Morgunblaðið
1. nóv, 2003

Heilbrigði eykur hagvöxt

Blandaður búskapur hagkvæmari en ríkiseinokun í heilbrigðisþjónustu.

“Það á að skera heilbrigðiskerfið upp en ekki niður,” segir Þorvaldur Gylfason rannsóknarprófessor við Háskóla Íslands.

Útgjöld hins opinbera nýtast betur ef kostir blandaðs markaðsbúskapar fá að njóta sín í heilbrigðisþjónustu. Fjárfesting í heilbrigði og menntun eykur hagvöxt og betri nýting fjármuna í heilbrigðiskerfinu væri mikill búhnykkur fyrir þjóðarbúið.

Þorvaldur Gylfason, rannsóknarprófessor við Háskóla Íslands, hefur kannað samhengið milli hagvaxtar og heilbrigðis, og er ekki í vafa um mikilvægi heilbrigðisútgjalda fyrir hagvaxtarþróun. Þegar 157 lönd eru flokkuð eftir því hve mikla læknishjálp konur fá við fæðingar kemur í ljós að hagvöxtur er mestur þar sem konur fá mesta læknishjálp. Fylgnin milli heilbrigðisútgjalda og hagvaxtar kemur einnig greinilega í ljós þegar hún er mæld í 163 löndum. Niðurstaðan er að aukning heilbrigðisútgjalda um 2,5% af landsframleiðslu eykur árlegan hagvöxt á mann um 1%. Það er ekkert smáræði því meðaltalshagvöxtur er víða milli 1 og 2%. Mikilvægi hagvaxtarins fyrir lífskjör má svo ráða af því t.d. að árið 1930 var jafnræði milli Argentínu og Bandaríkjanna í lífskjörum, mældum í þjóðartekjum á mann. Sextíu árum síðar eru lífskjörin orðin þrefalt betri í  Bandaríkjunum. Skýringin er sú að hagvöxtur hefur að meðaltali verið 0,4% á mann í Argentínu á þessu tímabili en 2% í Bandaríkjunum.

Fjárhags- og skipulagsvandi

“Lífsgæði ráðast af hagvexti á fyrri tíð og engu öðru”, segir Þorvaldur, “og mannauðurinn er ein helzta undirstaða hagvaxtarins.  Það segir sig sjálft að því betur menntað sem fólk er þeim mun meiri skilningur verður á gildi heilbrigðis og þeim mun meiri kröfur eru gerðar til heilbrigðisþjónustu. Og því heilbrigðara sem fólk er þeim mun færara er það um að afla sér menntunar. Þarna eru því víxlverkandi togkraftar að verki og hvernig sem á þá er litið eflir fjárfesting í menntun og heilbrigði hagvöxtinn.”

Þorvaldur lítur á heilbrigðisútgjöld sem aðföng en heilbrigðisþjónustuna sjálfa sem afurð ásamt gæðum hennar og virkni. Útgjöldin eru að hans dómi ótryggur mælikvarði á afurðina, og má í því sambandi nefna að þrátt fyrir myndarlega útgjaldaaukningu til heilbrigðismála á Íslandi er bæði við fjárhags- og skipulagsvanda að etja í heilbrigðiskerfinu.  

Vandamál áætlunarbúskapar

“Hér er í rauninni um ómannúðlegt ástand að ræða: Langir biðlistar eftir aðgerðum, gangainnlagnir á sjúkrastofnanir, sumarlokanir deilda á sjúkrahúsum og gamalt fólk sem bíður í 18 mánuði eftir vistun á hjúkrunarheimilum. Þarna erum við að kljást við vandamál sem rekja má til miðstýringar og áætlunarbúskapar sem hvarvetna hafa reynst illa”, segir Þorvaldur.

Ljóst er að hlutfall eldri borgara meðal landsmanna mun fara hækkandi á næstu áratugum samhliða því að spurn eftir góðri og jafnframt dýrari heilbrigðisþjónustu mun fara vaxandi á komandi árum. Hvernig telur Þorvaldur best að fást við það viðfangsefni?

