7. júl, 2005

Hagkvæmni, stjórnmál og réttlæti

Mynd 40. Átök um stjórnmál má greina út frá tveim meginsjónarmiðum. Annars vegar greinir menn á um réttlæti: þeir eru ýmist jafnaðarmenn í víðum skilningi eða ekki. Jafnaðarmenn telja, að almannavaldinu beri höfuðskylda til að jafna kjör þegnanna og tryggja viðunandi réttlæti í samfélaginu með afskiptum af ýmsum velferðarmálum. Aðrir leggja minni áherzlu á jöfnuð þegnanna, velferð og samfélagsréttlæti og telja minni þörf á íhlutun almannavaldsins til að efla jöfnuð og velferð, oft með þeim rökum, að of mikill jöfnuður geti bitnað á hagkvæmni. Jafnaðarmenn geta svarað þessu þannig, að of mikill ójöfnuður geti einnig dregið úr hagkvæmni. Báðir hafa nokkuð til síns máls. Hins vegar greinir menn á um hagkvæmni: þeir eru ýmist efnahagsumbótamenn eða ekki. Umbótamenn eru hlynntir breytingum, sem myndu auka hagkvæmni í efnahagslífinu og lyfta lífskjörum almennings til langs tíma litið. Aðrir sætta sig við óbreytt ástand án umbóta af tillitssemi við þá, sem hafa hag af óbreyttri skipan, oft með þeim rökum, að róttækar umbætur myndu raska skiptingu auðs og tekna og valda umróti og óþægindum í bráð. Jafnaðarmenn geta svarað þessu þannig, að umbætur, sem lyfta lífskjörum almennings til lengdar, skapa skilyrði til þess, að enginn þurfi að vera verr settur eftir en áður, þegar öllu er á botninn hvolft. Við getum því skipt stjórnmálastefnum í fjóra flokka eins og taflan sýnir.

Réttlæti í öndvegi Réttlæti ekki í öndvegi
Hagkvæmni í öndvegi A B
Hagkvæmni ekki í öndvegi C D

Hálfhringurinn á myndinni að ofan lýsir þeim höfuðvalkostum, sem stjórnmálaflokkar standa frammi fyrir. Réttlæti er sýnt á lóðréttum ás og hagkvæmni á láréttum ás. Hvernig við mælum hagkvæmni og réttlæti, skiptir ekki höfuðmáli hér. Réttlæti getur til dæmis átt við sómasamlegan jöfnuð í eigna- og tekjuskiptingu. Hagkvæmni getur átt við þjóðartekjur á mann eða vinnustund til langs tíma litið. Neðri helmingur hálfhringsins lýsir því svæði, þar sem meira réttlæti og aukin hagkvæmni haldast í hendur. Þarna eru mörg þróunarlönd stödd og fyrrverandi kommúnistalönd og ýmis önnur: aukin rækt við heilbrigðis-, mennta- og velferðarmál í þessum löndum myndi efla bæði hagkvæmni og réttlæti. Efri helmingur hálfhringsins lýsir á hinn bóginn því svæði, þar sem frekari eftirsókn eftir réttlæti dregur úr hagkvæmni, með því að frekari skattheimta til að standa straum af auknum ríkisútgjöldum myndi slæva vinnuvilja og sparnað til dæmis. Í ritgerðinni Að flokka stjórnmálastefnur er fjallað um það, hversu skipa má stjórnmálamönnum og flokkum í flokkana fjóra að ofan.