríkjum getur með öðrum orðum vegnað vel, ef smæðinni fylgir dágóð sátt og samheldni. Reynslan sýnir, að smáríki hafa í gegnum tíðina ekki náð síðri árangri í efnahagsmálum en stórríki, þegar öllu er á botninn hvolft.

Það er hægt að orða þessa hugsun aðeins öðruvísi með því að segja, að miðsókn og miðflótti takist á. Miðsóknaraflið togar lönd og þjóðir í átt að frekara samstarfi og sameiningu og stuðlar með því móti að fækkun þjóðlanda af fjárhagsástæðum. Miðflóttaaflið hneigist á hinn bóginn til að skipta löndum upp í smærri einingar og stuðlar þannig að fjölgun landa, einnig af fjárhagsástæðum. Miðsóknaraflið hafði yfirhöndina á 19. öld, að minnsta kosti í Evrópu. Þá varð Ítalía að einu þjóðríki við sameiningu nokkurra smáríkja, það var árið 1861, og Þýzkaland fylgdi í kjölfarið nokkru síðar. Ýmsum þótti það þá vera fráleit skipan, að Belgía og Portúgal væru sjálfstæð ríki: þessi lönd voru talin vera of lítil til þess að geta staðið á eigin fótum. Á 20. öld snerist taflið við: þá náði miðflóttaaflið yfirhöndinni í krafti aukinna millilandaviðskipta, og sér ekki enn fyrir endann á þeirri þróun, svo sem ég mun koma að aftur á eftir.

Það er að sönnu ekki algild regla, að stór lönd byggi sundurleitt fólk: Japanar eru nærri 130 milljónir, og þeir eru svo að segja allir eins. Það er ekki heldur einhlítt, að sundurleit stórríki hljóti að klofna fyrr eða síðar vegna sundurþykkju: Bandaríkin eru órækur vottur þess. Og það er ekki heldur algild regla, að smáþjóðir séu einsleitar eins og við Íslendingar: ég nefni Kýpur og Máritíus til dæmis um fámennar eyþjóðir, þar sem ólíkir kynþættir búa saman og efnahagurinn hefur blómstrað, enda þótt á ýmsu hafi gengið þar um samkomulag meðal ólíkra þjóðfélagshópa. Hitt er þó algengast um heiminn, að sundurleitni landsfólksins – og þá einnig fjöldi tungumála – fari eftir mannfjölda.

Smáþjóðum heimsins hefur vaxið fiskur um hrygg undangengin ár í skjóli síaukinna milliríkjaviðskipta. Ef erlendum viðskiptum væri ekki til að dreifa, þá væru smáríki að ýmsu leyti óhagkvæm smæðarinnar vegna. Þá þætti mörgum þeirra trúlega nauðsyn bera til að sameinast stærri ríkjum af efnahagsástæðum. Mikil og vaxandi millilandaviðskipti leysa smáþjóðirnar af þessum klafa: þau gera fámennum þjóðum kleift að færa sér hagkvæmni stærðarinnar í nyt með viðskiptum við önnur lönd. Þannig kaupum við Íslendingar utan úr heimi margt af því, sem við þurfum mest á að halda og við gætum ekki séð okkur fyrir sjálfir nema með ærnum tilkostnaði, við sækjum okkur menntun til útlanda í stórum stíl og þannig áfram. Sjálfsþurftarbúskapur er ávísun á ófremd og fátækt.

Millilandaviðskipti eiga mikinn þátt í því, hversu sjálfstæðum smáríkjum hefur fjölgað með tímanum. Þegar fyrri heimsstyrjöldin brauzt út árið 1914, voru sjálfstæð ríki 62 að tölu í heiminum öllum. Eftir lok heimsstyrjaldarinnar síðari 1946 voru þjóðríkin orðin 74. Síðan hefur fjöldi þeirra þrefaldazt: nú eru sjálfstæð ríki rösklega 200 um heiminn. Endalok nýlendustefnunnar ýttu undir þessa þróun: í Afríku einni fjölgaði sjálfstæðum ríkjum um 25 árin 1960 til 1964. Skipbrot kommúnismans um og eftir 1990 fjölgaði Evrópuríkjum með líku lagi um helming, úr 32 í 48. Meðalstærð ríkja mæld í fólksfjölda, sem er algengasti mælikvarðinn á stærð ríkja, hefur einnig minnkað, úr 32 milljónum árið 1946 í 29 milljónir nú (19 milljónir, ef Indland og Kína eru ekki talin með). Þessi tala er fundin með því að deila með fjölda landa í fólksfjölda heimsins alls. Það er einnig hægt að mæla meðalstærð ríkja með annarri aðferð, sem bregður ef til vill skýrari birtu á viðfangsefnið. Smáríkjum hefur fjölgað svo mjög, að helmingur ríkja heimsins hefur nú langt innan við sex milljónir íbúa. Danmörk með rösklega fimm milljónir manns er á þennan mælikvarða nálægt meðalstærð á heimsvísu.

