Hagvöxtur og spilling 1990-1997
Mynd 26. Rannsóknir sýna, að spilling dregur úr hagvexti. Spillingaráhrifin ryðja sér ýmsa farvegi um þjóðarbúskapinn. Spilling dregur til að mynda úr fjárfestingu, bæði innlendri og erlendri (erlendir fjárfestar hika við að leggja fé sitt í vogun í löndum, þar sem spilling er algeng). Spilling helzt í hendur við rentusókn í löndum, sem eru háð náttúruauðlindum, og rentusókn dreifir kröftum frá gagnlegri iðju og skaðar efnahagslífið. Spilling dregur úr erlendum viðskiptum og hamlar hagvexti einnig með því móti. Þessum farvegum er lýst í ritgerðinni Náttúra, vald og vöxtur. Þessa sambands spillingar og hagvaxtar sér einnig stað í umskiptalöndum. Myndin sýnir vöxt þjóðarframleiðslu á mann 1990-1997 á lóðréttum ás eins og myndirnar tvær næst á undan (myndir 24 og 25) og spillingarvísitölu fyrir árið 1999 á láréttum ás. Spillingarvísitalan er unnin af Transparency International í Berlín. Hún byggir á skoðanakönnunum meðal þeirra, sem stunda viðskipti um heiminn. Þeir gefa löndum einkunnir eftir því, hversu oft og harkalega þeir eru krafðir um mútugreiðslur og þess háttar. Spillingarvísitalan er hæst í þeim löndum, þar sem spilling er minnst; Danmörk fær yfirleitt hæstu einkunnina (milli 9 og 10), á meðan Kamerún, Nígería og Pakistan eru á botninum (milli 1 og 2). Af umskiptalöndunum er Slóvenía talin minnst menguð af spillingu og síðan Eistland. Adserbaídsjanar og Úsbekar búa á hinn bóginn við mesta spillingu í hópnum og eru reyndar nálægt botninum, ef heimurinn er skoðaður í heild. Myndin sýnir skýrt samband á milli spillingar og hagvaxtar: því meiri sem spillingin er, þeim mun minni er hagvöxturinn. Einmitt þetta virðist einnig eiga við um heiminn í heild. Umskiptalöndin eru engin undantekning. Lögmálið er eitt.