7. júl, 2005

Hagvöxtur og landbúnaður 1990-1997

Mynd 25. Hagvöxtur er yfirleitt minni í þeim löndum, sem binda mikinn hluta mannaflans við landbúnað, þ.m.t. fiskveiðar, en í þeim löndum, þar sem iðnaður, verzlun og þjónusta hafa leyst landbúnaðinn af hólmi. Þetta á sér þá einföldu skýringu, að framleiðni í iðnaði, verzlun og þjónustu er allajafna meiri en í landbúnaði: menntun mannaflans er meiri og betri, framleiðslutæknin er fullkomnari og þar fram eftir götunum. Þetta samband á við um heiminn í heild og um einstök svæði eins og t.d. umskiptalöndin. Myndin sýnir, að mestu landbúnaðarlöndin hafa búið við mestan samdrátt í framleiðslu: aukning í hlutdeild landbúnaðar í mannafla um 10 prósentustig (t.d. úr 10% í 20%) hefur haldizt í hendur við samdrátt í hagvexti um 4 prósentustig á ári í umskiptalöndunum á þessum áratug. Hér er þó ekki framleiðnimun ólíkra atvinnuvega eingöngu um að kenna. Andstaða gegn efnahagsumbótum og gegn frjálsum og heilbrigðum markaðsbúskap er yfirleitt meiri til sveita en í þéttbýli, þar sem fólkið er betur menntað. Af þessu leiðir, að nauðsynlegar umbætur eiga undir högg að sækja í þeim löndum, sem binda mikinn hluta mannaflans við landbúnað í dreifbýli. Góð menntun er til margra hluta nytsamleg: vel menntað fólk er yfirleitt móttækilegra fyrir efnahagsumbótum og öðrum framförum.