Frívæðing efnahagslífsins um heimsins breiðu byggð undangengna áratugi hefur styrkt smáþjóðir í sessi – fjölgað þeim og ýtt undir þær á ýmsa lund. Heimurinn er nú fjölskrúðugri en nokkru sinni fyrr. Mér virðist það liggja í hlutarins eðli, að smáþjóðir ættu þá að réttu lagi að nota aukinn styrk sinn inn á við og einnig á alþjóðavettvangi til að rækta sögu sína, menningu og tungu. Ég er ekki að lýsa eftir þjóðrembu af neinu tagi, alls ekki, hennar tími er liðinn, heldur aðeins eftir heilbrigðri og hógværri rækt við sérkenni smáþjóða og samkenni.

Það er að vísu rétt, að fyrrverandi nýlenduþjóðir hafa margar kosið að gera tungu nýlenduherranna að ríkismáli. Ég hef safnað upplýsingum um 60 fámennustu ríki heims og einu betur, öll lönd með 1,3 milljónir íbúa eða færri, til að kanna, hvernig þjóðtungunum hefur reitt af. Athugum fyrst þau eyríki, þar sem íbúafjöldinn er á bilinu 100.000 til 1,3 milljónir manns. Þessi eylönd er 26 að tölu. Fimmtán þessara ríkja eru mannfærri en Ísland, tíu eru mannfleiri. Í þessum 26 landa hópi er enska ríkismálið í 14 löndum og mál annarra fyrrum nýlenduherra – Frakka, Hollendinga og Portúgala – í öðrum sjö, svo að einungis fimm þessara þjóða hafa kosið að nota eigin þjóðtungu sem ríkismál. Þessi fimm lönd eru, auk Íslands, Barein í Persaflóa, þar er töluð arabíska, þótt enska sé einnig gjaldgeng; Kýpur, þar sem menn tala ýmist grísku eða tyrknesku; Maldiveyjar í Indlandshafi, þar sem menn tala eigin tungu, þótt eyjarnar hafi áður lotið brezkum yfirráðum um langt skeið; og loks Míkrónesía í Suður-Kyrrahafi, þar sem menn tala ýmis eymál.

Athugum nú önnur ríki svipaðrar stærðar – lönd, sem eru ekki eylönd, heldur áföst við grannríki eða landlukt. Þessi lönd eru 17 talsins og dreifð um allar álfur. Þrettán þessara ríkja nota tungu gömlu nýlenduherranna sem ríkismál, sum ásamt eigin tungu, en fjögur nota eigin þjóðtungur nær eingöngu: Lúxemborg, þar sem franska, þýzka og ríkismálið, sem er þýzk mállýzka, standa hlið við hlið; Katar við Persaflóa, þar sem töluð er arabíska; Djíbútí við Rauðahaf nálægt norðausturhorni Afríku, þar tala menn eigið mál; og það gera menn einnig í Bútan í Himalæjafjöllum.

Svipað kemur í ljós, þegar við skoðum loks 18 örríki, eylönd eða áföst, þar sem fólksfjöldinn er innan við 100.000. Ellefu þessara landa hafa tekið upp nýlendumál, en sjö þeirra notast við þjóðtunguna, sem í fimm þessara sjö landa er að vísu einnig tunga stórþjóða á næstu grösum. Þessi sjö lönd eru öll í Evrópu: Andorra, Færeyjar, Grænland, Liechtenstein, Mónakó, Mön og San Marínó. Það er álitamál, hversu fara skal með Færeyjar og einkum Grænland, því að þar er danska notuð sem ríkismál við hlið færeysku og grænlenzku. Á því leikur hins vegar lítill vafi, að Færeyingar myndu ýta dönskunni til hliðar, ef þeir afréðu að rifta sambandinu við Dani og stofnuðu sjálfstætt ríki.

Þetta örstutta yfirlit um rösklega 60 fámennustu ríki veraldar kann að kveikja hugboð um það, að þjóðtungur heimsins séu á undanhaldi líkt og þjóðmyntirnar og einnig ýmsar dýrategundir og jurta í ríki náttúrunnar: að smáþjóðir freistist af fjárhagsástæðum meðal annars til að taka upp tungur stærri þjóða til að greiða með því móti fyrir viðskiptum – og kasta þá móðurmálinu fyrir róða. Svo kann að vera. Við skulum samt ekki hrapa umhugsunarlaust að þeirri ályktun, að meiri hluti þessara rösklega 60 ríkja – 45 ríki af 61 – hafi týnt tungu sinni, því að móðurmálið lifir eftir sem áður á vörum fólksins í mörgum þessara landa, enda þótt ríkismálið sé aðfengið. Auk þess getur aðflutt ríkismál reynzt vera lyftistöng undir bókmenntir, menningu og listir. Miklar bókmenntir á enska tungu hafa sprottið upp undangengin ár í gömlum nýlendum Breta, til dæmis á Indlandi og Karíbahafseyjum. Enskan, sem ýmsir Indverjar læra af bókum, þykir mér iðulega betri en sú enska, sem margir Bretar nema af munni mæðra sinna.

