7. júl, 2005

Hagvöxtur í eyðimörkinni

Mynd 27. Hagvöxtur er afstæður. Menn una ekki hægum vexti heima hjá sér, ef hagvöxturinn í nálægum löndum er mikill. Samt er heimurinn fullur af þjóðum, sem stóðu í svipuðum sporum ekki alls fyrir löngu og búa samt við gerólík lífskjör nú. Finnland og Eistland stóðu í svipuðum sporum á fjórða áratug aldarinnar, Eistar jafnvel feti framar Finnum, en eftir það urðu Eistar sovézkum kommúnisma að bráð og efnahagur landsins var lagður í rúst. Svipaða sögu er að segja um Vestur- og Austur-Þýzkaland, Austurríki og Tékkland, Taíland og Búrmu, Suður- og Norður-Kóreu, Taívan og Kína, Spán og Argentínu, Botsvönu og Nígeríu, Máritíus og Madagaskar. Það var að vísu ekki kommúnismi að sovézkri fyrirmynd, sem hægði á hagvexti í Argentínu og Nígeríu, heldur alvarleg hagstjórnarmistök af öðru tagi. Sagan af þessum löndum er rakin í sumum bóka minna, m.a. í Viðskiptin efla alla dáð og Principles of Economic Growth. Hér skulum við skoða Túnis og Marokkó. Myndin sýnir, að löndin bjuggu við svipaða framleiðslu á mann snemma á 7. áratugnum, en nú eru tekjur á mann í Túnis orðar tvisvar sinnum meiri en í Marokkó. Hvað veldur þessum mikla mun, sem myndazt hefur á ekki lengri tíma? Svarið er, að segja má, þríþætt: Túnis hefur lægt meiri rækt við (a) sparnað og fjárfestingu, (b) útflutning og erlend viðskipti og (c) menntun þegnanna. Fjárfesting, útflutningur og menntun eru næstum óbrigðular uppsprettur auðs og vaxtar. Þær þjóðir, sem vanrækja þetta þrennt, búa yfirleitt við minni hagvöxt en hinar að öðru jöfnu. Marokkó, Túnis og Egyptalandi er lýst nánar í greininni Eyðimerkurhagfræði. Sjá einnig Myndir af hagvexti.