7. júl, 2005

Hagvöxtur og verðbólga 1990-1997

Mynd 24. Umskipti landanna í Mið- og Austur-Evrópu og Mið-Asíu frá miðstjórn til markaðsbúskapar hafa ekki verið neinn dans á rósum, enda var ekki við því að búast. Myndin sýnir vöxt þjóðarframleiðslu á mann að meðaltali árin 1990-1997 á lóðréttum ás og verðbólgu yfir sama tímabil á láréttum ás. Flest löndin liggja neðan við lárétta ásinn á myndinni: þau hafa með öðrum orðum búið við neikvæðan hagvöxt þennan tíma. Það þýðir, að tekjur á mann hafa minnkað á þessum áratug og lífskjörum hefur hrakað. Pólland, Slóvenía og i minni mæli Albanía eru einu löndin á svæðinu, sem hafa búið við þokkalegan hagvöxt yfir tímabilið í heild. Framleiðslan hrundi að vísu í upphafi, en tók síðan að vaxa á ný. Pólverjar og Slóvenar njóta þess, að þeir réðust í skjótar og djarflegar umbætur um leið og veldi kommúnista hrundi. Tékkland og Ungverjaland hafa staðið nokkurn veginn í stað: framleiðslan minnkaði fyrsta kastið, en jókst svo aftur, að vísu mun hægar en vonir stóðu til. Til þessara vonbrigða liggja ýmsar ástæður. Það hefur til að mynda sýnt sig, að Tékkar hrintu í raun og veru ekki öllum þeim umbótum í framkvæmd, sem þeir stærðu sig af. Þeir þóttust til dæmis hafa einkavætt allt bankakerfið hjá sér, en síðan kom í ljós, að það vantaði talsvert upp á, að einkavæðingin hefði náð fram að ganga í reynd. Eistland er enn neðan við strikið þrátt fyrir miklar og róttækar umbætur. Þetta stafar af þeim þungu byrðum, sem Eistar þurfa enn að bera frá fyrri tíð. Löndin í suðausturhorni myndarinnar eiga það öll sammerkt, að þar hafa nauðsynlegar umbætur ýmist ekki enn átt sér stað eða dregizt á langinn, svo að sums staðar er framleiðslan ennþá ekki nema helmingur þess, sem hún var í upphafi áratugarins. Takið einnig eftir því, að hagvöxturinn hefur verið minnstur í þeim löndum, þar sem verðbólgan hefur verið mest. Verðbólgan er hér mæld með vísitölu, sem nær frá 0 (engin verðbólga) upp í 1 (óðaverðbólga); vísitalan er p/(1+p), þar sem p er verðbólguhraðinn í prósentum. Þetta sterka öfuga samband á milli hagvaxtar og verðbólgu í umskiptalöndunum rímar vel við reynsluna annars staðar að. Verðbólga virðist draga úr hagvexti um heiminn eftir ýmsum leiðum, meðal annars með því að draga úr sparnaði og spilla hagkvæmni í framleiðslu. Það er þó ekki endilega verðbólgan sjálf, sem spillir hagvextinum, heldur er verðbólgan sameiginlegt einkenni margs konar meinsemda (lélegs stjórnarfars, agalausrar hagstjórnar, veikra innviða), sem hefta hagvöxt. Hægur vöxtur virðist einnig að sínu leyti kynda undir verðbólgu.