Morgunblaðið
23. feb, 1986

Hagfræðirannsóknir og dragbítar íslenzks efnahagslífs

Viðtal Sigrúnar Davíðsdóttur við Þorvald Gylfason prófessor

Hvar leita hagfræðingar fanga í rannsóknir sínar? Og hvernig lítur íslenzkt efnahagslíf út á skrifborði hagfræðings, sem stundar rannsóknir í þjóðhagfræði, en tekur ekki þátt í að stjórna íslenzka efnahagsspilinu? Þessar spurningar og fleiri voru lagðar fyrir Þorvald Gylfason, prófessor við Háskóla Íslands, og sem stundar auk þess rannsóknir við alþjóðlega hagfræðistofnun í Stokkhólmi.

Rannsóknir í hagfræði

SD: Hverjar eru forsendur rannsókna þinna? Við hvað fæstu?

ÞG: Ég hef reynt að koma víða við. Þó hef ég einkum átt við tvennt síðustu árin, orsakir og afleiðingar verðbólgu og áhrif gengisbreytinga. Arabíska olíuverðshækkunin 1973-74 kveikti í mér eins og mörgum öðrum. Í kjölfar hennar fóru margir hagfræðingar einnig að velta fyrir sér áhrifum innlendra kostnaðarhækkana, einkum kauphækkana, á samband verðbólgu og atvinnuleysi. Áhuginn var sérlega mikill í Evrópu, því að í mörgum löndum þar eru 80-90% vinnandi fólks í verkalýðsfélögum, meðan aðeins fimmti hver launþegi í Bandaríkjunum er í verkalýðsfélagi. Í Bandaríkjunum er kauplag nálægt því að ráðast á frjálsum markaði eins og vöruverð og vextir. Í Evrópu er kauplag hins vegar að miklu leyti ákveðið í samningum verkalýðssamtaka og vinnuveitanda. Enn er sú skoðun algeng í Ameríku, að verkalýðsfélög séu of veikburða til að geta haft áhrif á verðbólgu eða atvinnuleysi. Öðru máli gegnir um Evrópu.

Allir vita að verkalýðsfélög og vinnuveitendur hafa lengi togazt á um þjóðartekjur, bæði hér og annars staðar. Þegar talað er um ,,víxlhækkanir kaupgjalds og verðlags”,  er átt við þessa togstreitu. Fyrirtækin hækka vöruverð til að auka sinn hlut í þjóðartekjum, þá knýja launþegar á um kauphækkun til að rétta sinn hlut og svo áfram.

Á undanförnum árum hefur athygli manna beinzt að öðrum og kannski ekki eins augljósum eltingarleik, þ.e. togstreitu einstakra launþegahópa. Allir þekkja hvernig velferð manna ræðst ekki aðeins af því, sem þeir bera úr býtum sjálfir, heldur líka af hlutskipti náungans. Til dæmis getur einum liðið illa vegna þess að annar fékk kauphækkun. Verkalýðsfélögin virðast keppa hvert við annað í vaxandi mæli. Það er algengt, að launþegaforingjar segi blákalt, að þeirra félagar verði að fá kauphækkun, af því aðrir hafi farið fram úr eða dregið á þá. Þannig getur hagkerfið hafnað í vítahring keðjuverkandi kauphækkana, sem eiga sér enga stoð í aukinni framleiðni fyrirtækja. Ég held, að í þessu sé að nokkru leyti að finna hvatann að þeim miklu kauphækkunum umfram framleiðniaukningu, sem hafa orðið víða í Vestur-Evrópu, síðustu 10-15 árin. Þannig hefur innbyrðis keppni verkalýðsfélaga virzt stuðla að bæði verðbólgu og atvinnuleysi, auk annars.

