3. mar, 2007

Hvar hefur skattheimtan aukizt mest?

Mynd 73. Skattbyrði hefur þyngzt til muna á Íslandi síðan 1985. Ísland var þá í miðjum hópi OECD-landa, en er nú komið langt upp fyrir meðallag í skattheimtu eins og myndin sýnir. Við erum þó ennþá langt undir öðrum Norðurlöndum, þar sem skattheimta ríkisins hefur keyrt um þverbak. Danmörk (57% árið 2005, ekki sýnt á myndinni, því að töluna fyrir 1985 vantar), Finnland, Noregur og Svíþjóð eru auk Frakklands (51%) einu lönd heimsins, þar sem skattheimtan nemur yfir helmingi landsframleiðslunnar. Austurríki (48% ) og Belgía (49%) eru þó ekki langt undan. Skattheimta á Íslandi er nú orðin meiri en í Evrópusambandinu. Við getum því ekki lengur státað af lágum sköttum, og þá ættum við að réttu lagi ekki heldur að una því, að opinber þjónusta við þegnana hér heima sé minni og lakari en annars staðar í Evrópu. Takið einnig eftir því, að skattheimtan í Evrópusambandinu og innan OECD hefur aukizt tiltölulega lítið síðan 1985: útþensla ríkisins hefur að mestu verið stöðvuð á heildina litið. Sjá frekari upplýsingar um einstök lönd á næstu mynd. Á þessari mynd og næstu er skattbyrðin skoðuð í víðum skilningi, svo að hún nær yfir skattgreiðslur fólks og fyrirtækja til bæði ríkis og sveitarfélaga, fjármagnstekjur og rekstrarafgang ríkisfyrirtækja. Sjá meira um málið í greininni Víst hefur skattbyrðin þyngzt. Heimild: OECD Economic Outlook 2005.