Facebook
28. ágú, 2025

Guðrún Árnadóttir frá Stóra-Vatnsskarði

Í dag er til moldar borin Guðrún Árnadóttir frá Stóra-Vatnsskarði í Skagafirði, frænka mín, ævinlega kölluð Gunna Árna. Við vorum bræðurnir allir þrír hver á eftir öðrum í sveit á sumrin á Stóra-Vatnsskarði og stundum tveir í einu ásamt öðrum börnum. Það voru löng sumur og sælurík í gamla bænum uppi við hólinn handan árinnar. Gunna var þar einnig öll sumur við heyskap og önnur störf, sólskinsglöð og fögur. Það geislaði af henni. Þetta var og er menningarheimili. Einkum kunni Solla móðir Gunnu reiðinnar býsn af kvæðum og fór með þau við heyskapinn og inni í bæ eins og Þorsteinn bróðir minn hefur lýst á prenti. Á kvöldvökum var sungið af hjartans list, Gunna lék á gítar og Benni þandi nikkuna og ég fékk stundum að slá taktinn með rúmbukúlum og þreytti þar mína frumraun á tónlistarbrautinni. Benni og Gunna voru bræðrabörn og náin sem systkini væru. Benni minnist bæjarbragsins á Vatnsskarði í fallegri minningu sinni um Gunnu í dag með þessum orðum: “Við bræðrabörnin vorum uppalin í Gamla bænum á Vatnsskarði, tvær fjölskyldur í sama húsinu, tvennt af öllu, tvö eldhús, borðað við tvö borð og ekki endilega sami matur á borðum. Allt í mjög föstum skorðum, meira að segja heimilishundarnir voru undir réttum borðum.” Einmitt svona man ég bæjarbraginn á Vatnsskarði. Myndina að neðan tók Ingimundur Gíslason, síðar augnlæknir, á hlaðinu ca. 1957. Þar erum við Gunna lengst t.v., þá Ingibjörg Halldórsdóttir, Imba, mágkona Gunnu, þá Ingibjörg Árnadóttir, kölluð frænka, föðursystir Gunnu fyrir miðju, þá Guðrún Þorvaldsdóttir, frænka Gunnu og loks Kristín Pétursdóttir, Stína, föðursystir Benna, lengst t.h. Öllu þessu fólki og öðrum á heimilinu á Stóra-Vatnsskarði fylgja glaðar og hlýjar minningar ásamt djúpri þökk.

Gæti verið mynd af 6 manns