En þetta er ekki allt, því ríkisvaldið dregst iðulega inn í þetta stríð með einhverjum hætti. Setjum svo, að kauplag hækki einhliða eins og gerðist í mörgum Evrópulöndum, á síðasta áratug. Ef annað gerist ekki, neyðast fyrirtækin til að fækka fólki og hækka verð, því vinnukraftur er orðinn dýrari. Hvað á ríkisvaldið að gera? Halda að sér höndum og leyfa þeim fyrirtækjum, sem ráða ekki við kauphækkun, að leggja upp laupana? Eða á ríkisvaldið að rýra kaupmáttinn aftur til að halda fyrirtækjum á floti með peningaprentun og gengisfellingu? Og hvernig eiga verkalýðsfélögin þá að bregðast við? Gefast upp eða knýja fram nýja kauphækkun, sem kallar á nýjar verðbólguráðstafanir ríkisstjórnarinnar? Svona togstreita verður auðveldlega að taugastríði, þar sem hver reynir að sjá við öðrum. Hegðun hvers og eins fer eftir því, hvernig hann heldur að hinir bregðist við.

Nýfengin reynsla Breta er dæmi um þetta. Þegar ríkisstjórn Thatchers kom til valda 1979, var verðbólgan á Bretlandi yfir 20% á ári og atvinnuleysingjar voru um milljón, sem þótti ærið. Stjórnin ákvað að ráðast á verðbólguna með því fyrst og fremst að hægja á seðlaprentun, enda gerði Thatcher ráð fyrir að lækkandi verðbólga drægi úr kaupkröfum verkalýðsfélaganna, þannig að raunverulegur launakostnaður fyrirtækja stæði nokkurn veginn í stað. En það fór á annan veg. Kaupið hélt áfram að hækka eins og ekkert hefði gerzt líklega vegna þess að verkalýðsfélögin trúðu ekki öðru en ríkisstjórnin gæfist upp á aðhaldinu. Sumpart vegna þessara óvæntu viðbragða verkalýðshreyfingarinnar rauk atvinnuleysi upp úr öllu valdi. Nú, meira en 6 árum seinna, er verðbólgan komin niður í 5%, en atvinnuleysi hefur meira en þrefaldazt.

Tökum annað dæmi. Í Svíþjóð er áberandi, hvernig kauphækkanir hafa kallað á skattahækkanir og öfugt, undanfarin ár. Almenn kauphækkun eykur náttúrlega útgjöld ríkissjóðs, því þriðjungur vinnandi fólks þar vinnur hjá ríkinu. Ef stjórnin vill ekki prenta peninga eða taka lán fyrir útgjaldaaukningunni á íslenzka vísu, verður hún að hækka skatta og þeir eru lagðir á vinnandi fólk fyrst og fremst. Þá lækka ráðstöfunartekjur launþega og til að rétta hlut sinn heimta þeir hærra kaup, sem kallar á nýja skattheimtu og þannig áfram. Sænski ríkisgeirinn hefur belgzt út, meðal annars vegna þess, að ríkisstjórnin hefur verið ófús að veita kauphækkunum út í verðlagið að íslenzkum hætti.

Við Assar Lindbeck prófessor í Stokkhólmi höfum ásamt öðrum verið að reyna að kortleggja þessa vítahringi síðustu ár, sumpart með aðferðum svonefndrar leikjafræði (,,game theory” á ensku), en þeim aðferðum beita til dæmis hernaðarfræðingar við athuganir á vígbúnaðarkapphlaupi stórveldanna. Eins og næstum alltaf í hagfræði, nálgumst við þetta með því að reyna að búa til á blaði einföld stærðfræðilíkön af samhengi þeirra fyrirbæra, sem um er að tefla, þ.e. kaupkröfum verkalýðsfélaga og efnahagsstefnu stjórnvalda í okkar dæmi. Svo reynum við að rekja samspil t.d. kauplagsþróunar og ríkisfjármálastefnu innan þess ramma, sem við setjum okkur, m.a. til að skoða, hvaða áhrif togstreita verkalýðsfélaga og ríkisvalds hefur á verðbólgu, atvinnuleysi og stærð ríkisgeirans.

Ég hef líka haft gaman af að velta fyrir mér áhrifum gengisfellinga. Gengi er viðkvæmt hagstjórnartæki eins og kunnugt er. Orðið eitt segir sitt, það hljómar ekki gæfulega. Til skamms tíma voru gengisfellingar algengari undanfari stjórnarskipta í þriðja heiminum en kosningar. Tortryggni í garð gengisfellinga hefur aukizt á síðustu árum í kjölfar olíuverðshækkana, því þegar gengið fellur, hækkar kostnaður þeirra fyrirtækja, sem nota innflutt aðföng, eins og t.d. olíu, við framleiðslu sína. Þá er hugsanlegt, að fyrirtækin bregðist við gengisfellingu með niðurskurði í sparnaðarskyni, nema eitthvað annað gerist um leið. Þess vegna hafa menn óttast, að gengisfelling sé ekki bara verðbólguráðstöfun eins og oft vill verða, heldur samdráttarráðstöfun í þokkabót.