“Við þurfum að hugsa fjárhagshliðina upp á nýtt og breyta verkaskiptingunni milli opinberra aðila og einkaaðila í heilbrigðisþjónustunni. Það er áfram hægt að taka mið af góðum réttlætis- og jafnaðargildum þótt búskapurinn verði blandaður. Mikilvægast er að fara betur með fé og gefa markaðsöflunum lausari taum en verið hefur. Ekki má trufla þann einkarekstur sem þegar er hafinn á þessu sviði því af honum fæst mikilvæg reynsla, hvort sem það nú eru einkareknar læknastofur, hjúkrunarheimili eða frjálsari lyfjamarkaður.

Almannavaldið mun áfram gegna stóru og mikilvægu hlutverki, einkum í eftirliti og aðhaldi. Við ættum að innleiða meiri einkarekstur, meiri samkeppni um leiðir og ná þannig fram þeim meginkosti blandaðs búskapar að öllum sé ljóst hvað hlutirnir kosta. Í því sambandi má nefna að í Noregi kom út “Hvít skýrsla” fyrir 12 árum sem leiddi rök að því að hægt væri að auka landsframleiðslu um allt að fjórðungi með betri meðferð almannafjár á heildina litið.”

Skilyrt útgjaldaaukning

Tregða til breytinga er veruleg í öllum stórum  kerfum og spyrja má hvort skipulagsbreytingar í heilbrigðisþjónustu séu ekki líklegar til að mæta andstöðu?

“Ég held það gæti verið skynsamlegt að auka heilbrigðisútgjöld hins opinbera á næstu árum til þess að vinna sem flesta á band breytinga. Einföld krafa um niðurskurð og hagræðingu skapar mótspyrnu. Það þarf að skapa áhuga á umbótum og halda áfram að auka opinber heilbrigðisútgjöld gegn skilyrðum um betri nýtingu fjármuna. Ég tel ekki heldur óraunsætt að hlutfall heilbrigðisútgjalda sem einkaaðilar borga hækki úr sjöttungi eins og þau eru nú í fjórðung, sem er algeng viðmiðun í Evrópu.”

Fjárfest verði í fólki

En hvernig getur Þorvaldur rökstutt það að blanda af einkarekstri og opinberum rekstri í heilbrigðiskerfi leiði til betri nýtingar fjármuna og meiri gæða í þjónustu heldur en ríkisrekstur?

“Þessu svara ég gjarnan með dæminu um íslensku tónlistarskólana. Þeir hafa verið einkareknir í hæfilega samræmdu kerfi og skilað þeirri tónlistarvakningu sem við njótum nú góðs af. Þeir eru lýsandi dæmi um kosti blandaðs búskapar. Það borgar sig frekar að fjárfesta í lifandi fólki en dauðum fiski. Mannauðurinn er okkar verðmætasta auðlind enda þótt stjórnvöld hafi verið treg til að viðurkenna það og haldi jafnvel enn að helstu auðlindir okkar séu í hafinu eða í iðrum jarðar. Sú afstaða er m.a. ein skýringanna á því að við höfum verið að dragast aftur úr á menntasviðinu.

Ég tel engum vafa undirorpið að það myndi skila miklum árangri ef einkageirinn fengi að njóta sín á mennta- og heilbrigðissviðinu án þess þó að verða þar ráðandi.

Af hverju fær fólk t.d. ekki að kaupa sér þá dvalarvist í ellinni sem það kýs sér?

Ég sé ekkert sem mælir á móti því svo fremi að öllum sé tryggð mannsæmandi vist á ellidögum. Alla vega er enginn vel sæmdur af ástandi öldrunarþjónustunnar eins og hún er nú. Allsnægtaþjóðfélagið á ekki að þurfa að una löngum biðlistum, skorti á dvalarrými og þrengslum á hjúkrunarheimilum. Þessu þarf að breyta í betra horf.”