8. júl, 2005

Hagvöxtur og menntun 1965-1998

Mynd 51. Myndin nær yfir 86 lönd um allan heim árin 1965-1998 og sýnir sambandið milli vaxtar þjóðarframleiðslu á mann á ári á lóðréttum ás og aðsókn að framhaldsskólum 1980-1998 sem hlutfall af hverjum árgangi á láréttum ás. Hvert land er sýnt með einum punkti; efsti punkturinn á myndinni lýsir Botsvana, sem á heimsmetið í hagvexti síðan 1965. Við getum túlkað aðfallslínuna gegnum punktaskarann þannig, að aukning framhaldsskólasóknar um tæplega 30% af hverjum árgangi frá einu landi til annars haldist í hendur við aukningu hagvaxtar á mann á ári um eitt prósentustig. Sambandið er tölfræðilega marktækt (fylgnin er 0,41). Hvað segir þetta okkur? Tökum Mexíkó til dæmis. Þar sækja innan við 70% af hverjum árgangi framhaldsskóla. Ef þeim í Mexíkó tækist að koma öllum í framhaldsskóla, svo sem tíðkast um langflest önnur OECD-ríki, þá myndi það duga til að auka hagvöxt á mann um 1% á ári að öðru jöfnu til langs tíma litið (enda þótt framleiðsla kynni að dragast saman í bráð, þegar ungt fólk færi af vinnumarkaði í skóla). Það er ekki lítið miðað við það, að þjóðarframleiðsla á mann í Mexíkó óx um 1,5% á ári að jafnaði árin 1965-1998. Sambandi menntunar og hagvaxtar er lýst nánar í greinunum Náttúra, menntun og lífskjör og Menntun, gróska og markaður.