En hvers vegna er gengið fellt? Venjulega vegna þess að við flytjum meira inn en út og eyðum þannig meira en við öflum.Viðskiptahallinn, sem af þessu hlýzt, er venjulega jafnaður með erlendum lánum. Það er yfirleitt óheppilegt til lengdar, því lánin þarf að endurgreiða með vöxtum, áður en lýkur. Gengisfelling getur þá verið skynsamleg ráðstöfun, því hún drýgir útflutningstekjur og hækkar verð innflutnings, svo hann dregst saman. Viðskiptahallinn minnkar venjulega við gengisfellingu eins og er ætlast til. En hún hefur margs konar önnur áhrif, sem einnig þarf að athuga áður en gengisfelling er ákveðin. Hún getur valdið samdrætti, þyngir erlendu skuldabyrðina í íslenzkum krónum og færir tekjur frá launþegum til fyrirtækja. Nú vaknar mikilvæg spurning: Eru þessi hliðaráhrif svo mikil, að lækningin sé verri en sjúkdómurinn eða eru þau hégómi?

Ásamt öðrum hef ég reynt að finna svör við spurningum af þessu tagi að undanförnu, með því að búa til einfalt reiknilíkan, sem er ætlað að líkja eftir öllum helztu þáttum efnahagslífsins, sem gengisfelling snertir. Svo fellum við gengið í líkaninu og skoðum áhrifin, ekki bara á viðskiptajöfnuðinn, heldur líka á tekjur heimila, atvinnustig, verðlag, kauplag , hagnað fyrirtækjanna o.fl. Við höfum beitt þessari einföldu aðferð við fjölmörg iðnríki og þróunarlönd. Yfirleitt hefur niðurstaðan orðið sú, að hliðaráhrifin virðast minni háttar, en þó er það svolítið breytilegt eftir löndum. Þessi niðurstaða hefur komið á óvart, því margir áttu von á meiri samdráttaráhrifum. Ef margir aðrir komast að sömu niðurstöðu, er kannski eitthvað til í þessu!

Hvar þrengir að í íslenzku efnahagslífi?

SD: Það hefur gengið örðuglega að koma á stöðugleika í efnahagslífi hér, þó það hafi verið gerðar ýmsar fálmkenndar, en endingarlitlar tilraunir. Geturðu gert grein fyrir hættulegum fyrirbærum í íslenzku efnahagslífi?

ÞG: Það er auðvelt að fetta fingur út í þá efnahagsstefnu, sem hver ríkisstjórnin eftir aðra hefur fylgt undanfarin ár. En það verður að skyggnast undir yfirborðið. Það er til dæmis ekki nóg að skella skuldinni á almennt aðhaldsleysi í peningamálum án þess að hugleiða, hvort það væri yfirhöfuð vinnandi vegur að veita öflugt aðhald í bankakerfinu, sem við búum við.

Það virðist augljóst að með því að halda fastar um peningaprentun og gengisskráningu undanfarin ár, hefði verið hægt að hafa betra taumhald á verðbólgunni. Stefnan, sem fylgt hefur verið, hefur verið varin með því að meiri festa bitnaði á atvinnuástandinu.

Þessi ótti hefur að mínum dómi verið of mikill. Mér finnst ákaflega ólíklegt, að meiri aðhaldsviðleitni hefði bitnað á athafnalífinu og öll þessi verðbólga hafi verið nauðsynleg til að tryggja fulla atvinnu. En hitt er líka rétt, að barátta við verðbólgu, rétt eins og offitu, getur verið erfið, því hún veldur óþægindum löngu áður en árangurinn kemur í ljós.

En jafnvel .þó stjórnvöld hefðu reynt að fylgja aðhaldssamri stefnu í peninga- og efnahagsmálum yfirleitt, virðist óvíst, hversu vel það hefði getað tekizt, því sumir innviðir efnahagslífs hér standa skynsamlegri hagstjórn fyrir þrifum að mínum dómi. Mig langar að nefna tvennt: ríkisbankakerfið og skipulag vinnumarkaðarins.

