Fjármálatíðindi
4. sep, 1998

Hagstjórn og hagvaxtarhorfur við upphaf nýrrar aldar

Það er ótrúlegt, en eigi að síður satt: þegar ég byrjaði að lesa hagfræði á Bretlandi og í Bandaríkjunum fyrir næstum 30 árum, þá var það svo
að segja viðtekin skoðun í þjóðhagfræði, að hagvöxtur til langs tíma litið væri ónæmur fyrir lélegri hagstjórn. Hagvaxtarfræðin, sem þá var
kennd, leiddi menn að þeirri niðurstöðu, að vöxtur þjóðarframleiðslu á mann réðist nær eingöngu af tækniframförum, sem voru ytri stærð í
hugarheimi hagfræðinga og þar með ekki í þeirra verkahring. Þá var ekkert greinilegt samband að sjá á milli hagstjórnar og tækniframfara,
því að tækni var fyrst og fremst verkfræðilegt viðfangsefni, ekki hagfræðilegt. Þetta var samt engin undirmálskenning, öðru nær, því að hún
var frábærlega glæsileg að allri gerð, og hún færði aðalhöfundi sínum, Robert Solow, prófessor á MIT, Nóbelsverðlaun löngu síðar, eins og hann átti skilið.