Því hefur stundum verið haldið fram í ræðu og riti, að íslenzkan sé okkur dýr, Íslendingum, þar eð hún standi í vegi fyrir viðskiptum okkar við umheiminn. Kostnaðartölurnar, sem nefndar hafa verið til sögunnar í þessu viðfangi, mætti skilja sem svo, að íslenzk tunga sé í krónum talið nokkurn veginn jafnþung á fóðrum og landbúnaðurinn.* Ég lít málið öðrum augum.

Tökum þjóðmyntirnar fyrst, svo að ekkert fari á milli mála. Gjaldmiðill skipar yfirleitt ekki verðmætan sess í minningu þjóðar. Myntin er dautt áhald eins og rokkur eða skilvinda eða grammófónn: okkur er eða ætti að minnsta kosti ekki að vera nein sérstök eftirsjá í myntinni, ef við eigum kost á að láta hana víkja fyrir öðrum áhöldum, öðrum gjaldmiðlum, sem skila okkur betri árangri í dagsins önn. Myntin má því mín vegna fara sömu leið og rokkurinn og skilvindan og grammófónninn: undir gler.

Það er að sönnu hægt að tefla fram ýmsum haldbærum rökum ýmist með eða á móti því, að við Íslendingar, Norðmenn, Danir, Svíar, Bretar og Svisslendingar tökum upp evruna í stað núverandi þjóðmynta. Það er þó að minni hyggju ekki hægt að útkljá það mál með hagrænum rökum einum saman, því að fleira hangir á spýtunni. Spurningin um aðild að Evrópusambandinu og einnig um upptöku evrunnar í stað einstakra þjóðmynta er öðrum þræði spurning um stjórnmál. Evrópusambandið er í fyrsta lagi friðarbandalag, og spurningin, sem við Íslendingar stöndum nú frammi fyrir ásamt Norðmönnum og Svisslendingum, snýst um það, hvort við teljum okkur eiga heima í þeim félagsskap og hvort við eigum, ef við ákveðum að ganga til liðs við sambandsþjóðirnar, að gerast fullgildir þátttakendur í samstarfinu með því að taka einnig upp evruna. Hér fer því ekki vel á því að minni hyggju að spyrja eingöngu að því, hvað aðildin myndi kosta og hverju hún myndi skila.

Tökum tunguna næst. Og tökum Írland. Það hvarflar ekki að mér að gera lítið úr því hagræði, sem frændur okkar Írar hafa af því að tala ensku, enda þótt írska sé þjóðtunga þeirra samkvæmt stjórnarskrá landsins og frumtunga – fremri ensku, sem er annað ríkismál þjóðarinnar. Írska var töluð víða um Írland fram á fimmta áratug 19. aldar, þegar kartöflubresturinn og hungrið mikla og fólksflóttinn, sem fylgdi í kjölfarið, hjuggu djúp skörð í írskt þjóðlíf. Eftir það vék írskan smám saman fyrir ensku og rambaði á barmi útrýmingar allt fram til ársins 1922, þegar Írland hlaut sjálfstæði frá Bretum og írskukennsla var tekin upp í öllum skólum landsins meðfram enskukennslu. Írska er nú enn á ný höfð í hávegum í heimalandi sínu: hana lesa nú, tala og skilja fleiri Írar en nokkru sinni fyrr síðan sjálfstæðisárið 1922. Írar eiga miklar bókmenntir á báðum tungum sínum, langt umfram það, sem búast mætti við af svo fámennri þjóð. Tvítyngi írskra bókmennta hefur blásið þeim byr undir báða vængi. Víxlfrjóvgun getur verið gjöful í bókmenntum og menningu þjóðanna ekki síður en víða annars staðar. Eigi að síður er engum blöðum um það að fletta, að írska hefur lotið í lægra haldi fyrir ensku á Írlandi.

