8. júl, 2005

Hagvöxtur og náttúruauðlindir

Mynd 19. Þessi mynd sýnir sambandið á milli hagvaxtar og náttúruauðs í 92 löndum árin 1960-1997. Hagvöxtur á mann á ári að meðaltali árin 1960-1997 er sýndur á lóðréttum ás, og hlutdeild náttúruauðæfa í þjóðarauði, sem er samtala fjármagns, mannauðs og náttúruauðæfa, árið 1994 er sýnd á láréttum ás. Þessi mælikvarði á náttúruauðæfi er glænýr: Alþjóðabankinn í Washington hefur nýbirt þessar tölur. Það er rétt að taka það fram, að fiskimið eru ekki talin með í náttúruauðstölunum vegna skorts á upplýsingum,  svo að Ísland og aðrar fiskveiðiþjóðir eru ekki með í úrtakinu. Og hvað sýnir myndin? Hún sýnir skýrt neikvætt samband á milli hagvaxtar og náttúruauðs frá einu landi til annars. Svipuð niðurstaða fæst, þótt notaðir séu aðrir tiltækir mælikvarðar á náttúruauðinn, svo sem hlutdeild hráefnaútflutnings í heildarútflutningi eða landsframleiðslu eða þá hlutdeild hráefnaframleiðslu í mannaflanum, hvort sem hráefnin eru nú olía, málmar, fiskur, timbur eða búsafurðir. Hver punktur á myndinni sýnir hagvöxt og náttúruauð í einu landi. Punktarnir eru því jafnmargir löndunum í úrtakinu, eða 92. Löndin eru af öllu tagi: sum eru rík, önnur fátæk. Hallinn á aðfallslínunni í gegnum punktana er til marks um, að aukning náttúruauðs miðað við þjóðarauð um 13 prósentustig frá einu landi til annars helzt í hendur við hjöðnun hagvaxtar á mann um eitt prósentustig. Fylgnin er tölfræðilega marktæk, en hún er samt ekki óræk vísbending um orsök og afleiðingu. Þó virðast nýjar rannsóknir benda til þess, að sambandið, sem myndin sýnir, sé ekki einber tilviljun, því að hagtölur virðast sýna, að umfangsmikill hráefnabúskapur stendur yfirleitt í öfugu hlutfalli við (a) innflutning og útflutning (þetta er hollenzka veikin , sem svo er nefnd), (b) fjárfestingu, bæði innlenda og erlenda, og (c) menntun á öllum skólastigum. Og þar sem erlend viðskipti, fjárfesting og menntun eru mikilvægar uppsprettur hagvaxtar um heiminn, þá er skiljanlegt, að gnægð náttúrauðlinda hneigist að öðru jöfnu til að draga úr hagvexti, úr því að hún veikir helztu stoðir hagvaxtarins. Hinu má þó alls ekki gleyma, að það er ekki tilvist náttúruauðæfanna í sjálfri sér, sem vandanum veldur, heldur hitt, að mörgum þjóðum hefur haldizt illa á auðsuppsprettum sínum: auðlindastjórninni hefur verið ábótavant. Þessu máli eru gerð nánari skil í ritgerðunum Náttúra, vald og vöxtur og Náttúruauðlindir, útflutningur og Evrópa.