Morgunblaðið
17. júl, 1996

Hvað má læra af reynslu annarra?

Stýrir úttekt á sænsku efnahagslífi.

Þorvaldur Gylfason, prófessor í hagfræði, hefur verið fenginn til þess að stýra árlegri úttekt á sænsku efnahagslífi, sem gerð er á vegum virtrar sænskrar rannsóknastofnunar. Í stað þess að sænskir hagfræðingar fjalli um hagþróun í Svíþjóð eins og tíðkazt hefur hjá stofnuninni, hafa Svíar fengið Þorvald til að safna um sig hópi erlendra sérfræðina, sem munu skoða sænskt efnahagslíf með augum gestsins og birta árangurinn í bók í byrjun næsta árs.

Studieförbundet Samhälle och Näringsliv (SNS), sem gæti útlagzt Samtök um samfélags- og atvinnulífsrannsóknir, er óháð rannsóknastofnun, sem að mestu leyti er fjármögnuð af sænskum fyrirtækjum, en er þó óháð þeim. Stofnunin rekur víðtæka útgáfustarfsemi og hefur meðal annars verið ein helzta uppspretta upplýsinga um Evrópumál í Svíþjóð.

,,Höfuðverkefni stofnunarinnar er að nota fræðilegar rannsóknir til að styrkja innviði ákvarðanatöku í Svíþjóð, bæði innan fyrirtækja og hagstjórnarákvarðanir stjórnvalda”, segir Þorvaldur. ,,Stofnunin hefur gefið út úttekt hóps hagfræðinga á sænsku efnahagslífi á hverju ári undanfarna tvo áratugi. Ég hygg að ekki sé ofmælt að skýrslan sér helzta hagstjórnarskjal, sem gefið er út árlega í Svíþjóð, og þá gleymi ég ekki þeim skýrslum, sem ýmsar stofnanir ríkisvaldsins gefa út.

Skýrslan fær mikla umfjöllun í fjölmiðlum. Hún er gefin út í um 7.000 eintökum og er kynnt á um 40 fundum í Svíþjóð og 10 fundum utanlands, allt frá Los Angeles til Tókýó. Þetta er eina kerfisbundna skýrslan af þessu tagi, sem hagfræðingar, sem eru óháðir stjórnvöldum, gera. Þess vegna hefur hún notið virðingar í Svíþjóð.

Í fyrra kom út í fyrsta sinn skýrsla stjórnmálafræðinganefndar á vegum SNS, samhliða hagfræðingaskýrslunni. Því verki var stýrt af Olof Petersson, prófessor í Uppsölum. Hann sat ásamt fimm hagfræðingum í Lindbeck-nefndinni, sem skilaði nafntogaðri skýrslu um sænskt samfélag og efnahagslíf fyrir nokkrum árum. Þetta er til marks um það að menn telja að hagfræðingar þurfi að færa út kvíarnar og kveðja stjórnmálafræðinga til liðs við sig og öfugt. Því fagna ég mjög sjálfur.

Flestir helztu hagfræðingar Svía hafa tekið þátt í gerð skýrslunnar undanfarin tíu ár. Nú var hins vegar óskað eftir því við mig að ég setti saman alþjóðlega nefnd hagfræðinga til verksins. Ég hef fengið til liðs við mig heldri hagfræðinga frá Finnlandi, Danmörku, Noregi og Bretlandi. Þeir eru allir þekktir hver í sínu landi og heimsþekktir á meðal hagfræðinga. Þetta eru Seppo Honkapohja, prófessor í Helsingfors, Torben Andersen, prófessor í Árósum, Arne Jon Isachsen, prófessor við viðskiptaháskólann í Osló og John Williamson, sem starfar hjá Institute for International Economics í Washington í Bandaríkjunum.”

– Beitið þið öðru sjónarhorni en hinir sænsku hagfræðingar?

,,Já, við ætlum að skoða sænskt efnahagslíf úr svolitlum fjarska. Við eru útlendingar og höfum ekki sömu skilyrði til að fjalla um smáatriði í sænsku efnahagslífi og heimamenn. En það er einmitt tilgangurinn; að spyrja gesti hvað kunni að vera að í efnahagslífi Svíþjóðar. Við ætlum að spyrja spurninga á borð við þá, hvað Svíar geti lært af reynslu annarra.

Við ætlum að spyrja sérstaklega hvað þeir geti lært af reynslu Austur-Evrópuríkjanna síðastliðin fimm ár. Ríkin þar hafa ráðizt í gagngerar umbætur og umskipti frá miðstýringu til markaðsbúskapar. Margt af því, sem Svíar eru að fást við, er að sumu leyti harla keimlíkt því, sem Austur-Evrópuþjóðirnar hafa reynt.

Við ætlum líka að spyrja hvað Svíar geti lært af hagvaxtarundrinu í Austur-Asíu. Þjóðunum þar hefur tekizt að lyfta Grettistaki í efnahagslífi sínu undangengin ár og áratugi. Hvað af því gætu Svíar, sem eiga við mikinn hagvaxtarvanda að etja, fært sér í nyt?

Loks ætlum við að spyrja hvað Svíar geti lært af þeirri umbótabylgju, sem hefur riðið yfir heimsbúskapinn síðastliðin 10-20 ár. Undangengin ár, sérstaklega þó síðustu fimm ár, eru mesta umbótaskeið í hagsögu aldarinnar og jafnvel þótt horft sé enn lengra aftur í tímann. Hugsanlega er komið að því að þjóðir, sem hingað til hafa talið sér nægja að skoða sína eigin sögu og reynslu, hugi að því hvað þær geti flutt inn af nýtilegum hugmyndum að utan.”

– Hefði Ísland og íslenzkt efnahagslíf gott af svipaðir úttekt erlendra sérfræðinga?

,,Ég hef mælt fyrir því um árabil að hingað væru fengnir erlendir menn, sem sannanlega væru hafnir yfir alla flokkadrætti og hagsmunatengsl hér heima, til að segja álit sitt á íslenzku efnahagslífi. Reyndar hafa ýmsar alþjóðastofnanir gert allmikið gagn en utanaðkomandi hagfræðingar, til dæmis háskólahagfræðingar, gætu einnig orðið að miklu liði.”

Ólafur Stephensen tók viðtalið.