Það getur ekki heitið, að enskan hafi komið Írum að miklu haldi í efnahagslegu tilliti lengi framan af 20. öldinni, því að Írland var löngum eitt ferlegasta fátæktarbæli álfunnar. Þetta breyttist sem betur fer, og þar munaði ef til vill ekki minnst um það, að Írar gengu í Evrópusambandið fyrir nær 30 árum. Eftir það urðu gagnger umskipti í írsku efnahagslífi í krafti stóraukinna viðskipta við önnur Evrópulönd og umheiminn, svo að Írar búa nú að jafnaði við betri lífskjör en Bretar og halda áfram að auka forskotið. Hefði þeim tekizt þetta síður, hefðu þeir látið enskuna víkja fyrir írsku með valdboði eftir sjálfstæðistökuna 1922? Það getur enginn vitað með vissu.

Rannsóknir hagfræðinga, sem glíma við að kortleggja hagvöxt um heiminn og helztu uppsprettur hans, benda að svo stöddu ekki til þess, að enskumælandi þjóðir hafi náð meiri hagvexti en aðrar þjóðir að öðru jöfnu. Mér sýnist, að á þessu geti verið einföld og eiginlega sjálfsögð skýring. Menn þurfa helzt að yrkja á eigin þjóðtungu, rétt er það, því að fáum er gefið sama vald á erlendum málum og móðurmálinu. Menn þurfa á hinn bóginn ekki endilega að stunda viðskipti við umheiminn á eigin þjóðtungu, því að í viðskiptum eru eðlilega gerðar aðrar málfarskröfur en í bókmenntum. Íslendingum og öðrum smáþjóðum er það í lófa lagið að læra ensku nógu vel til þess að geta stundað öll heimsins viðskipti með góðum árangri án þess að vanrækja móðurmálið. Hér er komið að kjarna málsins, þykist ég vita: rækt við móðurmálið og árangur í viðskiptum þurfa ekki að rekast á. Þetta eru falskar andstæður. Styrkur smáþjóða felst þvert á móti meðal annars í því, að þær þurfa að ná góðum tökum á ensku og öðrum málum, og þessi þörf opnar þeim nauðsynlega útsýn til umheimsins. Enskumælandi stórþjóðir geta á hinn bóginn freistazt til að láta það hjá líða að læra önnur tungumál og geta því orðið af viðskiptum og verðmætum menningartengslum við aðrar þjóðir.

Enda þótt gott vald þjóðar á ensku eða öðrum heimsmálum geti örvað viðskipti og efnahagslíf eins og sumar rannsóknir hagfræðinga virðast sýna, þá er einnig hægt að hugsa sér hið gagnstæða: að staðföst rækt við þjóðtunguna umfram önnur mál sé til marks um þrautseigju einnig á öðrum sviðum – þess háttar þrautseigju, sem getur skilað mönnum góðum lífskjörum til langs tíma litið. Athuganir mínar á ýmsum helztu gangráðum hagvaxtar um heiminn síðan 1965 virðast mér að svo stöddu benda til þess, að þjóðir, sem halda tryggð við eigin tungu frekar en að tileinka sér eitthvert heimsmál (ensku, frönsku, spænsku o.s.frv.), búi jafnan við mun örari hagvöxt en hinar að öðru jöfnu. Reynist þetta rétt, þá getur málrækt beinlínis borgað sig.

Og svo er eitt enn að endingu. Móðurmálið er ekki dautt áhald eins og rokkur, skilvinda, gjaldmiðill eða grammófónn. Tungan er þvert á móti líftaug fólksins, sem byggir þetta land. Þjóðtungan er að minni hyggju hafin yfir verðlagningu á markaði. Ásjóna Íslands væri öll önnur nú og fátæklegri, ef forfeður okkar hefðu lagt upp laupana og leyft íslenzku að víkja fyrir vondri dönsku, svo sem talsverð brögð voru að í Reykjavík og öðrum bæjum landsins fyrir 200 árum. Hefði svo farið, þá vantaði okkur nú styrkasta strenginn í menningu þjóðarinnar. Ég efast um, að Ísland hefði þá getað haldið óskertu aðdráttarafli gagnvart þeim þúsundum æskufólks, sem halda áfram að flykkjast til annarra landa ár fram af ári að mannast og mennta sig og hverfa síðan aftur hingað heim til starfa. Þetta fólk má Ísland aldrei missa.

_______________________________

* Benedikt Jóhannesson, ,,Hvað kostar að tala íslensku?”, í Greinar af sama meiði, greinasafn helgað Indriða Gíslasyni sjötugum, Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands, Reykjavík 1998. Benedikt kemst að þeirri niðurstöðu, að kostnaðurinn, sem fylgir því að tala íslenzku á Íslandi frekar en ensku, nemi á hverju ári um 4% af landsframleiðslu. Benedikt tekur fram, að kostnaðarmatið sé háð ýmislegri óvissu og móðurmálið og menning yfirleitt skili vitaskuld á móti margvíslegum afrakstri, sem erfitt sé að meta til fjár

Erindi á Degi íslenzkrar tungu í Hátíðarsal Háskóla Íslands 16. nóvember 2002.