Morgunblaðið
19. maí, 2002

Hagvöxtur í smærri ríkjum fylgir heimsþróun

Harvard og HÍ standa að ráðstefnu um hagkerfi smáríkja

Hagvöxtur í smærri ríkjum fylgir heimsþróun

HARVARD-háskóli og Háskóli Íslands standa á morgun, mánudag, í sameiningu fyrir alþjóðlegri ráðstefnu sem ber heitið Ísland og heimsbúskapurinn: Hagkerfi smárra eyríkja á tímum alþjóðavæðingar og fram fer í Harvard-háskóla. Þetta er í fyrsta skipti sem þessir skólar leiða saman hesta sína með þessum hætti, að sögn Þorvaldar Gylfasonar prófessors sem skipulagði ráðstefnuna ásamt Jeffrey Sachs, einum virtasta hagfræðingi heims, sem er forstöðumaður Alþjóðaþróunarstofnunar Harvard og jafnframt prófessor þar.

Ráðstefnan er lokuð og er hún einkuð ætluð forystumönnum í stjórnmálum og atvinnulífi auk hagvaxtarfræðinga víðs vegar að úr heiminum. Alls munu milli 70 og 80 manns sækja ráðstefnuna, að sögn Þorvaldar. Hann segir að fræðimenn sem hafa sérstaklega rannsakað hagkerfi smárríkja muni fjalla um rannsóknir sínar. Ísland verði í forgrunni, eins og nafn ráðstefnunar ber með sér. ,,Einnig verður fjallað sérstaklega um Máritíus, sem er eitt þeirra undralanda í þriðja heiminum, reyndar í Afríku, sem hafa rifið sig upp úr örbirgð og stefna á allsgnægtir. Þá verður einnig fjallað um Míkrónesíu, ýmsar Karíbahafseyjar og Kýpur,“ segir Þorvaldur.
Í inngangserindi sínu munu þeir Þorvaldur og Sachs glíma við spurningar er varða hagkerfi smáríkja og stærri landa, hvað er frábrugðið og hvað þau eiga sameiginlegt. Til dæmis hvort hagvöxtur sé hraðari eða hægari í smáum hagkerfum en stórum og hvaða kostir og gallar fylgja smæðinni.

,,Við erum ríkasta landið í þessum hópi og njótum ýmissa af kostum smæðarinnar, en þurfum ef til vill einnig að líða fyrir hana. Stóri gallinn við smæðina er sá að heimamarkaðurinn er svo lítill að menn njóta ekki hagkvæmni stærðarinnar, nema menn eigi þá þeim mun meiri viðskipti við útlönd til að eiga þá aðgang að stærri markaði. Þetta er höfuðvandi smáríkja í efnahagsmálum. Og svo er einnig vert að velta því fyrir sér hvort smæðin bjóði upp á kosti sem vega gallana upp. Reyndar eru höfuðniðurstöður okkar Sachs á þá leið, að það er miklu minni munur á litlum löndum og stórum en margir hafa haldið,“ segir Þorvaldur.

,,Okkar aðalniðurstaða er að hagvöxtur í smáríkjum er eiginlega óaðgreinanlegur frá hagvexti í heiminum í heild síðastliðinn 40 ár. Gallar smæðarinnar virðast ekki svo stórvægilegir að þeir dragi úr hagvexti, eins og stundum hefur verið haldið fram. Og ef smæðinni fylgja kostir eru þeir ekki heldur svo miklir að hagvöxtur þessara landa sé hraðari en annars staðar,“ segir Þorvaldur. Hann segir að þannig hafni þeir þeim skoðunum sem haldið hefur verið á lofti ýmist um veikleika eða yfirburði smáríkjabúskapar.
Ný fræðileg rök fyrir yfirburðum veiðigjalds

Þorvaldur heldur einnig fyrirlestur með Martin Weitzman, sem er þekktur hagfræðingur við Harvard-háskóla, um rannsóknir þeirra á stjórnun fiskveiða á Íslandi. ,,Weitzman liðsinnti á sínum tíma auðlindanefndinni og er öllum hnútum kunnugur hér heima. Það er mikill fengur í því að afburðafræðimaður, eins og hann, fallist á að fjalla um íslensk málefni. Aðalniðurstaða okkar er að veiðigjald hafi ótvíræða hagkvæmniskosti umfram kvótakerfi af því tagi sem tíðkast á Íslandi og munum við færa ný fræðileg rök fyrir þeirri skoðun,“ segir Þorvaldur.

Fleiri fræðimenn munu kynna rannsóknir sínar á ráðstefnunni, þar á meðal ýmsir sérfræðingar við Harvard-háskóla og einnig Tryggvi Þór Herbertsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, og Gylfi Zoega, dósent í Birckbeck College í London, sem munu fjalla um það, hvernig sérhæfing getur vegið upp galla smæðarinnar í litlum löndum og ýtt undir hagvöxt. Þá mun Már Guðmundsson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, fjalla um fyrirkomulag stjórnunar peninga- og gengismála í litlum hagkerfum. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, flytur ræðu um tækifæri smáríkja á tímum alþjóðavæðingar.

Þorvaldur segir að stefnt sé að því að gefa út bók með fyrirlestrum sem fluttir verða á ráðstefnunni.

 

Nína Björk Jónsdóttir tók viðtalið.