DV
26. jan, 1996

Hér heyrist hvorki hósti né stuna frá Seðlabankanum

Seðlabankinn harðlega gagnrýndur í nýrri bók Þorvalds Gylfasonar:

 — stjórnmálamenn fá einnig sinn skammt í bókinni

,,Seðlabankinn hefur sennilega aldrei verið hallari undir stjórnmálahagsmuni en hann er nú, svo sem ráða má af núverandi skipan bankastjórnarinnar. Þess vegna getur bankinn ekki gert nema brot af því gagni, sem hann þyrfti að gera til að standast sanngjarnar gæðakröfur og til að réttlæta þann kostnað, sem þjóðin ber af bankanum. Núverandi ástand býður auk þess þeirri hættu heim, að Seðlabankinn byrji aftur að prenta peninga og fella gengi krónunnar með gamla laginu eftir geðþótta stjórnmálamanna, hvenær sem þeim býður svo við að horfa.”

Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri bók Þorvalds Gylfasonar hagfræðiprófessors sem kemur út um næstu mánaðamót. Bókin nefnist Síðustu forvöð og er fimmta bók Þorvalds á íslensku um hagfræði.

Í bókinni má lesa harða gagnrýni á Seðlabanka Íslands eins og fram kemur hér á undan. Þorvaldur segir að varla líði svo dagur eða vika að virt erlend blöð greini ekki frá góðfúslegri gagnrýni sjálfstæðra seðlabanka á ríkisstjórnir heima fyrir eða frá vinsamlegum umvöndunum og viðvörunum úr þeirri átt til almennings og stjórnvalda.

,,Hér heima heyrist á hinn bóginn hvorki hósti né stuna frá Seðlabankanum, þótt ærin tilefni séu til. Banka- og sjóðakerfi landsmanna hefur t.d. tapað 50 milljörðum króna síðan 1987 samkvæmt síðustu tölum án þess að Seðlabankinn, sem lögboðin bankaeftirlitsskylda hvílir þó á, hafi haft nokkuð til málsins að leggja opinberlega annað en að gera sem minnst úr öllu saman eftir dúk og disk. Nú er þó loksins farið að bera nokkuð á því, að erlendar efnahagsstofnanir, sem Ísland er aðili að, fetti fingur út í stefnu stjórnvalda hér heima og reyni að beina henni í réttan farveg fyrir opnum tjöldum. Það er framför og fordæmi sem íslenskir embættismenn eiga vonandi eftir að fylgja,” segir Þorvaldur.

Oftrú á brjóstvit en vantrú á bókvit

Bókin skiptist í fjóra bálka sem innihalda fjölmargar ritgerðir. Bálkarnir eru kynntir í ítarlegum inngangi en allar hafa ritgerðirnar birst áður á prenti í ýmsum blöðum og tímaritum. Í kynningu á bálkinum ,,Úr vörn í sókn” segir Þorvaldur:

,,Þessum bálki lýkur síðan með hugleiðingum um þann séríslenska vanda, sem fylgir því, að sumir þeirra, sem fjalla mest um fjármál þjóðarinnar eða stýra þeim, virðast vera tiltakanlega fákunnandi til þeirra verka án þess að gera sér grein fyrir því. Þetta virðist stafa sumpart af landlægri oftrú á brjóstvit og vantrú á bókvit og sumpart af slagsíðu í skólakerfinu, þar sem framhaldsskólanemendum eru kennd reiðinnar býsn í raunvísindum, svo sem eðlisfræði, efnafræði og náttúrúfræði, en lítið eða ekkert í hagfræði og öðrum félagsvísindum.”

Brennuvargar henta ekki til slökkvistarfa

Þorvaldur gagnrýnir íslensk stjórnvöld í bókinni. Hann segir kyrrstöðu í efnahagslífinu síðan 1988 fela í sér alvarlega viðvörun sem stjórnvöld hafi ekki tekið nógu nærri sér. Hann bendir á að síðustu fimm ár hafi verið mesta framfaraskeið í hagstjórnarsögu heimsins frá öndverðu. Þann tíma hafi Íslendingar ekki nýtt að neinu gagni til að rétta ,,rammskakka innviði” efnahagslífsins. Hér dregur Þorvaldur Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn til ábyrgðar, segir þá bera ,,höfuðábyrgð á hnignun undangenginna ára.” Þeir eigi því ekki auðvelt með að viðurkenna þörfina fyrir umbætur því að í því fælist viðurkenning á því hversu þeim hafi verið mislagðar hendur við landsstjórnina á liðnum árum.

,,Forystumenn flokkanna hafa því hag af því að þræta fyrir ófremdarástandið í lengstu lög og láta sem allt sé í lagi. Auk þess vita þeir það vel, að réttlát kjördæmaskipan, hagkvæmt og heilbrigt bankakerfi (og aðild Íslands að Evrópusambandinu!) myndu svipta þá völdum og forréttindum, enda helgast umbótaþörfin m.a. af nauðsyn þess að dreifa valdi og vernda almenning þannig gegn yfirsjónum og afglöpum innlendra stjórnvalda. Forystumönnum stjórnmálaflokkanna er hollt að hafa það í huga, að veður geta skipast æði skjótt í lofti á starfsvettvangi þeirra,” segir Þorvaldur m.a. og bætir við í þessu sambandi að brennuvargar henti yfirleitt ekki vel til slökkvistarfa.