Skírnir
4. okt, 2011

Hagfræði á Íslandi: Brautin rudd

Orðið „hagfræði“ kemur fyrst fyrir, svo vitað sé, í ritgerð séra Arnljóts Ólafssonar (1823-1904) í Skýrslum um landshagi á Íslandi 1857.

Upphafsorð ritgerðar Arnljóts eru þessi: „Hagfræðin er skýring á högum lands og lýða, framsögð í tölum.” Næst kemur orðið fyrir í ræðu á Alþingi 1861, en þar segir ræðumaður: „En eg lái meira þíngmanni Borgfirðínga, sem er maður vel að sér í hagfræði og stjórnfræði, hvernig hann hefir tekið í þetta mál.“ Freistandi væri að álykta, að ræðumaðurinn hlyti að hafa verið Jón Sigurðsson (takið eftir broddunum í „þíngmanni Borgfirðínga“), en svo er ekki, Jón sótti ekki þingfundi 1861 og 1863, þetta voru þau ár, þegar hann kom ekki til Íslands í sex ár samfleytt 1859-1865, sár eftir deilurnar um fjárkláðann. Þessu næst birtist orðið hagfræði á prenti skömmu eftir 1860, en þar sagði um Jón Sigurðsson: „hann hafði lagt sig eptir hagfræði í Höfn.” Í fjórða sinn birtist orðið hagfræði á prenti 1866 í riti Bókmenntafélagsins: „ … alþíngismenn vantaði allar almennar skýrslur um hagfræði landsins”. Hér heldur Jón Sigurðsson á penna.

Ritgerðin birtist í bók sem fylgdi hausthefti Skírnis á 200 ára afmæli Jóns forseta 2011.