Hagstjórn, fjármál og hagvöxtur
Þessi ritgerð fjallar um þrjár hliðar á stjórn peningamála og ríkisfjármála í Evrópu og annars staðar. Í upphafi máls fjalla ég um þá þýðingu, sem efnahagssamruni Evrópu hefur fyrir stjórn peningamála og fjármála ríkisins, og þá ekki sízt sú þrönga áherzla, sem lögð er á litla verðbólgu sem meginmarkmið peningastefnunnar. Rök mín eru einkum þau, að verðbólga er af margvíslegum rótum runnin, svo að þeir,
sem fara með stjórn peningamála og er boðið að lögum að halda verðbólgu í skefjum, hljóta að reyna að beita nýfengnu sjálfstæði sínu með því að áskilja sér rétt til að ráðast að rótum verðbólgunnar. Í þessu samhengi velti ég því einnig fyrir mér, að hve miklu leyti aukið sjálfstæði sé æskilegt við stjórn ríkisfjármála, þar á meðal frelsi undan íhlutun stjórnmálamanna, sem hneigjast til að láta skammtímasjónarmið ráða gerðum sínum. Ég kynni einnig fjölþjóðleg samanburðargögn um tengslin milli verðbólgu, fjármála og hagvaxtar. Ég færi rök að því, að stöðugt verðlag eigi helzt að vera forgangsverkefni sjálfstæðrar stefnumörkunar í peningamálum og ríkisfjármálum, ef markmiðið er að örva hagvöxt til langs tíma litið. Í þriðja lagi útlista ég nokkrar hliðar á tengslunum milli stjórnar ríkisfjármála annars vegar og hagvaxtar hins vegar og legg áherzlu á þríþætt hlutverk fjármálastjórnar ríkisins: stöðugleika verðlags, ráðstöfun framleiðsluþátta og skiptingu tekna, en allt getur þetta stuðlað að hagvexti til langs tíma litið, sé vel á málum haldið. Röksemdafærslan hnígur að þeirri niðurstöðu, að einungis verðlags og stöðugleikamarkmið stefnunnar í ríkisfjármálum, og e.t.v. einnig sumar hliðar ráðstöfunarmarkmiðsins, mætti með góðu móti fela öðrum yfirvöldum til að einangra þau frá stjórnmálaafskiptum, sem geta markazt af skammsýni og haft óæskilegar afleiðingar fyrir efnahagslífið. Þessi rök eiga þó ekki við um þau markmið fjármálastefnunnar, sem lúta að tekjuskiptingu.