Það er nánast einsdæmi í okkar heimshluta, að allir stærstu viðskiptabankar hér eru ríkisbankar. Eins og allir vita er þeim stjórnað af fulltrúum stjórnmálaflokkanna. Það er ekki tilviljun, heldur þvert á móti tilgangur slíks kerfis, að lánveitingar ráðast hvað eftir annað af stjórnmálahagsmunum, ekki af venjulegum viðskipta- og hagkvæmnisjónarmiðum. Því hafa óarðbær útlán bankakerfisins áreiðanlega verið miklu meiri en ef hér væru öflugir einkabankar, sem gerðu sanngjarnar arðsemiskröfur. Vegna þess að mörg fyrirtæki hafa ekki þurft að lúta arðsemisaga einkabanka hefur peningaprentun, erlendar skuldir, verðbólga og ofveiði orðið verri viðfangs en ella. Mér sýnist að sjálft ríkisbankakerfið torveldi stjórn efnahagsmála, ekki vegna þess að ríkisbankar þurfi endilega að vera verr reknir en einkabankar, heldur af því að þeir stjórnmálahagsmunir, sem ríkisbankarnir lúta, stangast iðulega á við hagsmuni almennings. En það verður erfitt að breyta þessu, því það er aldrei auðvelt að fá stjórnmálamenn til að sleppa völdum, sem þeim hafa verið fengin

Skipulag vinnumarkaðarins hefur líka valdið alvarlegum skaða í efnahagslífi hér að mínum dómi. Allir vita hvernig vinnuveitendur og verkalýðsforingjar semja um kaup og kjör: Þeir ákveða tíma- eða vikukaup upp á svo og svo margar krónur, hvað sem öðru líður. Þetta er vond aðferð, því setjum svo, að það komi afturkippur í efnahagslífið, t.d. vegna þess, að Bandaríkjamenn kaupi minni fisk. Hvað eiga fyrirtækin þá að gera? Ef þau eiga ekki gilda varasjóði og ríkið neitar að prenta peninga eða fella gengið verða þau að draga úr kostnaði. Þar sem vinnulaun eru langstærsti kostnaðarliðurinn í flestum fyrirtækjum verða þau annaðhvort að lækka kaup eða fækka fólki. Ef kaupið er fast samkvæmt kjarasamningi er ekki um annað að ræða en fækka fólki. Í þessu kerfi hafa fyrirtækin ekki svigrúm til að bregðast við svona áföllum öðruvísi en með uppsögnum. Þess vegna er þetta vont kerfi. Ég held, að í nærliggjandi löndum sé umtalsverður hluti atvinnuleysisins fólginn í þessu. Íslenzka aðferðin hefur hins vegar verið sú að veita öllum áföllum út í verðlagið, með peningaprentun og gengisfalli.

Japanir fara öðruvísi að. Þar er ekki aðeins samið um fast kaup, heldur líka um fastan hlut starfsfólks í hagnaði fyrirtækja. Þegar japanskt fyrirtæki verður fyrir skakkaföllum lækkar hlutur hvers í samræmi við minni hagnað, en enginn missir vinnuna. Með þetta í huga þarf engum að koma á óvart, að atvinnuleysi og verðbólga í Japan eru miklu minni en í Evrópu og Ameríku og hagvöxtur meiri. Við getum lært af þessu.

