8. júl, 2005

Hlutdeild sjávarafurða í útflutningi 1980-2004

Mynd 44. Það gefur augaleið, að framsókn þjónustuhagkerfisins hlýtur að draga úr vægi hefðbundinna atvinnuvega í efnahagslífinu. Þannig hefur hlutdeild landbúnaðar í landsframleiðslu okkar Íslendinga minnkað úr 5% 1980 niður í 2% 1999 og hlutdeild sjávarútvegs (veiða og vinnslu) hefur með líku lagi minnkað úr 17% 1980 í 11% 1999 (sjá mynd 42). Hlutdeild sjávarfurða í útflutningi hefur einnig dregizt saman, eins og myndin að ofan sýnir. Hlutdeild útvegsins í útflutningi var um 60% 1980, en er nú komin niður 38% (2004). Hlutdeild fiskifangs í útflutningi tók djúpa dýfu árin 1983-1984 og fór þá niður fyrir helming, en það stafaði af miklum aflasamdrætti. Nú háttar á hinn bóginn þannig til, að hlutdeild sjávarútvegsins í útflutningi er komin niður fyrir helming í góðæri. Þetta er æskileg þróun og óhjákvæmileg. Hvers vegna? Jú, það stafar af því, að fiskaflinn á Íslandsmiðum helzt nokkurn veginn óbreyttur frá náttúrunnar hendi til langs tíma litið (og hefur raunar farið minnkandi með tímanum sumpart vegna ofveiði, að því er virðist), á meðan skerfur annarra atvinnuvega til þjóðarbúsins eykst jafnt og þétt. Hagvöxturinn á sér með öðrum orðum stað í iðnaði, verzlun og þjónustu fyrst og fremst, en sneiðir hjá sjávarútvegi (og landbúnaði) af náttúrufræðilegum ástæðum mestanpart. Þess vegna hlýtur framlag sjávarútvegsins (og landbúnaðarins!) til þjóðarbúskaparins að dragast saman með tímanum miðað við aðra atvinnuvegi. Nútímaþjóðarbúskapur hvílir á mannauði, sem getur oftast nær skilað mestu í iðnaði, verzlun og þjónustu — þeim greinum, sem spyrja helzt eftir vel menntuðu vinnuafli. Það hefur á hinn bóginn reynzt þjóðinni dýrt, hversu stjórnvöld hafa staðið í vegi fyrir þessari þróun með því að styrkja bæði sjávarútveg og landbúnað leynt og ljóst, bak og brjóst, með byggðasjónarmið að leiðarljósi eða að minnsta kosti að yfirvarpi. Þannig stendur á þeim gríðarlega kostnaði, sem enn er lagður á neytendur og skattgreiðendur á altari búverndarstefnunnar, svo sem svimandi hátt matarverð vitnar um enn þann dag í dag. Og þannig stendur einnig að miklu leyti á þeim mikla óbeina ríkisstyrk, sem útvegurinn hefur notið og nýtur enn aðallega í gegnum ókeypis aðgang að verðmætum aflaheimildum — aflaheimildum, sem þjóðin á í sameiningu samkvæmt lögum. Þessum tengslum eru gerð nánari skil í greininni Land og sjór eru systur.