Á vinnumarkaðinum skiptir miklu máli hver semur við hvern. Lítum aftur á Japan. Þar er samið um kaup og kjör í hverju fyrirtæki fyrir sig. Þegar japanskir launþegar gera kaupkröfur vita þeir, að ef þeir spenna bogann of hátt, þá fer þeirra eigið fyrirtæki á hausinn og sjálfir missa þeir vinnuna. Þeir hafa því beinan hag af hófsamlegum kröfum. En líkt og t.d. í Danmörku og Englandi er hér samið um kaup eftir starfsgreinum. Þannig eru t.d. allir trésmiðir í tilteknum landshluta í sama verkalýðsfélagi, þó þeir vinni hjá ólíkum fyrirtækjum, sumum vel reknum, öðrum illa eins og gengur. Foringjar smiðanna semja um laun við fulltrúa allra þessara vinnuveitenda. Meðalsmiður í meðalfyrirtæki hefur engan hag af hóflegum kröfum, veit reyndar, að ef kaupið hækkar um of geta veikustu fyrirtækin komizt í kröggur, en sjálfum er honum yfirleitt óhætt. Og þegar kaupkröfur eins eru í þann veginn að kosta annan vinnuna, segir ríkisstjórnin helzt ekki: ,,Þér var nær”, heldur prentar peninga eða fellir gengið, svo fyrirtækin haldist á floti. Þannig virðist mér samningakerfið hér hafa stuðlað að miklum ríkisafskiptum af kjarasamningum og mikilli verðbólgu.

Meinsemdin í vinnumarkaðskerfinu hér er því tvíþætt: Fyrirtækin hafa ekki svigrúm til að takast á við tekjumissi nema með því að fækka fólki eða heimta verðbólguráðstafanir af ríkinu. Og launþegar hafa iðulega hag af því að knýja fram kauphækkanir, sem ríða fjölda fyrirtækja að fullu, nema ríkisvaldið hleypi vandanum út í verðlagið. Japanska kerfið hefur hvorugan þennan galla.

SD: En ef yfirburðir japanska kerfisins eru algerir, hvers vegna erum við þá ekki löngu búin að taka það upp? Einhverjir hljóta að eiga hagsmuna að gæta í óbreyttu ástandi eða hvað?

ÞG: Einmitt, og þar stendur hnífurinn í kúnni. Þegar japanskt fyrirtæki eða þjóðarbúið allt verður fyrir áfalli missa allir eitthvað en enginn allt, enginn missir vinnuna. Þegar sama gerist í Evrópu eða Ameríku halda allir öllu sínu nema þeir sem missa vinnuna. Meirihlutinn, sem tapar engu beint, heldur kannski, að hann hafi hag af þessu. En það er skammsýni. Ef núverandi vinnumarkaðskerfi okkar er sá verðbólgu- og atvinnuleysisvaldur, sem ég held það sé, þá bitnar það á flestum eða öllum á endanum.

SD: Meginviðfangsefni í efnahagsmálum hér mörg undafarin ár hefur verið verðbólgan. Af hverju er verðbólga hættuleg?

ÞG: Vegna þess að hún raskar öllu efnahagslífinu og mörgum öðrum þáttum þjóðlífsins og hlýtur að bitna á lífskjörum almennings, þegar til lengdar lætur.

Rifjum upp, þegar verðbólgan rauk upp hér fyrir rúmum áratug. Mörg ár liðu áður en vöxtum var breytt til hins betra til samræmis við verðbólguna. Eignatilfærslan, sem varð í millitíðinni, hefur að vísu ekki verið kortlögð, en var örugglega gríðarleg. Augljósustu fórnarlömbin voru gamla fólkið. Sparifé þess brann á verbólgubálinu, meðan unga fólkið baðaði sig í byggingarljóma. Hvers vegna gerði fólk ekki uppreisn gegn þessu arðráni? Kannski er ein ástæðan sú, að eignir fluttust ekki milli ólíkra þjóðfélagshópa fyrst og fremst, eins og gerðist í Þýzkalandi eftir fyrra stríð, þegar óðaverbólgan þurrkaði úr eignir þýzku miðstéttarinnar og Hitler kom í kjölfarið, heldur innan fjölskyldna. Ömmur og afar fóru ekki á mótmælafundi úr því börnin stóðu með pálmann í höndunum.

En þetta er ekki allt. Sparnaður hætti að borga sig. Hagtölur frá þessum tíma sýna vel, að bankasparnaður fólks og fyrirtækja minnkaði snarlega miðað við tekjur, og innlent ráðstöfunarfé bankanna minnkaði eftir því. Eina leiðin til að bankarnir gætu haldið áfram að lána fyrirtækjum var að prenta peninga og taka lán í útlöndum. Þannig má segja, að erlendi skuldabagginn, sem við berum nú og er níðþungur á heimsmælikvarða, sé að sumu leyti bein afleiðing verðbólgunnar. En þrátt fyrir öll erlendu lánin tókst ekki að koma í veg fyrir, að verðbólgan skerti lífskjörin. Hagvöxtur hér hefur minnkað verulega síðustu árin, sumpart af völdum verðbólgunnar að mínu dómi, svo tekjur okkar hafa dregizt alvarlega aftur úr tekjum hjá öðrum þjóðum. Allt þetta mátti sjá fyrir og hefur verið margsagt.

SD: Hvers vegna var látið reka á reiðanum allan þennan tíma?

ÞG: Mér dettur helzt í hug, að tvennt, sem gerðist á sama tíma og verðbólgan rauk upp, hafi ruglað menn. Fiskaflinn jókst verulega í kjölfar landhelgisútfærslunnar og giftar konur flykktust út á vinnumarkaðinn. Hvort tveggja bætti lífskjörin mikið, þrátt fyrir verðbólguna. Annars held ég við hefðum brennt okkur fyrr og verr á verðbólgunni. Ég held líka, að okkur hefði nýtzt landhelgisútfærslan og vaxandi vinna kvenna utan heimilis miklu betur hefði verðbólgan ekki grafið undan afrakstrinum.

SD: Þú leggur áherzlu á, að verðbólgan hafi grafið undan innlendum sparnaði framan af. Sparifé brann lengi, áður en vextir voru hækkaðir. Má líta svo á, að stjórnmálamenn í bankakerfinu hafi ekkert verið að flýta sér að breyta þessu, því þeir gátu beint niðurgreiddu lánsfé, þangað sem þeir kusu?

ÞG: Jú, ég held, að hefðum við búið við einkabankakerfi, þegar verðbólgan fór úr böndum, hefðu vextir trúlega lagazt fyrr að verbólgunni og hún orðið minni.

SD: Ýmsum þykja vextir hér háir. Hvað segirðu um vexti núna?

ÞG: Raunvextir hér hafa að undanförnu verið ívið lægri en í mörgum löndum í kring. Þeir eru að vísu allmiklu hærri en áður en það er erfitt fyrir lítið land að halda raunvöxtum fyrir neðan raunvexti nágrannanna til lengdar. Ég trúi varla, að gagnrýni á raunvaxtastefnu stafi af því, að fólki þyki óeðlilegt að endurgreiða lán að fullu, þ.e. með verðbótum auk vaxta. Raunvextir af húsnæðislánum eru enn yfirleitt neikvæðir, að greiddum sköttum. Ég held að gagnrýni stafi frekar af því kaupmáttur launa hefur minnkað mikið síðan vísitölubinding launa var afnumin, meðan lán eru yfirileitt verðtryggð.Þess vegna eru margir húsbyggjendur og aðrir að sligast undan skuldum sínum.

SD: Sem sagt, það hefur verið klippt af kaupinu, en ekki af vöxtum, svo fólk þarf að borga sívaxandi hluta launa í vexti af lánum.? Hvað er til ráða?

ÞG: Það er nú ekki mín deild, heldur langar mig til að spyrja annarrar brennandi spurningar á móti: Hvers vegna eru vinnuveitendur í landinu ekki borgunarmenn fyrir hærra kaupi en raun ber vitni? Mér sýnist ein ástæðan sú, að hér hefur ekki orðið nægileg endurnýjun í ýmsum greinum efnahagslífsins. Í gamla miðbænum í Reykjavík eru sífellt að skjóta upp kollinum nýjar og nýjar verzlanir, þar sem aðrar voru fyrir. Þar á sér stað stanzlaus endurnýjun, enda er verzlun blómleg og bærinn fallegur eftir því. Hvernig ætli væri umhorfs í bænum, ef búðareigandinn færi beint í bankann sinn, hvenær sem búðin kæmist í kröggur, og fengi lán til að halda taprekstrinum gangandi og reikningnum væri svo vísað á almenning með peningaprentun og gengisfellingu? Þá væri ljótt við Laugaveginn er ég hræddur um, auk þess sem tapreksturinn væri dragbítur á lífskjör almennings. Ef aðrar atvinnugreinar fengju frið til sams konar endurnýjunar, held ég, að efnahagslífið allt gæti orðið jafn blómlegt og búðirnar í bænum.

 Texti: Sigrún Davíðsdóttir.